30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið á þskj. 220 og 222, bera með sér, hefur fjhn. ekki náð algerri samstöðu um það mál, sem hér liggur fyrir, þannig að tveir hv. nm., þeir hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Sunnl., hafa skilað séráliti á þskj. 222 og brtt. á þskj. 221. Við þrír, sem að meirihlutaálitinu stöndum, leggjum hins vegar til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og álit okkar á þskj. 220 ber með sér.

Að mínu áliti er það óþarfi að rekja efni þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., þar sem hv. þdm. er það þegar kunnugt, bæði af þskj. og svo af ýtarlegri grg. hæstv. forsrh. fyrir efni frv. við 1. umr. þessa máls. Það er ekki heldur mér vitanlega ágreiningur um það hér á hv. Alþingi, að nauðsyn sé ráðstafana til hjálpar útflutningsframleiðslunni, en það er, sem kunnugt er, aðalefni þessa frv., og frá stjórnarandstöðunni liggur jafnvel fyrir till. um viðtækari aðstoð en þá, sem í þessu frv. felst. En það, sem ágreiningur er hins vegar um, eru í fyrsta lagi leiðir til fjáröflunar vegna þeirrar aðstoðar, sem veitt er, og í öðru lagi eru mjög skiptar skoðanir um orsakir þess vanda, sem nú er við að etja, svo og það, hverja ályktun beri að draga af því, sem við blasir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég ætla þá fyrst að víkja að hinu fyrrnefnda þessara atriða, ágreiningnum um fjáröflunarleiðir.

Hv. stjórnarandstæðingar halda því fram, að það sé ekki þörf neinnar tekjuöflunar til að standa straum af kostnaðinum við aðstoðina til útvegsins. Þeir benda á það, að ráðstafa megi tekjuafgangi fyrri árs í þessu skyni. Hækkun söluskattsins auki dýrtíðina, segja þeir, og það gæti svo orðið til þess að ýta undir nýjar kaupkröfur.

Nú fer auðvitað ekki hjá því, að hækkun söluskattsins leiðir til vísitöluhækkunar, og vera má einnig, að ýmsir í hópi launþega hafi ekki skilning á nauðsyn þess að standa straum af auknum útgjöldum og krefjist því hærra kaups, m.a. á þeim grundvelli. En það vandamál, sem hér er um að ræða og ég skal ekki bera brigður á að sé fyrir hendi, mundi að mínu áliti síður en svo leyst með því að ráðstafa fé úr jöfnunarsjóði, sem sá hluti tekjuafgangs ársins 1962, sem ekki hefur verið ráðstafað með öðru móti, hefur verið lagður í. Það mundi síður en svo verða lausn á þessu vandamáli, þó að fjárins væri aflað á þann hátt, því að að mínu áliti eru engar líkur á því, að sú dýrtíðaraukning, sem af því leiddi, yrði minni en sú, sem leiðir af hækkun söluskattsins, þó að dýrtíðaraukningin af halla á fjárlögum mundi að vísu sennilega ekki koma jafnfljótt fram og þær verðhækkanir, sem verða af hækkun söluskattsins. Og hvað sem öðru líður, held ég, að það sé ekki álitamál, að launþegar muni ekki spyrja að því, hvort sú dýrtíðaraukning, sem hefur átt sér stað, stafi frá söluskatti eða hallarekstri á ríkisbúskapnum. Ég lít svo á, að þetta úrræði hv. stjórnarandstæðinga, ef úrræði skyldi kalla, sé óraunhæf lausn með öllu.

