04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

162. mál, Norðurlandsborinn

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig eðlilegt, að fsp, komi fram um mál eins og þetta og svara sé óskað við því, sem ekki kann að vera kunnugt í þessu mál.

Það er þá fyrsta spurning: „Hvaða verkefni eru Norðurlandsbornum ætluð að lokinni borun í Vestmannaeyjum? Það er fljótt því til að svara, að það eru margs konar verkefni Norðanlands, sem bíða og er nú unnið við undirbúning að, áður en heppilegt þykir að taka Norðurlandsborinn þar í notkun, eins og ég mun víkja að síðar.

Og önnur spurning: „Hvað er áætlað, að borunin í Vestmannaeyjum taki langan tíma?" Það er áætlað, að það geti tekið 3—4 mán.

Og þriðja spurning: „Hvaða áætlanir liggja fyrir um jarðhitaleit á Norðurlandi nú og í næstu framtíð?“ Það eru margar áætlanir um það, og skal ég koma að því og lesa nokkuð úr skýrslu Gunnars Böðvarssonar um það atriði, en hann hefur unnið að þessum málum, eins og kunnugt er, og má ætla hann fróðastan um jarðhita hér á landi. Og ég vil upplýsa það, að það var í samráði við hann, sem borinn var fluttur til Vestmannaeyja, því að þótt það sé í aðalatriðum rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að þessi bor hafi verið ætlaður sérstaklega til jarðhitarannsókna Norðanlands, þá verður þó að segja, að það var gert með það í huga, að hann væri ekki staðbundinn á Norðurlandi, ef það hentaði að flytja hann til, og eins og núna er, þá þótti ekki heppilegt að bora meira á Húsavík með þessum bor, fyrr en athugun hefði farið fram. Hins vegar er gert ráð fyrir, að það verði haldið áfram borun á Húsavík með smærri borum. Í Akureyrarlandinu, þar sem gera má ráð fyrir að næst verði borað með Norðurlandsbornum, er enn ekki lokið undirbúningi og rannsóknum, áður en borunin getur hafizt, því að það þurfa að fara fram allvíðtækar rannsóknir, áður en borunin hefst, til þess að gera sér grein fyrir því, hvað er líklegast að ná árangri, og að þessu er unnið. Þess vegna má segja það, að á næstu vikum var ekki verkefni hentugt fyrir Norðurlandsborinn fyrir norðan. Hins vegar var tekin ákvörðun um það að leita að vatni í Vestmannaeyjum, og Norðurlandsborinn þótti sérstaklega hentugur við það verk, því að það er gert ráð fyrir að bora þar miklu dýpra en hinir minni borar ná til, en Reykjavíkurborinn hins vegar of stór.

Ég hygg, að þegar menn athuga þetta, verði engin óánægja út af því, þó að þessi flutningur hafi átt sér stað á bornum. Borinn er vitanlega eign landsmanna allra og til þess ætlazt, að hann sé notaður hverju sinni eftir því, sem ætla má, að hann nýtist bezt.

Ég vil lesa hér nokkuð upp úr skýrslu Gunnars Böðvarssonar um næstu verkefni á Norðurlandi í sambandi við jarðhitaleit. Gunnar Böðvarsson segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með nýrri tækni hafa vinnslumöguleikar aukizt. Gufubor ríkisins og Reykjavíkurborgar og Norðurlandsborinn geta gert holur niður í allt að 2000 m dýpt. Djúpvatnsvinnsla er að sjálfsögðu talsvert fyrirtæki og kostnaður vatnseiningar tiltölulega mikill. Þannig mun vinnslukostnaður í Reykjavík vera um 150 þús. kr. á hvern lítra á sekúndu af vatni, miðað við frjálst rennsli úr borholum. Undirbúningskostnaður getur skipt milljónum, og kostnaður einn af borholum niður á 1000 m dýpt mun nú vera 1.52 millj. kr. Er því augljóst, að vinnsla af þessu tagi kemur aðeins til greina fyrir meiri háttar kaupstaði, minni notendur verða enn að sætta sig við hin takmörkuðu afnot jarðvarma frá laugum eða úr efstu jarðlögum. Djúpboranir koma naumast til greina á þeim stöðum.

