11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja út af þessum orðum hv. þm., að mér er ekki kunnugt um, hvað gerðist í þeirri nefnd, sem hv. þm. ræðir um. Hitt veit ég, að það skarst ekki í odda um þessi efni í ríkisstj. á þann hátt, sem hann vill vera láta eða láta skilja á sér. (Gripið fram í.) Það er mér kunnara um en hv. þm. og veit betur um það en hann. í ríkisstj. eru þessi mál afgerð, og það, sem máli skiptir í þessu, er það, hverju haldið er fram þar og hvað ákveðið er þar. Það er þess vegna rangt, sem hann sagði um þetta, að það hefði strandað á okkur í ríkisstj., að það yrði sett upp áætlunarráð. Það er það, sem máti skiptir í þessu sambandi.

Hvað því viðvíkur, að Framsfl. hafi verið tregur til þess að fallast á, að áætlanir væru gerðar um Þjóðarbúskapinn, þá er það algerlega úr lausu lofti gripið hjá hv. þm., bæði nú og áður, þegar hann hefur haldið þessu fram. Framsfl. stóð að skipulagsnefnd atvinnuveganna á sínum tíma, svokallaðri Rauðku. Framsfl. stóð að fjárhagsráði. Framsfl. stóð að því að gera ráð fyrir því í sambandi við lögin um Framkvæmdabankann, að unnið yrði að Þjóðhagsáætlunum, og til þess rétt að gefa hv. þm. sýnishorn af því, hvernig um þessi mál hefur verið hugsað og hvernig að þeim hefur verið starfað í Framsfl., ætla ég að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, örstuttan kafla úr fjárlagaræðu, sem ég flutti 1956, einmitt á dögum vinstri stj., um þetta efni, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt af því, sem mundi geta glætt skilning á þessum efnum og bætt vinnuskilyrði þeirra á Alþingi og utan þings, sem að þessu vilja keppa, sem sagt heildarstjórn á þessum málum og yfirliti, væri Þjóðhagsáætlun, sem fylgdi fjárlagafrv. hverju sinni, eins konar fjárlög fyrir Þjóðarbúskapinn í heild, þar sem reynt væri að gera grein fyrir tekjum og gjöldum Þjóðarbúsins ásamt fyrirhuguðum framkvæmdum, svo að nokkur atriði séu nefnd.“

Þetta er það sjónarmið, sem ég túlka í þessari fjárlagaræðu. Síðan ræði ég um, hvað Framkvæmdabankahagdeildinni hafi verið ættað að gera í þessu sambandi, og segi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. lögum Framkvæmdabankans er í þeirri stofnun dregið saman mikið efni í slíka Þjóðhagsáætlun, og ég vona, að þess verði ekki langt að bíða úr þessu, að Þjóðhagsáætlun geti fylgt sjálfu fjárlagafrv.“

Þannig var nú hugsað um þessi mál og að þeim unnið, og var vel á veg komið að undirbúa þessi efni.