Engu skynsamlegri er að mínu áliti till. hv. stjórnarandstæðinga um það, að útflutningsframleiðslunni eigi að hjálpa með lækkun vaxta. Sú vaxtalækkun, sem um gæti verið að ræða, mundi hafa lítil áhrif til beinnar lækkunar á framleiðslukostnaði útflutningsframleiðslunnar, vegna þess að vextir af rekstrarlánum eru óverulegur kostnaðarliður. Og væri einnig, sem auðvitað ber að gera í þessu sambandi, tekið tillit til óbeinna áhrifa vaxtalækkunarinnar, sem mundu óhjákvæmilega verða aukin dýrtíð, þá tel ég engar líkur á því, að útflutningsframleiðslan yrði betur sett en áður, þó að sú leið yrði farin, heldur miklu fremur hið gagnstæða, í rauninni finnst mér það furðulegt, að hv. stjórnarandstæðingar, sem annað veifið kvarta með miklum fjálgleik um ónóg framboð á lánsfé, skuli jafnframt bera fram till. um vaxtalækkun, sem óhjákvæmilega mundi leiða til minna framboðs á lánsfé. Ekki eru líkur á því, að fólk verði fúsara á að spara, ef bæta á lækkun innlánsvaxta ofan á þá skattlagningu sparifjárins, sem hið hækkandi verðlag hefur í för með sér. En jafnframt því, að vaxtalækkun hlyti þannig að hafa óhagstæð áhrif á framboðið af lánsfé, fer ekki hjá því, að eftirspurnin eftir lánsfé mundi aukast, ef vextir lækkuðu. Og ég sé, að í nál. hv. minni hl. fjhn. er einmitt kvartað um það og með réttu út af fyrir sig, að eftirspurnin eftir lánsfé sé miklu meiri en hægt sé að fullnægja. Áhrif vaxtalækkunarinnar, sem samkv. skoðunum hv. stjórnarandstæðinga á að vera snjallræði í þessu máli, hlytu því óhjákvæmilega að þýða bæði, að minna lánsfé væri til ráðstöfunar, en eftirspurn eftir því yrði meiri, þannig að lánsfjárskorturinn og lánsfjárkreppan hlyti að verða tilfinnanlegri en áður. Þarna er ekki um að ræða lausn á neinum vanda, heldur þvert á móti hlyti vandinn að aukast, ef þessi leið væri farin. Og ég vil leyfa mér að minna hv. framsóknarmenn, sem einna mest hafa barizt fyrir vaxtalækkuninni, á það, að þeir höfðu ábyggilega talsvert aðrar skoðanir á þessu máli fyrir ekki mörgum árum, þegar þeir voru í ríkisstj., heldur en þeir virðast hafa nú. Mér koma í hug í þessu sambandi þau furðulegu ummæli, er höfð voru eftir einum hv. forustumanni framsóknarmanna nú á dögunum, er hann talaði um það, að kaupgjaldið í landinu hlyti ávallt að laga sig eftir vaxtafætinum, þannig að það hækkaði, þegar vaxtafóturinn hækkaði, og svo öfugt. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á afstöðu hv. framsóknarmanna til vaxtamálanna, þegar þeir voru í ríkisstj.

Á nýsköpunarárunum var, eins og kunnugt er, rekin sú stefna að halda vöxtum mjög lágum, og ég skal fúslega viðurkenna, að það hefur alltaf verið mín skoðun, þó að ég væri í hópi stuðningsmanna þeirrar ríkisstj., að sú stefna í vaxtamálum, sem þá var rekin, hafi verið óraunhæf, enda var strax gerð breyting í þessum efnum, þegar hv. Framsfl. kom inn í ríkisstj. árið 1947. Þó leið ekki á löngu, áður en sú ríkisstj. beitti sér fyrir hækkun vaxta að nýju, þannig að enn voru vextirnir hækkaðir árið 1952, en þá sátu hv. framsóknarmenn, eins og kunnugt er, í ríkisstj. með Sjálfstfl., þannig að sú vaxtahækkun, sem átti sér stað á þessu tímabili, var hlutfallslega áreiðanlega meiri en sú vaxtahækkun, sem átt hefur sér stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Mér þykir með miklum ólíkindum, að hv. framsóknarmenn hafi þá verið þeirrar skoðunar, að vaxtahækkunin mundi auka dýrtíðina, ýta undir kaupkröfur o.s.frv. Það var áreiðanlega ekki þeirra skoðun, enda hefði það komið algerlega í bága við viðurkennd efnahagslögmál, þó að nú hafi blaðinu verið snúið við og vaxtahækkun gagnrýnd á þeim grundvelli, að hún leiði til hækkunar á verðlagi.

Ég fjölyrði svo ekki meira um þetta, en niðurstaðan af því, sem ég hef sagt, getur ekki orðið nema ein eða sú, að að því leyti sem hv. stjórnarandstaða sýnir viðleitni til að benda á aðrar leiðir í þessum efnum en þær, sem frv. gerir ráð fyrir, þá er það óraunhæft með öllu.

Ég gat þess í upphafi máls míns, að ágreiningur væri um það, hverjar orsakir lægju til þess vanda, sem útflutningsframleiðslan nú er stödd í. Það má auðvitað oft lengi deila um það og ekki sízt í efnahagsmálum, hvað sé orsök og hvað afleiðing. Slíkar deilur eru oft ófrjóar, og skal ég ekki vera margorður um það efni. En hvað sem því líður, er það þó óvefengjanleg staðreynd, að almennt kaupgjald hefur á síðasta ári hækkað um 30% og jafnvel meira. Hvað sem líður skoðunum manna á því, hvort þessar kauphækkanir hafi verið réttmætar eða eðlilegar, er óhjákvæmilegt, að slík stökkbreyting kaupgjalds upp á við valdi mikilli röskun í atvinnulífinu. Það er óhugsandi, að þjóðartekjurnar geti undir nokkrum kringumstæðum vaxið á einu ári sem þessu nemur eða nokkuð í áttina við það, og ekki virðist vera ágreiningur um það atriði út af fyrir sig. Þetta kom að mínu áliti m.a. fram í umr. í Sþ. fyrir áramótin um till., sem nokkrir hv. framsóknarmenn hafa borið fram um að gera ráð fyrir meiri aukningu þjóðarteknanna en framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstjórnar gerir ráð fyrir. Ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að hv. 6. þm. Sunnl., sem sæti á í þessari hv. d., nefndi það í þeim umr., að í stað þess að gera ráð fyrir 4% aukningu þjóðarteknanna, eins og gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj., þá væri eðlilegra að reikna með 6%. Og ef slíkar áætlanir eiga að vera raunhæfar, er ég hv. þm. vissulega sammála um, að það væri út í bláinn að nefna hærri tölur. Það gera sér allir ljóst, að aukning þjóðarteknanna getur aldrei nálgazt 30%, og jafnvel þó að sú tala væri lækkuð með tilliti til þess, að allur framleiðslukostnaður þarf auðvitað ekki að hækka til samræmis við kaupgjaldið, þá er það ljóst, að framleiðsluaukning getur ekki undir neinum kringumstæðum staðið undir svo miklum kauphækkunum á skömmum tíma.

