30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, má segja að sé þrenns konar. Það er í fyrsta lagi stuðningur við útgerð og fiskiðnað, sökum þess að dýrtíðarþróunin hér innanlands hefur aukið svo tilkostnað þessarar starfsemi, að komið er fram úr útflutningsverðlaginu, í öðru lagi nýjar skattaálögur, sem nema, miðað við heilt ár, nærri 300 millj. kr., og í þriðja lagi heimild til að leggja á hilluna nýlega samþ. fjárlög frá Alþingi og fresta framkvæmdum, sem þar eru ákveðnar, svo sem skólum, sjúkrahúsum, höfnum o.s.frv.

Um fyrsta atriðið má segja það, að það má að sjálfsögðu gagnrýna einstök atriði, sem þar er gert ráð fyrir, og hafa ýmsar skoðanir um, að þær ráðstafanir ættu að vera á einhvern annan veg, en um hitt verður ekki deilt, að það er nú svo komið, að það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að halda þessum atvinnuvegum gangandi. Þessar ráðstafanir, sem í því efni eru gerðar, hafa hv. talsmenn ríkisstj., bæði hæstv. forsrh. og einnig frsm. meiri hl. fjhn. hér áðan, lagt áherzlu á að væru bráðabirgðaráðstafanir. Þessar bráðabirgðaráðstafanir kosta ríkisstj. um eða innan við 4 millj. kr. á viku. Ríkissjóður hefur undanfarin ár og enn á þessu ári, að því er bezt verður séð af nýsamþykktum fjárl., haugað upp greiðsluafgöngum. Hann getur vel greitt þessar 4 millj. kr. á viku um sinn, og það liggur ekkert á að samþykkja nýjar álögur af þessu tagi, sem hér er um að ræða. Þær ráðstafanir, sem er verið að gera, réttlæta það á engan hátt. Þessar nýju álögur geta þess vegna beðið, meðan kannað er, hvort ekki sé mögulegt að ná samstarfi, víðtæku samstarfi um nýja stefnu í efnahagsmálum, sem fleiri og fleiri gera sér ljóst, að hlýtur að vera óhjákvæmilegt á næsta leiti að upp verði tekin. Heimildina til framkvæmdastöðvunar kemur ekki til mála að samþykkja. Það kemur ekki til mála að ómerkja 5 vikna gamlar gerðir Alþ. um ákvarðanir til framkvæmda á árinu 1964, meðan einkaaðilar fá algerlega frjálsar hendur með hvers konar verðbólgufjárfestingu, sem þeim kann að detta í hug.

Þetta var í sem stytztu máli afstaða minni hl, fjhn. þessarar hv. d. til þess, sem kalla mætti þrjú aðalatriði þess frv., sem hér er til umr. Og áður en ég kem að því að rökstyðja þessa skoðun í einstökum atriðum og lýsa frekar brtt., sem við höfum að gera við einstök atriði í frv., þá verður ekki hjá því komizt að rekja nokkur atriði þeirrar stefnu og framkvæmdar hennar, sem hefur leitt okkur út í þær ógöngur, sem efnahagsmál okkar eru nú komin í.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. lýsti því vel í gær, hve morgungleði hefði einkennt þessa hæstv. ríkisstj., þegar hún settist að völdum fyrir 4 árum. Það var ekkert smáræði, sem þá stóð til. Þá átti að horfast í augu við allan vandann í einu og taka upp nýja þjóðfélagshætti. Það hefur aldrei nein stjórnarstefna verið kynnt með öðru eins yfirlæti. En raunar var viðreisnin ekki efnahagsmálastefna nema að nokkru leyti. Hún var í rauninni einstakar sundurlausar kenningar, hálfhugsaðar og gripnar úr samhengi við íslenzkan raunveruleika. En að öðru leyti, að því leyti sem hún var ekki efnahagsmálastefna, var hún skrumherferð, einhver sú ferlegasta, sem hér fara sögur af. Það var flaggað með verzlunarfrelsi, þó að verzlunin hafi raunar aldrei verið gefin frjáls nema að litlu leyti, því að þótt innflutningur hafi verið frjáls að talsverðu leyti, þá hefur útflutningur allur verið reyrður í fastari fjötra en nokkru sinni áður. Uppbótakerfið, sem algerlega var fordæmt á sínum tíma var aldrei afnumið, niðurgreiðslur, sem í sjálfu sér eru ekki annað en eitt form fyrir uppbætur til útflutningsatvinnuveganna, hafa verið við lýði, miklar og jafnvel auknar, og einnig beinar útflutningsuppbætur, eins og hv. síðasti ræðumaður rakti að nokkru leyti. Allt þetta hástemmda skrum um þessa hluti, sem borið var á borð fyrir 4 árum, var engin efnahagsmálastefna, heldur aðeins skrumið eitt. Og í vor var viðreisnin lofuð háum rómi og talið, að hún hefði heppnazt í hvívetna. En í haust var komið annað hljóð í strokkinn. Þá var okkur skýrt frá því hér á hv. Alþingi, að stórkostlegur vöruskiptahalli væri við útlönd á þessu ári. Hóflaus innflutningur hefði leitt til óeðlilegrar birgðasöfnunar í landinu. Gjaldeyrissjóðir hefðu hætt að vaxa og á löngum tímum ársins farið minnkandi. Sparifjáraukning væri sáralítil. Vinnuaflið væri á uppboði í meira og minna óþörfum framkvæmdum og halli á rekstri útflutningsframleiðslunnar.

