11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar fram kom á síðasta Alþ. till. til þál. þess efnis að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórn Ísafjarðar að gera athugun á því og flytja till. um það, hvernig mætti stöðva fólksflóttann á Vestfjörðum, þá varð mér á að brosa, það verð ég að segja. Það fannst mér hláleg tillögugerð og bersýnilega til þess eins að sýnast. þm., sem höfðu setið á Alþ., sumir hverjir milli 20 og 30 ár, báðu þá ríkisstj. um að gera nú athugun á því, hvað ætti að gera til þess að stöðva fólksflóttann úr þeirra eigin kjördæmum. Hvílík forsmán! Hverjir áttu að vita það betur en fólkið í þessum byggðarlögum og viðkomandi þm., hvað væri vænlegt til þess að stöðva fólksflóttann, þegar þau höfðu horft upp á hverja sveitina tæmast af fólki á fætur annarri? Ætli aðrir menn og aðrar stofnanir væru líklegri til þess að hafa lagt sig í bleyti til að hugsa um þessi mál en þm., sem höfðu horft upp á þessa þróun? Mér finnst það ekki líklegt, ég verð að segja það. Það er því fjarri mér að áfellast félmrn. fyrir það, þó að hér standi upp um það bil ári síðar hæstv. félmrh. og játi það, að félmrn. gat harla lítið í þessum málum gert. Það gat raunar lítið annað gert en það, sem hæstv. ráðh. sagði, að senda þessa fáránlegu till., yfirdrepskapartill., hræsnismeistarastykki þm. til hlutaðeigandi stofnunar, Framkvæmdabankans, og biðja hann um að fara að athuga þetta mál. Og þetta gerði rn. Og það er enginn Pílatusarþvottur hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir: Hvað áttum við að gera annað? Við gátum ekkert annað gert. — En hann segir annað, og þá brosi ég ekki, þá bara liggur mér við að skellihlæja. Það er búið að skrifa til Parísarborgar og til virðulegrar stofnunar þar, efnahagsmálastofnunar á alheimsmælikvarða, því að málið er nú í höndum efnahagsmálastofnunar á Íslandi. Nú eru þessir menn beðnir ásjár í viðbót við íslenzku efnahagsmálastofnunina að gefa okkur nú ráð um, hvernig við eigum að koma í veg fyrir fólksflótta á Vestfjörðum, því að Sléttuhreppur hafi lagzt í eyði og Grunnavíkurhreppur hafi farið sömu leið og hálfur Snæfjallahreppur sé líka í eyði og býli hingað og þangað um allt Ísafjarðardjúp séu að leggjast í eyði, ekki sízt stórjarðirnar. Jú, þeir taka þetta mjög alvarlega í París, og þeir segja: Við skulum senda ykkur mann næsta sumar, hann er væntanlegur næsta sumar. — Og á nú að fara að glugga í þetta og gefa okkur ráð. Er þetta ekki viturlegt? Og er þetta ekki af heilindum allt saman? Þvílík háðung, segi ég aftur. Og ég meina það. Þetta er eitt hið háðulegasta furðuverk, sem ég hef hlustað á á Alþ. Jæja, hann kemur í sumar. Það er gott að eiga vonina í því, að það kemur sérfræðingur, sérfræðingur í eyðingu byggða á Vestfjörðum, frá París á komandi sumri. Ég held, að við Vestfirðingar megum nú vera rólegir, þegar við vitum þetta.

En ég spyr: Hefur ekki verið hægt að toga nein svör út úr atvinnubótasjóðsstjórninni? Það er eitthvað af þm. Vestfjarða í þeirri stjórn, og þeir eru sannast að segja miklu færari um það, eða ættu að vera það, en þessi sérfræðingur frá París að segja eitthvað um það, hvað ráðlegt væri til þess að hefta fólksflótta frá Vestfjörðum. Hefur ekki verið hægt að toga neitt svar út úr atvinnubótasjóðsstjórninni? Og ekki heldur úr sýslunefndunum á Vestfjörðum? Og ekki heldur frá bæjarstjórn Ísafjarðar? Kemur það ekki fyrr en í sumar, eftir að efnahagsmálasérfræðingurinn frá París er búinn að krefja þá um þessar heimildir og þessi gögn? Það er rétt, sem hv. frummælandi sagði hér áðan, það hefur ekki verið neinn ofsahraði á þessu, og hraðinn kemur sennilega ekki á þetta, fyrr en sérfræðingurinn frá París hefur fjallað um málið. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Nú, fyrirgefið. Ég vil aðeins fá leyfi hæstv. forseta til að bæta við einni eða tveimur setningum. Ég uggði ekki að mér, þetta er fyrirspurnatími og 5 mín. ræðutími.

Ég hef nýlega séð í merku riti Seðlabankans ritgerð, sem hefur verið birt í mörgum blöðum, um þróunarsvæðin á Íslandi, og þar er kafli, rúml. fingurhæð, um Vestfirði. Það er svona undirþróunarsvæði og þar á að gera ýmislegt, segir höfundurinn. Hann segir, að það eigi að nema burt þann þröskuld, sem Breiðadalsheiðin sé í samgöngukerfinu milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Og hann segir, að það þurfi að sjá Vestfirðingum fyrir sæmilegum samgöngum á sjó og það þurfi að sjá aðalþróunarmiðstöðinni, Ísafjarðarkaupstað, fyrir forustuaðstöðu fyrir þetta svæði í menningarmálum, ekki aðeins atvinnumálum og samgöngumálum, heldur einnig menningarmálum og heilbrigðismálum. Nú hafa hér á Alþ, verið flutt frv. um jarðgöng gegnum Breiðadalsheiði, um Vestfjarðaskip til að bæta úr samgöngum á sjó, um menntaskóla á Vestfjörðum til þess að bæta aðstöðuna í menningarmálum, um fjórðungsskiptingu landsspítalans til þess að bæta aðstöðuna í heilbrigðismálum. Ef þm. Vestfjarða hefði verið alvara í því að hefta flótta fólksins af Vestfjörðum hefðu þeir átt að veita þessum málum stuðning. Og ef þeir meina eitthvað með þessu hjali sínu, eiga þeir að veita þessum málum stuðning, sem liggja mörg hver fyrir þinginu núna. En það hefur ekki heyrzt frá stjórnarflokkunum neitt í þá átt, en þeir biðja um sérfræðing í eyðingu Vestfjarðabyggða frá París.