Þessi hækkun hlýtur því óhjákvæmilega að valda mikilli röskun í efnahagskerfinu, og vitanlega bitnar þetta fyrst á útflutningsframleiðslunni, því að hún á þess ekki kost að fá samsvarandi hækkun á afurðaverði, á sama hátt og framleiðslan fyrir innlendan markað hefur e.t.v. möguleika á því að fá verðhækkanir til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á framleiðslukostnaði. Hér endurtekur sig gamla sagan, að skila verður framleiðslunni aftur í einhverri mynd því, sem hún hefur verið ofkrafin um, ef hún á ekki að stöðvast.

Þá kem ég að því að gefnu tilefni m.a. í ræðum þeim, er fluttar voru í gær við 1. umr. málsins af hv. stjórnarandstæðingum, að ræða nokkuð ástand og horfur í efnahagsmálum, eins og það kemur mér fyrir sjónir, þó að ekki verði unnt að gera því umfangsmikla efni nema lítilfjörleg skil við þetta tækifæri.

Hv. stjórnarandstaða hefur haldið því fram, að með því að gera þær ráðstafanir, sem í þessu frv. felast, viðurkenni hæstv. ríkisstj. í rauninni gjaldþrot þeirrar stefnu í efnahagsmálum, sem fylgt hafi verið undanfarin ár, því að nú sé horfið að því ráði að greiða úr ríkissjóði bætur á útfluttar afurðir, en lofað hefði verið afnámi þess fyrirkomulags, er efnahagsráðstafanirnar voru gerðar árið 1960. Ef lögð væri sú merking í afnám uppbóta- og haftakerfisins, að með því sé átt við 100% niðurfellingu útflutningsuppbóta og innflutningshafta, mætti raunar með svipuðum rétti segja, að umræddar ráðstafanir hafi aldrei náð tilgangi sínum, því að það er ekki annað en staðreynd, sem öllum er kunn, að hvorki útflutningsuppbæturnar né innflutningshöftin hafa nokkru sinni verið afnumin með öllu. Uppbætur hafa allan þennan tíma verið greiddar á útfluttar landbúnaðarafurðir, enda óhjákvæmilegur liður í því niðurgreiðslukerfi, sem enn er við lýði, en það eru ekki sízt landbúnaðarafurðirnar, sem greiddar eru niður. Og auk þess hafa togararnir, eins og kunnugt er, fengið sérstakar bætur undanfarin missiri vegna örðugleika togaraútgerðarinnar. Þá hefur og ekki heldur þótt fært að afnema innflutningshöftin með öllu, að vísu ekki vegna gjaldeyrisskorts, heldur hins, að við getum ekki verið án markaðanna í jafnkeypislöndunum svokölluðu. En til þess að tryggja innflutning frá þeim og viðskipti við þau er óhjákvæmilegt að takmarka innflutning frá öðrum löndum á þeim vörum, sem þessi lönd selja okkur, og þarf það atriði ekki nánari skýringar við.

Mér finnst þó fráleitt að draga af þessum óvefengjanlegu staðreyndum í sjálfu sér þá ályktun, að allar þær ráðstafanir, sem gerðar voru til þess á árinu 1960 að afnema uppbóta- og haftakerfið, hafi verið unnar fyrir gýg, því að það er vissulega munur á því, hvort uppbótakerfið nær til allrar útflutningsframleiðslunnar, eins og var fyrir efnahagsráðstafanirnar, eða aðeins 10–15% af henni, sem láta mun nærri að hafi verið til þessa. Og alveg á sama hátt er vissulega munur á því, hvort allur innflutningur er háður leyfaveitingum, eins og var, áður en efnahagsráðstafanirnar voru gerðar, eða aðeins um 20% af honum í þessu sambandi má nefna, að samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hrósaði sér t.d. af því — og með fullum rétti að mínu áliti — að hafa afnumið hina óvinsælu vöruskömmtun eftir 1950, þó að smjör og smjörlíki væri að vísu skammtað allt fram á árið 1960, og að mínu áliti eru, hvað sem öðru líður, ekki líkur á því, að með gengisskráningunni einni verði í náinni framtíð hægt að tryggja það, að öll útflutningsframleiðsla geti borið sig án opinbers stuðnings. Það verða alltaf einhverjar greinar útflutningsframleiðslunnar, sem eiga við sérstaka örðugleika að stríða, þannig að ef gengisskráninguna ætti alltaf að miða við það, að sú útflutningsframleiðsla, sem lakasta gefur afkomu, gæti borið sig, þá gæti ekki orðið um jafnvægisgengi að ræða í þeirri merkingu, sem hagfræðingar venjulega leggja í það orð.

