11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Fyrirspyrjandi (Sigarvin Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans við þessari fyrirspurn. Hann taldi, að hlutverk rn. hefði ekki verið annað en að senda ályktunina til Framkvæmdabankans. Það kann að vera, að það megi skilja orðalag ályktunarinnar á þennan veg. En ég held, að Alþ. hafi meint meira, þegar það var að samþ. þessa ályktun, heldur en bara þetta. Ég held, að það sé ótvírætt, að Alþ. hafi ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þegar væri hafizt handa um ráðstafanir til þess að stöðva fólksflótta, en ekki aðeins það að senda Framkvæmdabankanum ályktunina og láta þar við sitja.

Þetta hefði auðvitað ekki þurft að koma að neinni sök, ef brugðið hefði verið við og eitthvað gert í málinu, en það lítur svo út, að Framkvæmdabankinn hafi ekki haft neinn hraða á í þessu. Samkv. ályktuninni átti Framkvæmdabankinn m.a. að hafa samráð við stjórn atvinnubótasjóðs. Hefur hann gert það? Hann átti að hafa samráð við sýslunefndir og bæjarstjórn á Vestfjörðum. Mér er kunnugt um, að það var ekki farið að skrifa þessum aðilum seint í nóvember s.l. vetur. Hvenær það hefur svo verið gert, það veit ég ekki, hvort þau bréf hafa komizt af stað, áður en átti að vera búið að ljúka tillögugerð um ráðstafanir gegn þessum fólksflótta. Mér sýnist hægagangurinn hafa verið með mesta móti í málinu.

Hæstv. ráðh. segir, að Framkvæmdabankinn hafi vikið þessu yfir til Efnahagsstofnunarinnar. Ég hef ekkert út á það að setja. Ég treysti henni alveg eins og engu síður til þess að framkvæma þessa ályktun. Síðan er ráðinn maður frá þriðju stofnuninni, frá Seðlabankanum. Það er rétt, að sá maður hefur fyrir fáum dögum skrifað eitthvað opinberlega um jafnvægi í byggð landsins, en hvað hann hefur gert í þessu máli, er mér algerlega ókunnugt um, ef hann hefur þá gert nokkuð. Þá hefur verið leitað til Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um sérfræðing: Ekki skal ég finna að því. en hann er enginn fenginn og enginn veit, hvenær hann kemur. Og hvað ætli flytji margt fólk af Vestfjörðum, meðan allt Þetta gengur fyrir sig? Var virkilega ekki hægt að hefjast handa með ráðum Íslendinga sjálfra í þessu máli? Ég er ekki að finna að því, þótt erlendur sérfræðingur sé fenginn, öðru nær. En var ekki hægt að fara að ræða þetta mál við forustumenn Vestfirðinga, við stjórn atvinnubótasjóðs og sjá, hvað þeir, sem allra kunnugastir eru öllum málum Vestfirðinga, sýslunefndir og bæjarstjórn, segðu um þetta mál? Það hefði mátt fá sérfræðinginn fyrir það. En meðan verið er að bíða eftir honum, a.m.k. 1 ár. kannske 2 ár, hefði ekki komið að sök, að Það hefði verið gert.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því, að meiri hraði verði hafður á þessu hér eftir en hingað til.