11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Einar Olgeirason:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það þýðir nokkuð að reyna að rifja upp og bæta minnið hjá hv. 1. þm. Austf., formanni Framsfl., en það er rétt, að ég geri þó tilraun til þess.

Í samningunum um vinstri stjórn var samið um það að koma hér upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, eins konar áætlunarráði. í sambandi við það, þegar stjórnarflokkarnir ákváðu að leysa bankamál]n, var sett nefnd af hálfu stjórnarflokkanna í þetta. í þeirri nefnd var af hálfu Framsfl. Skúli Guðmundsson, af hálfu Alþfl. Friðjón Skarphéðinsson, af hálfu Alþb. ég. Og þessi nefnd vann að þessum málum, og við Friðjón Skarphéðinsson komum okkur saman um till., þar sem lagt var til, að stofnað yrði áætlunarráð, sem yrði um leið yfirstjórn Seðlabankans, og við stóðum saman um þessa till., og það var lengi þrefað um þetta og við höfðum okkar þingflokka á bak við okkur í því. En Skúli Guðmundsson sem fulltrúi Framsfl. og vafalaust með þingflokkinn að baki þverneitaði að fallast á þetta, og þess vegna sprakk þessi nefnd og skilaði áliti í tveimur hlutum. Og þessar till., sem ég hafði að miklu leyti útbúið og við Friðjón urðum sammála um, voru sendar til ríkisstj., og ég hef þær enn þá og get birt þær, ef á þarf að halda. En það var ekkert með það gert, og siðan, eftir diktati annars staðar frá, voru þau mál leyst og það tvímælalaust á mjög óheppilegan hátt, þó að maður hafi yfirleitt staðið með því. Það er þess vegna ekki vert fyrir Framsfl. og sízt forustu hans, sem ber ábyrgð á þessu, að rifja þessa hluti upp. Framsfl. sveikst um allan tímann í vinstri stjórninni að framkvæma það, sem hann hafði lofað viðvíkjandi einmitt heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, og það var eitt af því, sem olli óförum vinstri stjórnarinnar, þó að hins vegar okkar menn í ríkisstj. gerðu það, sem þeir gátu, til þess að koma upp nógu miklu af atvinnutækjum og sérstaklega skipum til þess að bæta úr og afnema atvinnuleysi úti um allt land. En áætlun fengum við aldrei að gera í þessum efnum. Og Landsbankanum var stjórnað af einræðisstjórn af hálfu Framsóknar þá, þannig að það er ekki vert fyrir hv. formann Framsfl. að fara að rifja þá hluti upp. Við getum kannske fengið dálítið betra tækifæri til þess öðruvísi en í fyrirspurnatíma hér.

Ég sé, að Framsfl. hefur núna samþ. heilmikla ályktun um heildaráætlun, nýafstaðinn miðstjórnarfundur, og var birt núna í Tímanum. Það er alveg hreint eftir allri kokkabók Framsfl. Það er fjandskapazt við þessi góðu mál og nauðsynlegu, meðan Framsókn er í ríkisstj., og þau eru drepin með ofríki. En um leið og Framsókn er komin í stjórnarandstöðu, þykist Framsókn standa algerlega með þessum málum. Þetta er hræsni.