En þrátt fyrir þetta er það fjarri mér að draga fjöður yfir það, að hér er í bili stigið spor í þá átt að auka verulega svið þeirra eftirstöðva uppbótakerfisins, sem alltaf hafa verið við lýði. Og það er mér sízt fagnaðarefni, að hjá þessu skuli ekki verða komizt nú, og ég leyfi mér raunar að fullyrða, að í því felst síður en svo það, að hæstv. ríkisstj. og þeir, sem hana styðja, hafi skipt um skoðun á uppbótafyrirkomulaginu. Og það er e.t.v. aldrei meiri ástæða til þess en einmitt nú að gera sér grein fyrir ágöllum þessa fyrirkomulags og horfast í augu við það. En þessir ágallar eru að mínu áliti þrenns konar. Það fyrsta er, að þetta kerfi getur aldrei orðið til frambúðar. Með uppbótunum er innleitt það fyrirkomulag, að raunverulega er um að ræða mörg gengi til útflytjenda á íslenzku krónunni, ef við lítum á þetta frá okkar sjónarmiði. Það verður alltaf stöðug tilhneiging til þess, að þessi gengi, e.t.v. eru ekki nema 2–3 í upphafi, verði alltaf fleiri og fleiri. En þegar gengin eru orðin kannske 40–50, eins og var eftir lögfestingu jólagjafarinnar svokölluðu í árslok 1956, þá er kerfið í rauninni orðið óstarfhæft, eins og reynslan frá þeim tíma sýndi. Vinstri stjórnin gerði, eins og kunnugt var, örvæntingarfulla tilraun til þess með bjargráðunum svokölluðu að fækka gengjunum úr 40–50 í 2–3. Ástæðan til þess, að þetta var gert, var ekki sú, að þorri þeirra, sem studdu þá ríkisstj., hefði í sjálfu sér ótrú á uppbótakerfinu. Nei, ástæðan var hin, að þeir gerðu sér fyllilega ljóst, að kerfið með þessum mörgu gengjum var orðið óstarfhæft með öllu.

Mig minnir, að ég kæmist einhvern tíma þannig að orði við umr. um jólagjöfina, að henni mætti líkja við fjósvegg, sem hlaðinn væri af mér eða einhverjum þeim, sem ekki hefði neina kunnáttu á því, hvernig slíkan vegg ætti að hlaða, og væri því dæmdur til að hrynja. Sama máli gegndi með það kerfi, sem uppbyggt var með jólagjöfinni. Og ég held, að reynslan hafi sýnt, að þetta er rétt. Gengin voru orðin ein 40–50. Með því var slegið það met, sem Franco, einræðisherra Spánar, var talinn hafa á þeim tíma, en þá voru 14 gengi á pesetanum. En það hefur nú farið sömu leiðina þar, að þeim hefur orðið að fækka. Ég held, að í rauninni sé nú ekki nema eitt gengi á Spáni. Þetta, að það verður stöðug tilhneiging til þess, að gengin verði alltaf fleiri og fleiri, þangað til út í algert öngþveiti er komið, er ein af ástæðunum til þess, að hvað sem menn álíta um ágalla eða um ágæti þessa skipulags eftir atvikum, þá fær það aldrei staðizt til lengdar.

Nú skal engin fjöður dregin yfir það, að með þessu frv. eru innleidd fleiri gengi, hvað aðstöðuna gagnvart útflytjendunum snertir. Engar uppbætur eru greiddar á síldarafurðir, en hins vegar nokkrar uppbætur á skreið og saltfisk og meiri aftur til hraðfrystihúsanna. En þó að sporið sé ekki stærra en þetta, hefur strax verið um tilhneigingu að ræða í þá átt, að kröfur hafa komið fram um það, að gengin þyrftu að vera fleiri. Það hefur verið á það bent, að meiri uppbætur eigi að greiða til togaranna, ef þeir landa fiskinum hér, heldur en ef þeir sigla með hann sem ísfisk, það þurfi að mismuna frystihúsunum eftir aðstöðu þeirra og hvers konar vöru þau vinni o.s.frv. Það er ekki vafi á því, að reynslan yrði í framtíðinni, ef lengra er haldið inn á þessa braut, sú sama og alltaf áður, að það yrði stöðugur þrýstingur á það að gera gengin fleiri og fleiri, þangað til út í öngþveiti er komið.

