11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara út í það að ræða mikið Þetta mál efnislega, enda er, eins og hér hefur verið sagt, ekki réttur vettvangur að gera það í fyrirspurnatíma, þar sem menn hafa aðeins 5 mínútur til umráða. Málið er miklu stærra en það, að sá tími nægi, til þess að menn geti gert nægjanlega eða rækilega grein fyrir skoðunum sínum á þessum vanda, sem fyrir liggur. En það eru aðeins nokkur orð um málsmeðferðina, sem ég vildi hér segja.

Það kom fram í ræðu fyrirspyrjanda, síðari ræðu hans, að hann vildi láta liggja að því, að ríkisstj. hefði ekki gert bað, sem henni var falið með till. En ég hélt því fram aftur á móti, og geri enn, að í till., eins og hún er orðuð, sé ekki gert ráð fyrir því, að ríkisstj. eigi annan hlut að þessu máli en þann að fela Framkvæmdabanka Íslands að hefja þá rannsókn og gera þá áætlun, sem þáltill. gerir ráð fyrir. Þetta gerði rn. strax. Getur raunar meira en svo orkað tvímælis, hvaða rn. eigi að gera þetta, þó að félmrn. yrði til þess að gera það, vegna þess að þá var talið, að það yrði kannske því skyldast. En þegar Alþ. sendi ríkisstj. till., þá ekki einasta sendi hún félmrn. hana, heldur tveimur rn. öðrum, af því að það virtist, að það lægi ekki alveg ljóst fyrir, hver þarna ætti að vera aðili að málinu. En sem sagt, félmrn. tók að sér að gera það, sem till. gerir ráð fyrir að ríkisstj. eigi að gera í málinu.

Þá hefur það komið fram í umr. hér, að mönnum þykir, að ekki sé nægilega hratt unnið að málinu, og í annan stað, að menn hafa gert að því góðlátlegt gaman, eins og einn hv. þm. gerði hér a.m.k. og meira að segja einn hv. þm. Vestf., að hér hafi verið fenginn erlendur maður til skrafs og ráðagerða, og talið það eiginlega fyrir neðan allar hellur, að það væri gert. (Gripið fram í: Það er hlægilegt.) Þetta þykir kannske hv. þm. hlægilegt, en ég vil í þessu sambandi vitna til þess, að hv. 3. þm. Norðurl. e., að ég ætla, lýsti því hér yfir og það með mörgum fögrum orðum á sinni tíð, þegar rætt var um jafnvægi í byggð landsins, hvernig Norðmenn hefðu farið að í þessu efni og hvaða ráðstafanir þeir og þeirra sérfræðingar hefðu í málinu gert. Ég varð ekki var við þá, að hv. 3. þm. Norðurl, e. væri neitt tortrygginn á það starf, sem þar væri unnið, heldur hafi talið það mjög til fyrirmyndar, og mér er alveg sama, þó að hv. 5. þm. Vestf. vilji gera grín að þessum ráðstöfunum. Ég tel það fyrir neðan allar hellur, að hann skuli leyfa sér að líta þannig á málin. Ég tel mjög æskilegt, að það fáist einmitt maður frá þeim stöðum, þar sem hliðstætt mál hefur verið rætt og rakið og tekið upp til meðferðar með góðum árangri, að hann verði fenginn hingað til þess að lita á þau vandamál, sem fyrir eru, og gefa góð ráð. Annars var það ekki mín till., að þetta væri gert, ég skal játa það, það var Framkvæmdabankinn eða Efnahagsstofnunin, sem hefur gert þessar ráðstafanir, og kannske ekki mitt verk að bera í bætifláka fyrir það, ef það er eitthvað varhugavert. En mér finnst eðlilegt og sanngjarnt, að þetta væri gert.

Það var líka sagt hér áðan, að þetta væri meira vandamál en svo, að það þurfi að gera því skóna, að það verði leyst á nokkrum vikum eða jafnvel mánuðum. Það þarf mikla og rækilega gagnasöfnun, það þarf undirbúning að þeim till., sem gerðar kunna að verða, og það er enginn vafi á því, að það var mjög erfitt, að ég ekki segi ómögulegt, að ljúka framkvæmd þessa verks fyrir s.l. áramót. Ég held þess vegna, að það skynsamlegasta í málinu sé, að fengnir verði til þeir menn, sem hafa reynslu og þekkingu og hafa séð málin þróast í sínu heimalandi í rétta átt, til þess að koma hingað og lita á málin og bera saman við þeirra vandamál og þeirra úrlausnir og sjá, hvort það getur nokkuð hjálpað. Það, sem gert hefur verið hingað til hér í þessum málum, er sjálfsagt planlítið. Það, sem hefur verið gert til aðstoðar, bæði í þessum landsfjórðungi og öðrum, er það, að veitt hefur verið til ýmiss konar atvinnufyrirtækja úr atvinnubótasjóði nokkurt fé, og ég tel og það hefur verið fullyrt við mig af þeim, sem til þekkja, að þetta hafi borið nokkurn árangur, en sjálfsagt ekki þann árangur, að með því sé málið endanlega leyst. Þess vegna held ég, að það sé vissulega þess virði, að það sé offrað kannske hálfu öðru ári í staðinn fyrir hálft ár til þess að reyna að komast að einhverjum endanlegum og nytsömum till., frekar en flaustra því af á nokkrum vikum og standa svo kannske í sömu sporunum á eftir, eins og maður stóð áður. Það er hægt að segja þessa hluti, en ég held, að til þess að fá vænlegan árangur sé miklu betra að undirbyggja málið með sérfræðingum í samráði við staðarins yfirvöld, eins og mér virðist að Efnahagsstofnunin eða Framkvæmdabankinn hafi gert. Það er hægt að fara til Noregs og hefði mátt flýta málinu þannig, var sagt hér áðan. En ég held, að það sé ekki leiðin, heldur sé leiðin að fá sérfræðing, sem þekkir málin í Noregi og getur borið sína reynslu saman við vandamálin hér, þess vegna þurfi sérfræðingurinn að koma hingað, en við ekki til hans.

Eins og ég sagði í upphafi, ætla ég mér ekki og tel ekki rétt í þessum fyrirspurnatíma að ræða þetta vandamál í heild sinni, en vildi aðeins segja þessi orð um framkvæmd málsins.