18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

187. mál, lóðamál sjómannaskólans

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1941 var hafizt handa um undirbúning að byggingu nýs sjómannaskóla hér í Reykjavík. Þar skyldi verða húsakostur nægur fyrir helztu menntastofnanir sjómannastéttarinnar, svo sem stýrimannaskóla og vélstjóraskóla. Á skömmum tíma var á fögrum stað í bænum reist veglegt hús, enda þótti ekki annað sæma en hafa hér á nokkurn myndarbrag, þegar loks var hafizt handa um að reisa menningarsetur íslenzkra sjómanna. Var í umr. um mál þetta, bæði á hv. Alþingi, af hálfu ríkisvalds og dagblaða, lögð á það áherzla, að þjóðin ætti sjómannastéttinni svo mikið að þakka og afkoma Þjóðarbúsins væri svo háð dugnaði hennar, kunnáttu og atgervi, að sjálfsagt væri að veita sjómannaefnum sem bezt menntunarskilyrði. Reykjavíkurborg vildi fyrir sitt leyti heiðra sjómannastéttina og stuðla að því, að menntasetur hennar kæmist upp, með því að gefa undir skólann stóra lóð á ágætum stað. Um þetta segir svo í skýrslu þeirri um byggingu skólans, sem lögð var í hornstein skólahússins, Þegar vígsluathöfn þess fór fram vorið 1944:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur gefið lóð undir húsið og aðrar byggingar, sem reistar kunna að verða í sambandi við skólann, en endanleg takmörk lóðarinnar hafa ekki enn verið ákveðin.“

Í ræðu Friðriks V. Ólafssonar, þáv. skólastjóra stýrimannaskólans, um byggingamál skólans, fluttri við sama tækifæri, segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Byggingarnefndin skoðaði nokkra staði í bænum og nágrenni hans, sem til greina gátu komið, og varð sammála um að mæla með þeim stað, sem skólinn hefur nú verið reistur á. Skýrði hún rn. frá því með bréfi, dags. 23. júlí 1941, og lagði jafnframt til, að skólinn fengi til umráða nægilega stóra lóð, til þess að hægt yrði að koma þar fyrir þeim byggingum, sem æskilegt þætti að reisa í sambandi við skólana, svo sem leikfimishúsi og vélahúsi, kennarabústöðum og sjóminjasafni. Jafnframt vakti fyrir n. að tryggja það, að þessar byggingar fengju notið sín þannig, að ekki verði aðrar byggingar reistar nálægt þessum, svo að byrgi fyrir frjálsa útsýn. Rn. sneri sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur með tilmælum um, að bærinn legði skólanum til umrædda lóð endurgjaldslaust. Eftir að hafa fengið álit skipulagsnefndar, sem mælti með því, að skólinn yrði reistur á þessum stað, samþykkti bæjarstjórn á fundi sínum 2. okt. samkv. till. bæjarráðs að gefa skólanum lóðina, þótt endanleg takmörk hennar verði ekki ákveðin fyrr en síðar. Jafnframt lofaði bæjarstjórn að ráðstafa ekki svæðinu þannig, að hætta verði á, að þær byggingar, sem reistar verða í sambandi við skólann, fái ekki notið sín:

Þetta voru ummæli skólastjóra stýrimannaskólans. Nú, 20 árum síðar, situr allt við hið sama að því leyti, að lóð sjómannaskólans hefur ekki verið, að því er ég bezt veit, endanlega ákvörðuð eða formlega afhent. Hins vegar hafa þegar verið teknir undir byggingar nær 6000 fermetrar af því svæði, sem forráðamenn skólans töldu æskilegt að hann hefði til umráða og munu hafa fengið fyrirheit eða a.m.k. ádrátt um að honum væri ætlað. Á lóðinni er nú risin allstór kirkja. Þar mun í ráði að reisa tækniskóla og eitt eða jafnvel tvö hús sóknarpresta Háteigssóknar. Mikið hefur verið byggt umhverfis skólann, og enn er sótt fast á að reisa byggingar á skólasvæðinu. Og lóðin sjálf hið næsta skólanum er að mestu leyti með sömu ummerkjum og hún var í upphafi. Fyrir utan lagningu nauðsynlegra akbrauta hefur svo til ekkert verið gert til þess að fegra hana eða prýða á nokkurn hátt.

Þetta lóðamál skólans er fyrir löngu orðið eiganda hans, íslenzka ríkinu, til mikils vansa. Skólahúsið nýtur sín engan veginn eins nú og það gerði í upphafi, meðan verulega rúmt var um það. Og fáist ekki tafarlaust útmælt sjómannaskólanum til handa svo stórt landssvæði sem nú verður framast viðkomið, ber ég hinn mesta kvíðboga fyrir því, að hrúgað verði á hæðina, sem hann stendur á, svo miklu af byggingum, að engin þeirra njóti sín, að þar gerist svipuð saga og á Skólavörðuholti, þar sem stórbyggingar hafa risið og eru að risa að því er virðist skipulagslaust í einum þéttum hnapp og æpa svo að segja hver á aðra. Í von um, að enn megi takast að forða sjómannaskólanum og hæðinni, sem hann stendur á, að verða skipulagsleysinu og stílleysinu að algerri bráð, er fsp. mín fram borin.