Þetta var nú fyrsta atriðið. Annað atriðið er það, að með uppbótakerfinu má að vissu leyti segja, að opnuð séu ný fiskimið fyrir þá, sem uppbótanna eigi að njóta, þar sem er ríkissjóðurinn og stjórnarráðið, þannig að nú skiptir það ekki eingöngu máli fyrir afkomu þessara aðila, hvernig reksturinn gengur, heldur samningarnir við stjórnarvöld. Og ég held, að varla geti verið ágreiningur um það, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það heilbrigðara, að framleiðendurnir einbeiti sér að bættum rekstri, heldur en að því að reyna að ná sem hagkvæmustum bótakjörum.

Þriðja atriðið, sem ekki er þýðingarminnst að mínu áliti, er það, að uppbótakerfið stöðvar alla framfaratilhneigingu, þegar frá líður. Af skiljanlegum ástæðum leitast stjórnarvöld eðlilega við að hafa uppbæturnar sem minnstar, svo að sem minnsta skatta þurfi að leggja á þjóðfélagsborgarana til að standa straum af kostnaðinum við uppbæturnar. Af þessu leiðir svo, að reynt er að meta það í hverju tilfelli, hver uppbótaþörfin sé, og sníða uppbæturnar eftir því. Af þessu mundi þá eðlilega leiða, að ef einhver atvinnugrein bætir sinn hag, t.d. með aukinni vöruvöndun, með því að afla nýrra markaða eða bæta sinn rekstur, þannig að afkoman batnar, þá segja stjórnarvöldin eðlilega við fulltrúa þessara atvinnugreina: Nú hefur ykkar hagur batnað, svo að þið þurfið á minni uppbótum að halda en áður, þær verða lækkaðar. — Það, að framleiðendurnir gera sér fyllilega ljóst, að þær endurbætur, sem þeir geri, muni leiða til lækkaðra uppbóta, gerir það auðvitað að verkum, að þeir sjá sér engan hag í því að koma á neinu, sem til bóta horfir. Þessir gallar uppbótakerfisins eru vitanlega fyrir hendi, hverjir sem að því standa að innleiða þetta kerfi, það væri fjarri mér að draga yfir það fjöður. Og eins og ég sagði áðan, þá er e.t.v. aldrei meiri ástæða en nú til þess að horfast í augu við þá ágalla, sem óhjákvæmilega eru á bótakerfinu.

En hvað er þá fram undan? er eðlilegt að menn spyrji. Uppbæturnar geta aldrei verið annað en bráðabirgðalausn. Það gerum við okkur fyllilega ljóst, sem að þessu frv. stöndum. En með þessu er þó ekki sagt, að róttækari ráðstafanir til þess að tryggja jafnvægi í efnahagslífinu verði undir öllum kringumstæðum óumflýjanlegar. Þó að það sé að vísu orðinn allstór hluti útflutningsframleiðslunnar, sem bætur í einhverri mynd ná til eftir samþykkt þessa frv., eða á að gizka um helmingur sjávaraflans miðað við magn, þá er þó að mínu áliti ekki hægt að bera aðstæður nú saman við það, sem var um áramótin 1959–1960 eða áður en efnahagsráðstafanirnar voru gerðar. Þá voru meðaluppbætur um 80% af verðmæti útfluttra afurða, og lægstu bætur, sem til voru, 55%. Það gaf auðvitað auga leið, að eina leiðin út úr uppbótakerfinu var þá samræming innlends og erlends verðlags, annaðhvort á þann hátt að færa innlenda verðlagið niður með almennri niðurfærslu kaupgjalds og verðlags innanlands eða þá að breyta genginu. Aðrar leiðir voru ekki fyrir hendi þá. Nú eru meðaluppbætur samkv. upplýsingum, sem hv. 6. landsk. þm., Davíð Ólafsson, gaf við 2. umr. þessa frv. í Nd., aðeins 4%. Að mínu áliti er hægt að gera sér vonir um það, að annaðhvort verðhækkanir á erlendum markaði eða afkastaaukning mundi að öllu öðru óbreyttu gera þessar uppbætur óþarfar á skömmum tíma. En skilyrði fyrir því, að hægt sé þannig sjálfkrafa að komast út úr bótakerfinu, er auðvitað í fyrsta lagi það, að ytri aðstæður breytist ekki í óhag frá því, sem nú er, og í öðru lagi, sem er ekki síður þýðingarmikið atriði, að hagsmunasamtökin telji sér hag í því, að ekki þurfi á ný að hverfa að því fyrirkomulagi, sem stöðva hlýtur alla framfaraviðleitni. Það verður að hafa hugfast, að allt vald í efnahagsmálum er ekki í höndum hæstv. ríkisstj. Hagsmunasamtökin í landinu, launþegasamtökin, bændasamtökin og atvinnurekendasamtökin o.s.frv., hafa í þessum efnum mikið vald og geta beitt því valdi og hafa gert það, eins og kunnugt er, til þess að hafa áhrif á þróun efnahagsmálanna í þá átt, sem þessi samtök telja að sérhagsmunir sínir krefjist. En þar sem ábyrgð og vald hljóta alltaf að fylgjast að, geta þeir aðilar, sem ég nú hef nefnt og hér eiga hlut að máli, ekki skorazt undan því, þar sem þeir hafa haft sín áhrif á framvindu málanna, að taka líka sinn hluta af ábyrgðinni á því, hver framvindan verður.