Varmaveitur eru í Ólafsfirði og á Sauðárkróki. Á þessum stöðum eru vinnsluaðstæður tiltölulega auðveldar, einkum við Sauðárkrók. Gera má ráð fyrir því, að auknar boranir muni á báðum stöðum auka nýtilegt vatnsrennsli og því megi stækka þessar veitur nokkuð. Í Húsavík er greinilega jarðhiti, og jarðhitadeildin hefur verið þeirrar skoðunar, að þar mætti tiltölulega auðveldlega ná nægilegu rennsli af 60 gráðu til 100 gráðu heitu vatni til hitunar Húsavíkurkaupstaðar. Fyrir skömmu var tilraunaborun gerð í Húsavík. Dýpt hennar er 1560 m. En árangur var þó enginn, þótt borun hafi gengið greiðlega. Þessi neikvæði árangur er að vísu bagalegur, en jarðhitadeildin telur þó engan veginn ástæðu til þess að örvænta um árangur á Húsavík og telur rétt að halda boruninni áfram. Í umræddri borholu er um 90 gráðu hiti á 400 m dýpt, og bendir ýmislegt til þess, að á þessari dýpt megi vinna heitt vatn. Deildin telur því horfur á því, að Húsavikurkaupstaður muni á næstu árum geta komið upp varmaveitu.

Meginverkefni jarðvarmarannsókna á Norðurlandi er að kanna, hvort vinna megi heitt vatn fyrir Akureyri og Siglufjarðarkaupstað. Akureyri virðist nægilega stórt veitusvæði til þess að bera djúpvatnsvinnslu. Um Siglufjörð verður ekkert fullyrt að sinni, en málið er til athugunar. Auk þessa eru ýmis minni háttar verkefni, þ.e. rannsóknir fyrir einstaklinga og minni kauptún. Einkum má nefna verkefni fyrir Dalvík, en nokkur jarðhiti er í nágrenni kauptúnsins.

Þeim jarðhitarannsóknum, sem unnið er að, má skipta í tvo flokka, þ.e. almennar rannsóknir á hita, leka og gerð berggrunnsins á Norðurlandi og leit að jarðhita í efri berglögum á ákveðnum stöðum. Hér skal í stuttu máli greint frá þessum athugunum.

Gerðar hafa verið víðs vegar á landinu grunnar borholur til þess að mæla hita og varmastraum í jörðu. Tvær slíkar holur eru á Norðurlandi, ein á Vaðlaheiði og ein á Vatnsskarði í Skagafirði. Þessar athuganir hafa enn ekki borið árangur, og mælingarnar á Vaðlaheiði eru ekki í samræmi við niðurstöður á flestum öðrum stöðum á landinu. Hitinn á Vaðlaheiði virðist vera tiltölulega lágur, og er nauðsynlegt að kanna þetta betur. En ef notaðar eru niðurstöður frá öðrum stöðum slíkra mælinga, virðist hiti í bergi á 1000 m dýpt vera frá 40 og allt í 150 gráður. Um Eyjafjarðarsvæðið er enn ekki vitað með fullri vissu. Tilgangur hinna almennu rannsókna er að kanna, hvort djúpvatnsvinnsla komi til greina á Norðurlandi og þá einkum á svæðinu umhverfis Akureyri. Að svo stöddu verður ekkert fullyrt um möguleika, en þó má telja réttlætanlegt að gera fyrstu könnunarboranir á svæðinu. Verða þær væntanlega gerðar á næstkomandi vori.

Undanfarin ár hefur jarðhitadeildin gert athugun á jarðhita á allmörgum stöðum á Norðurlandi. Flestar þessara athugana hafa verið gerðar með það fyrir augum að kanna, hvort auka megi með borunum rennsli til afmarkaðra jarðhitasvæða. Leit að berggöngum er eitt meginverkefnið, og hefur sú leit yfirleitt borið árangur í Eyjafirði. Þar virðast nær allar laugar tengdar við bergganga. Þegar borað er eftir vatni á þessum stöðum, ber að skera gangana á hæfilegri dýpt. Þá eru efnagreiningar laugavatns þýðingarmikill liður. Einkum getur kísilsýruinnihald vatnsins gefið hugmynd um botnhita jarðhitasvæða og getur þannig gefið mjög mikilsverðar upplýsingar. Nú munu allar laugar á landinu hafa verið efnagreindar, og liggur því fyrir mjög mikið efni til úrvinnslu.“

Þetta er úr skýrslu Gunnars Böðvarssonar, og eins og fram kemur, er ljóst, að verkefni eru alimikil á Norðurlandi í sambandi við jarðhitarannsóknir, og við skulum vænta þess, að Akureyrarsvæðið svari því, að það verði talið sjálfsagt að byrja borun þar, þegar borinn verður fluttur frá Vestmannaeyjum, og eins og fram kemur í þessari skýrslu, þá kemur einnig til athugunar að nota bennan bor á Siglufirði. Húsavík, jafnvel Sauðárkróki og Ólafsfirði enn frekar en verið hefur. Ég vænti svo, að fsp. hafi verið svarað með þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram.