08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur nú komið hér fram, að hæstv. ráðh. mun hlutast til um það, að allir þm. fái þessa skýrslu um greiðslur vegna ríkisábyrgða síðustu 2 árin, og einnig liggur fyrir yfirlýsing frá honum um, að þessi skýrsla muni verða birt með ríkisreikningnum 1963, þegar hann verður prentaður. Mér sýnist nú, að þá megi við þetta una. En ég vildi vekja athygli á því, að ef til þess kæmi síðar, að ríkisstj. teldi óþægilegt að lesa upp sundurliðuð svör við fsp., t.d. vegna þess, að þar væri um svo langar skýrslur að ræða, að það mundi taka óeðlilega langan tíma, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér að umtalsefni áðan, þá finnst mér, að sú leið væri auðveld að láta prenta þessi svör sem þskj. og útbýta svörunum þannig á prentuðum þskj. Þá komast þessar skýrslur inn í þingtíðindin eins fyrir því, þó að þær séu ekki lesnar upp hér á þingfund frá orði til orðs. Á þessa aðferð vildi ég benda, að vel mætti nota hana, ef þarna væri um svo margbrotin mál að ræða, að það þætti óeðlilegt að tefja þingfundi með því að lesa upp svörin.