Því hefur eðlilega verið hreyft við þær umr., sem farið hafa fram um þetta mál, bæði í hv. Nd. og hér, að vinna þurfi að því að samhæfa afstöðu þeirra aðila, sem vald hafa til þess að hafa áhrif á framvindu efnahagsmálanna. Hversu þessi samhæfing megi verða, er eitt af þeim vandamálum, sem við stöndum gagnvart. Nú er það að vísu mín skoðun, að hægt sé að tryggja jafnvægi í efnahagsmálum án þess, að slíkt samstarf við hagsmunasamtökin sé fáanlegt. Það eru til leiðir í því efni, en slíkar leiðir eru vissulega erfiðar í framkvæmd. Og í öðru lagi er samstarfið æskilegt í sjálfu sér. Ég vil taka það fram, svo að rangar ályktanir séu ekki dregnar af því, sem ég segi, að þegar ég tala um færar leiðir til þess að tryggja efnahagslegt jafnvægi, án þess að hægt sé að fá samstarf við hagsmunasamtökin, þá hef ég ekki í hug kaupbindingu eða slíkar ráðstafanir. En undir öllum kringumstæðum eru þær leiðir torfærar.

Mér dettur í þessu sambandi í hug fordæmi Hollendinga. Þeir hafa komið á fót hjá sér efnahagsmálastofnun með aðild bæði launþegasamtakanna og atvinnurekendasamtakanna, sem hefur mjög víðtækan tillögurétt og í rauninni víðtækt vald, þó að auðvitað komi aldrei til mála að setja slíka stofnun yfir ríkisstjórn og löggjafarþing. Það mundi auðvitað vera brot á lýðræðislegum reglum. En þar í landi mun ekki ágreiningur um það, að starfsemi þessarar stofnunar hafi gefizt vel. Nokkur vísir til slíkrar hugmyndar hefur komið fram í frv. hv. 3. þm. Reykv. um áætlunarráð ríkisins, en það frv. hefur legið fyrir hv. Alþingi nokkur undanfarin ár. Á síðasta þinginu, sem ég átti sæti í hv. Nd., man ég, að ég og hæstv. núv. dómsmrh., sem vorum þá fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn., skiluðum nál. um þetta frv. Vissulega var margt bæði í frv. og grg. fyrir því, sem okkur var mikill þyrnir í augum, og auðvitað treystum við okkur ekki til að mæla með samþykkt þess. En að mínu áliti var það nál., sem við skiluðum, ekki óvinsamlegt, og viðurkennt, að ýmsar athyglisverðar hugmyndir væru í frv., m.a. sú að koma slíkri efnahagsmálastofnun með aðild hagsmunasamtakanna á fót, þó að henni hafi að vísu alltaf verið ætlað þrengra starfssvið í því frv. en efnahagsmálastofnunin hollenzka hefur.

Það er ekki óeðlilegt, að þessi atriði komi til athugunar í sambandi við þann vanda, sem nú blasir við. Því miður verð ég samt að segja það, að ég hef ekki verulega trú á því, að árangur yrði af því, þó að nú væri reynt að fara inn á svipaða braut í þessum efnum og Hollendingar hafa gert með góðum árangri og raunar fleiri Vestur-Evrópuþjóðir. Ástæðan til svartsýni minnar í þeim efnum er sú, að því miður hefur reynslan verið sú, að fulltrúar launþegasamtakanna virðast hafa verið ófáanlegir til þess að ræða þau efnahagsmál, sem við er að etja, á grundvelli staðreynda. Það er ekkert við því að segja, þó að þessir aðilar geri sínar kröfur og slíkar kröfur kunni stundum kannske að virðast óbilgjarnar. Hitt er miklu verra, þegar neitað er að viðurkenna augljósar staðreyndir og efnahagslögmál, sem enginn ágreiningur er um, og höfðinu í því efni barið við steininn, en sú hefur reynslan hvað eftir annað orðið.

