18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

187. mál, lóðamál sjómannaskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er hv, fyrirspyrjanda alveg sammála um, að það er ekki viðunandi, að svo langur tími skuli hafa liðið sem raun ber vitni, án þess að mörk sjómannaskólalóðarinnar hafi verið endanlega ákveðin. Ég skal með ánægju lýsa yfir því, að ég mun beita mér fyrir, að máli þessu verði komið endanlega í höfn, og síðan í samræmi við vilja húsbygginganefndarinnar, þegar lóðamörkin hafa verið ákveðin, að fé verði veitt til þess að ganga endanlega frá skipulagi og skreytingu lóðarinnar.