04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

162. mál, Norðurlandsborinn

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina til hæstv. raforkumrh. þremur spurningum, sem varða jarðhitaleit á Norðurlandi og einkum þó stóra Norðurlandsborinn svonefnda, sem nú hefur verið fluttur suður til Vestmannaeyja til þess að bora þar eftir neyzluvatni. Ákvörðunin um að flytja Norðurlandsborinn frá Húsavík virðist hafa verið tekin af nokkurri skyndingu, a.m.k. kom fréttin um ákvörðun þessa nokkuð flatt upp á borgara í Húsavíkurkaupstað og raunar engu siður bæjaryfirvöld þar. Er sú saga nokkuð kunn af blaðafréttum og vafalaust enn í fersku minni flestum hv. þm. Ég skal því ekki rekja það mál nánar. Hitt vil ég taka fram og undirstrika, að þessi ákvörðun um flutning borsins frá Norðurlandi til Vestmannaeyja hefur ekki síður vakið athygli í öðrum byggðarlögum á Norðurlandi, og ég vil einnig undirstrika það, að þær spurningar, sem ég hef hér borið fram við hæstv. ráðh., eru einmitt þær spurningar, sem almenning norðanlands fýsir að fá svör við. Almenningur á Norðurlandi lítur svo á, að stóri Norðurlandsborinn hafi verið keyptur í þeim tilgangi að vinna að jarðhitarannsóknum á Norðurlandi, en í þeim efnum er geysimikið starf óunnið í öllum sýslum Norðlendingafjórðungs, þó að alkunna sé, að jarðhitasvæði eru mörg og dreifð um allar sýslur fjórðungsins, Húnavatnssýslu, Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.

Ég held, að það geti ekki farið milli mála, að sú skoðun var rétt og er rétt, að stóri Norðurlandsborinn var keyptur til landsins til þess að vinna með honum að jarðhitarannsóknum á Norðurlandi einvörðungu. í 22. gr. fjárl. fyrir árið 1959 er að finna ákvæði, sem segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að kaupa í samráði við jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar jarðbor, sem notaður verði til jarðhitarannsókna á Norðurlandi.“

Þessi heimild var að vísu ekki notuð þá þegar, en málinu var haldið vakandi, einkum fyrir tilstuðlan þm. á Norðurlandi, og á fjárlögum 1960 voru veittar 2 millj. kr. til kaupa á bornum. Í ársbyrjun 1961 kom borinn til landsins, en var ekki tekinn til notkunar á Norðurlandi fyrr en komið var fram á sumar 1962, en þá var hafin borun í Ólafsfirði í leit að auknu vatni fyrir hitaveitu kaupstaðarins. Bar sú borun mjög góðan árangur að segja má, og því mátti segja, að borinn hefði þegar í stað sannað nauðsyn sína og gildi. Að lokinni borun í Ólafsfirði var borinn fluttur austur í Þingeyjarsýslu, fyrst í Námaskarð og síðan til Húsavíkur. Árangur af borun í Húsavik var því miður ekki sá, sem vænzt hafði verið, og fer þó fjarri, að búið sé að gefa upp vonina um, að heitt vatn finnist þar sem þess virtist helzt að leita. Og ég treysti mér auðvitað ekki til að gagnrýna það í sjálfu sér, að borun skyldi hætt í bili í Húsavík, eins og árangri starfsins var háttað til þessa. En hins vegar gat ekki hjá því farið, að spurningar vöknuðu um það, hvers vegna ekki var búið að undirbúa borun annars staðar á Norðurlandi, þannig að tryggt væri, að borinn yrði jafnan notaður í Norðlendingafjórðungi, þar sem verkefni eru næg og þar sem Alþ. hafði ætlað bornum að starfa, svo lengi sem verkefni væru fyrir hendi.

Ég vil ekki hafa þessi formálsorð lengri. Fyrirspurnir mínar eru, að ég held, svo skýrar, að þær geta ekki valdið neinum misskilningi. En ég vil endurtaka það, að þessar spurningar eru einmitt þær sömu sem almenningur norðanlands fýsir mest að vita í sambandi við Norðurlandsborinn og jarðhitamálin á Norðurlandi, en þessar fyrirspurnir eru þannig:

„1) Hvaða verkefni eru Norðurlandsbornum ætluð að lokinni borun í Vestmannaeyjum? 2) Hvað er áætlað, að borunin í Vestmannaeyjum taki langan tíma? 3) Hvaða áætlanir liggja fyrir um jarðhitaleit á Norðurlandi nú og í næstu framtíð?“

Ég vænti þess, að hæstv. raforkumrh. geti veitt fullnægjandi svör við þessum fsp.