Þegar ég hef rætt um það, að æskilegt væri að samhæfa ráðstafanir þeirra aðila, sem vald hafa í efnahagsmálum, þá er e.t.v. eðlilegt, að á góma beri till. frá hv. framsóknarmönnum um að skipa 8 manna þingnefnd til að ræða efnahagsvandamálin og reyna að ná samkomulagi um till. í því efni. Ég svara nú aðeins fyrir sjálfan mig persónulega, þegar ég hér geri örstutta grein fyrir því, hvers vegna ég treysti mér ekki til þess að styðja slíka till. En ástæðan er sú, að ég er ekki bjartsýnn á árangur af slíku, meðan hv. framsóknarmenn temja sér þann málflutning, sem þeir hafa gert að undanförnu. Það er að vísu satt, að ýmsar till. hafa komið fram frá þeim um lausn efnahagsmálanna, en allar þær till., sem í seinni tíð hafa komið fram í því efni, hníga í einn og sama farveg, nefnilega í þann farveg að gera óhjákvæmilegt að endurreisa að nýju haftakerfið, sem horfið var frá 1960. Inn á það finnst mér ekki hægt fyrir stjórnarflokkana að ganga, vegna þess að vitað er, að yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda hér á landi er því með öllu andvígur, að það kerfi verði tekið upp að nýju. Og sönnun þess, að hv. framsóknarmenn hafa hugmynd um þá afstöðu kjósenda, er, að þeir hafa aldrei viljað segja það hreinlega, að þeir stefndu að því að endurreisa innflutningshaftakerfið. Þeir vita, að ef þeir gerðu það, mundi fjöldi fylgismanna þeirra snúa baki við þeim. Þess vegna eru aðeins lagðar fram till., sem á mjög skömmum tíma hlytu að hafa það í för með sér, að endurreisn haftanna væri óumflýjanleg, en sú afleiðing er dulin fyrir þjóðinni. Ég álít, að það sé ekki heimild til þess að ljá máls á aðgerðum, sem vitað er að mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur. Þeir einu, sem líklegir eru til að fylgja því, að innflutningshaftakerfið verði tekið upp, eru aðilar, sem gera sér vonir um, að þeir geti öðlazt fjárhagslegan ávinning í skjóli haftanna, t.d. með því að braska með innflutningsleyfi eða þess háttar. Allir aðrir, hvort sem þeir eru kjósendur stjórnarflokkanna eða stjórnarandstöðunnar, mundu telja, að slíkt fyrirkomulag væri sér aðeins til ama og óþæginda.

Að lokum ætla ég að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hann flutti hér í gær, og skal ég taka það fram, að þegar ég talaði um tilhneigingu ýmissa verkalýðsleiðtoga til þess að neita staðreyndum í efnahagsmálum, þá hafði ég síður en svo ræðu hv. þm. í huga, því að hann leitaðist við að ræða málin á málefnalegum grundvelli og færa fram ýmsar tölur máli sínu til stuðnings, sem ég vefengi út af fyrir sig ekki að hafi verið rétt með farið. En sumt af því, sem fram kom hjá honum, gefur þó að mínu áliti tilefni til aths. Hann minntist á það, að orðaskipti hefðu farið fram milli hans og mín laust fyrir áramótin 1961 um það, hvort teflt væri á tæpt vað með fjárhagsafkomu ríkissjóðs. Ég mun þá hafa haldið því fram, — það er rétt með farið hjá hv. þm., — að ekki mætti tæpara tefla í þeim efnum. En það var byggt á þeirri innflutningsáætlun, sem þá lá til grundvallar afgreiðslu fjárl. Nú varð raunin sú, að innflutningur varð til mikilla muna meiri en þessi innflutningsáætlun gerði ráð fyrir, og það var meginástæðan til þess tekjuafgangs, sem varð. Sama máli gegnir um árið 1963, að innflutningur á árinu hefur orðið meiri en gert var ráð fyrir. En það ber líka að hafa hugfast, að á viðskiptajöfnuði s.l. árs verður óhjákvæmilega talsverður halli, halli, sem nemur nokkrum hundruðum millj. kr., þó að það liggi að vísu ekki endanlega fyrir enn þá. En það bendir til þess, að til lengdar verður auðvitað ekki haldið áfram á þeirri braut. Þó að innflutningur þessi tvö ár hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir við samningu fjárl. og tekjur ríkissjóðs þess vegna meiri, þá getur ekki orðið framhald á því óendanlega, það ætti að vera öllum ljóst.

