08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í D-deild Alþingistíðinda. (3422)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi drepa á í sambandi við þá fsp., sem hér er til umræðu. Fyrra atriðið er það, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, að hér er um mjög nýstárlega aðferð að ræða við að svara fsp. hér á þingi, og ég vildi mega vænta þess, að hér væri ekki um fordæmi að nýrri aðferð til að svara fsp. að ræða. Ef fsp. er svarað þannig, að svör ráðh. eru afhent vélrituð fyrirspyrjendum einum og e.t.v. einhverri þn., þá koma svör ekki inn í þingtíðindi t.d., og það er nokkuð mikið atriði, ekki nema því aðeins að fyrirspyrjendur fái þá tíma til að lesa svör ráðh. upp.

Hitt atriðið, sem ég vildi mega hreyfa í sambandi við þetta mikla mál, því að hér er vissulega um mjög mikið og alvarlegt mál að ræða, eins og greinilega kom fram í þeim fáu orðum, sem hæstv. ráðh. sagði hér um málið, er, hvort það hefur ekki verið athugað af hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessar ríkisábyrgðir að taka upp þá reglu eða þann hátt, að ríkið gangi ekki í ábyrgð fyrir aðila, hvort sem er um að ræða einstakling eða félag, sem það hefur áður orðið að greiða ábyrgðarskuldbindingar fyrir, nema því aðeins að hann hafi þá greitt upp það, sem ríkið hafði áður fyrir hann greitt. Mér er nær að halda, að það sé almenn regla og algild í viðskiptalífinu, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir, eins og t.d. banka, að það sé mjög fátítt, ef ekki óþekkt, að fyrirtæki eða banki láni aðila, sem lent hefur í vanskilum og ekki greitt þær skuldir, sem hann áður stóð í, og ég held, að það væri mjög til athugunar fyrir ríkið að taka upp þennan sama hátt. Aðilar, hvort sem það eru einstaklingar eða félög, sem hafa orðið uppvísir að því að standa ekki í skilum, heldur láta skuldirnar falla á ríkið og þar með á almenning, ættu ekki — eða manni sýnist svo — að fá nýjar ríkisábyrgðir strax á eftir eða fljótlega á eftir, ekki nema þeir hefðu gert skil fyrir fyrri skuld. Ég vildi mega skjóta því til hæstv. fjmrh., hvort þetta hefur verið athugað, eða ef það hefur ekki verið athugað, hvort ríkisstj. vildi þá ekki athuga þetta í framtíðinni, því að þessum málum er hvergi nærri lokið. Þessar ríkisábyrgðir eru á döfinni og verða enn um sinn.