08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í D-deild Alþingistíðinda. (3420)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. á þskj. 387, nr. 3 og 4, eru, eins og hv. fyrirspyrjandi tók nú fram, shlj. efnislega að öðru leyti en því, að seinni fsp. fjallar um bæði árin 1962 og 1963, en sú fyrri aðeins um árið 1963. Ég taldi samkv. eðli málsins eðlilegast að svara þessum fsp. í einu lagi, eins og ég gerði með svari við fyrri fsp., og tel því ekki ástæðu til þess að rekja Það hér frekar.

En út af ummælum hv. 5. þm. Reykn. um ríkisábyrgðir almennt og fleiri hugleiðingar í því sambandi þykir mér rétt að benda á það, að ríkisábyrgðir voru hér fyrir fáum árum komnar út í algert öngþveiti, og var kvíðvænlegt að horfa fram á, hvert stefndi í því efni. Fyrir þær sakir voru sett tvenn lög á árunum 1960 og 1961, um ríkisábyrgðir og stofnun ríkisábyrgðasjóðs, og með þessum ráðstöfunum er reynt að veita meira aðhald og eftirlit en áður var um þessi efni. Það er þegar kominn í ljós árangur af þessum ráðstöfunum. Það mátti auðvitað gera ráð fyrir því, að vanskil vegna ábyrgða, sem veittar voru fyrir 1960, héldu áfram á næstu árum að falla á ríkissjóð í allstórum stíl. En bæði sú gerbreyting að veita nú yfirleitt einfaldar ábyrgðir í stað sjálfsskuldarábyrgða og að stofna sérstakan ríkisábyrgðasjóð og fela vörzlu hans Seðlabankanum, hefur þegar sem sagt borið verulegan árangur. Að vísu hafa áfalinar ábyrgðir í heild orðið mjög miklar á árinu 1962, hærri en áður, en það er þó nokkur vonargeisli í þessu eða ljósgeisli, að á árinu 1963 urðu hinar áföllnu ábyrgðir nokkru lægri en árið áður. Það er von mín, að svo haldi fram sem horfir, að þessi nýju lög tvenn og það aukna aðhald og eftirlit, sem nú er upp tekið, verði til þess að draga úr útgjöldum vegna vanskila af völdum ríkisábyrgða.