Hv. þm. nefndi í sambandi við söluskattinn, sem hann tjáði sig mjög andvígan, að Norðmenn hefðu annan hátt á við skiptingu tekjuöflunar ríkissjóðs milli beinna og óbeinna skatta, þar næmu beinu skattarnir álíka miklu og óbeinu skattarnir, en þetta væri allt öðruvísi hér hjá okkur. Og það er rétt hvað ríkisskattana varðar. En varlega skyldi samt fara í að gera í þessu efni samanburð við Norðurlöndin, því að aðstaðan er að ýmsu leyti önnur hjá þeim en hjá okkur. Tekjuútsvörin eru þar miklu þýðingarminni liður í tekjuöflun sveitarfélaganna heldur en hjá okkur. Sveitarfélögin í þessum löndum afla sér að verulegu leyti tekna með öðru móti en því að leggja á tekjuútsvör, og af því leiðir, að ríkið er svo að segja eitt um að nota þennan skattstofn. Hins vegar vitum við, að hjá okkur er það þannig, að tekjuútsvörin eru aðalskattstofn bæjar- og sveitarfélaganna. Og hvað sem skoðunum manna á skattamálum liður að öðru leyti, — það skal ég ekki fara út í, — þá hlýtur þetta að leiða til þess, að ríkið getur ekki notað þennan skattstofn á sama hátt og er í nágrannalöndum okkar.

Þá minntist hv. þm. á það, og held ég, að sé rétt með farið hjá mér, að hann taldi, að svo að segja eina ástæðan til þess, að kaupmáttur atvinnutekna hefði aukizt meira en kaupmáttur launa, hlyti að vera sú, að vinnutíminn hefði lengzt. Hann minntist að vísu í því sambandi á aðra taxta en lágmarkstaxta, en vildi halda því fram, og það skal ég út af fyrir sig ekki vefengja, að þessir taxtar hafi ekki hækkað meira en lágmarkstaxtarnir. En það er ýmislegt fleira, sem hér getur komið til og valdið því, að atvinnutekjur manna hækka meira en kaupmáttur tímakaupsins, án þess að um lengingu vinnutímans þurfi að vera að ræða. Það má t.d. nefna atriði eins og flutning á milli mismunandi vinnutaxta, ef menn fara úr lægri taxta í hærri taxta, og enn fremur breytingu á eftirvinnutöxtum, breytingu á hlutfallinu á milli tíma unninna í dagvinnu og eftirvinnu, og svo síðast en ekki sízt, ef ákvæðisvinna hefði verið tekin upp í ríkara mæli en áður, þá getur það leitt til verulegra launahækkana, án þess að um breytingu á lágmarkstaxta hafi verið að ræða og aukningu kaupmáttar þess taxta.

Þá minntist hv. þm. enn fremur á það, að undir öllum kringumstæðum mætti telja réttmætt og sanngjarnt, að kaupmáttur launa ykist þó a.m.k. í sama hlutfalli og þjóðartekjurnar. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að það, hvort menn teldu rétt að láta kaupmátt launa aukast í sama hlutfalli og þjóðartekjur vaxa, verður m.a. komið undir skoðunum manna á því, hvernig skuli ráðstafa auknum þjóðartekjum, hvað mikið af hinum auknu þjóðartekjum á að fara til aukinnar neyzlu eða kjarabóta, sem er eitt og það sama að mínu áliti, og að hve miklu leyti til aukinnar fjárfestingar. Ef menn eru þeirrar skoðunar, að aukin fjárfesting eigi að taka til sín bróðurpartinn af hinum auknu þjóðartekjum, þá er auðvitað auðsætt mál, að launakjörin geta ekki batnað í sama hlutfalli og þjóðartekjurnar aukast. Þetta er annars atriði, sem ég álit að full ástæða væri til og síður en svo mundi koma í bág við lýðræðislegar reglur, þó að haft væri samráð við verkalýðssamtökin um það og þau látin segja álit sitt á því, hvort þau kjósi heldur kjarabætur og minni fjárfestingu og hægari framfarir eða hið gagnstæða. Það er ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að þau hafi sín áhrif á það, og þetta yrði eitt af verkefnum þeirrar efnahagsmálastofnunar, sem ég minntist á og komið hefur verið á fót í ýmsum löndum. Hins vegar verða auðvitað alltaf takmörk fyrir því, hvað hægt er að koma langt til móts við þessi hagsmunasamtök, og það verða stjórnvöld að meta hverju sinni. Og að mínu áliti hefur einmitt verið sami ágalli á þeim till., sem komið hafa t.d. frá alþýðusambandsþingi og ýmsum aðilum verkalýðshreyfingarinnar, eins og ég lýsti áðan, varðandi þær till., sem hv. framsóknarmenn hafa borið fram í efnahagsmálum, nefnilega að ef eftir ábendingum undanfarinna alþýðusambandsþinga væri farið, mundi það leiða beint út í haftakerfið að nýju eða efnahagskerfi, sem vitað er að meginhluti þjóðarinnar er andvígur að tekið verði upp að nýju. En svo langt álít ég, að ríkisstj. megi aldrei ganga til máls við hagsmunasamtök, að það leiði til þess, að stefna verði tekin upp í þessum málum og öðrum, sem viðkomandi ríkisstj, telur sig þó vissa um, að sé í andstöðu við vilja mikils meiri hl. kjósenda.