18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

806. mál, fjarskiptastöðvar í íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Þótt ég harmi, hve lengi hefur dregizt að framkvæma þessa þál., þá verð ég hins vegar að fagna því, að þetta skuli þó vera komið á þann rekspöl, sem það virðist vera á nú. Ég vil hins vegar beina því til hæstv. ráðh., að þessar till. verði sendar víðar en fram hefur komið í svari hans. Ég vil leyfa mér að benda á, að nú starfar nefnd skipuð af ráðh. að því að rannsaka og gera till. um, hvernig bezt verði haft daglegt eftirlit með fiskiskipum. Ég á sjálfur sæti í þessari n., og mér er kunnugt um, að þetta mál hefur komið þar á dagskrá, og ég vil mælast til þess, að þessar till. verði sendar til n. til athugunar og ábendingar, ef með þarf. Einnig vil ég benda á það, að í Sþ. á s.l. þingi var kjörin nefnd til þess að rannsaka orsakir sjóslysa. Í þessari n. hefur einnig komið fram þetta atriði, skipti sjómanna og skipa við landsstöðvar, og ég teldi einnig ærna ástæðu til, að þessi n. fengi einnig að segja álit sitt á þessu máli. Þá vil ég leyfa mér jafnframt, að óska eftir því við ráðh., að þeim aðila, sem fer með sérgreinamál sjómanna innan A.S.Í. Sjómannasambandi Íslands, verði einnig sent málið til umsagnar. Ég þakka ráðh. fyrir greinargóð svör.