Þetta var ástandið í haust, þó að viðreisnin hefði í raun og veru haft hin allra hagstæðustu skilyrði, sem um getur, til þess að ná þeim tilgangi, sem hún átti að ná. Aflabrögð hafa aldrei verið meiri en þessi ár, en samt hefur okkur orðið svo ákaflega lítið úr miklum tekjum þessara ára. Og það er ljóst, að það er röng stjórnarstefna, sem þarna á höfuðsök, en ekki hún ein, heldur einnig sinnuleysi stjórnarvalda um eðlilega stjórn efnahagsmála, sem flýtti mjög fyrir þeirri niðurstöðu af þessari stefnu, sem orðin er.

Því fer auðvitað víðs fjarri, að ríkisstj. hafi verið stefnu sinni, eins og hún var upprunalega kynnt, trú í öllum atriðum. T. d. gafst ríkisstj, fljótt upp við þá ætlan sína að tryggja jafnvægi á vinnumarkaðnum með stórfelldum samdrætti framkvæmda í landinu, og sízt skal ég álasa henni fyrir þetta, því að ef slík stefna er rekin á þann hátt, sem upprunalega var boðað, er vandstýrt fram hjá atvinnuleysi, sem ég álít það versta böl, sem yfir okkur gæti gengið. Nokkur þensla í efnahagslífinu er miklu betri en það, en hóf skal þó vera á hverjum hlut, og kem ég að því síðar.

Einni kenningu sinni hefur hæstv. ríkisstj. verið trú. Það er sú kenning, að við höfum, áður en viðreisnin kom til sögunnar, lifað um efni fram og þess vegna þyrfti að draga úr kaupgetu í landinu. Þetta átti að gera með því að tryggja það, að verðlag hækkaði jafnan meira en kaupið. Vaxtapólitík ríkisstj. var einn liður í þessari áætlun. Vaxtahækkunin var réttlætt með því, að hún ætti að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fjármagns og væri feiknalegt réttlætismál fyrir sparifjáreigendur. Nú er það öllum ljóst, að við höfum aldrei verið fjær því en nú að hafa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fjármagns, því að ófullnægð eftirspurn eftir lánsfé hefur vafalaust aldrei verið meiri en hún er núna. Og sparifjáreigendur telja sig auðvitað illa svikna, því að hinir háu vextir hafa ekki komið að meira gagni en svo, að þeir hafa misst þá alla og hluta af höfuðstólnum í viðbót á verðbólgubálið. Eftir eru þá aðeins verðhækkunaráhrif hinna háu vaxta, því að auðvitað eiga vextirnir þátt í dýrtíðarþróuninni.

Hv. síðasti ræðumaður, 10. þm. Reykv., hefur oftsinnis gert vaxtapólitíkina að umræðuefni og gerði það einnig í ræðu sinni áðan, og hann taldi, að lækkaðir vextir mundu hafa mjög litla þýðingu fyrir útflutningsatvinnuvegina. Það er þó alveg ljóst, að vaxtafóturinn hefur mjög veruleg áhrif á allt verðlag í landinu. Það dugir ekki að reikna dæmið þannig að reikna aðeins vexti af því fé, sem bankarnir lána út. Öll fjármunaþjónusta í landinu hlýtur að verðleggjast eftir ríkjandi vaxtafæti. Þessu sleppir hv. 10. þm. Reykv., þegar hann ræðir um þessi mál, sem hann gerði t.d. hér áðan og í nál. hv. meiri hl. og gerði raunar einnig með mjög svipuðum hætti við umr. um frv. um launamál hér í þessari hv. d. í nóv. Þá átti ég ýmislegt vantalað við hv. sessunaut minn um þau efni, en af hagkvæmniástæðum frestaði ég þá ræðu minni til 3. umr., sem mönnum er sjálfsagt í minni, að féll niður. Ég skal nú ekki taka það tal allt upp að nýju, en ég vil þó að gefnu tilefni í nál. meiri hl. að þessu sinni og í ræðu hv. 10. þm. Reykv. segja það, að höfuðröksemd hv. þm. gegn lækkuðum vöxtum er sú, að þeir mundu leiða til aukinnar þenslu. Þessu er slegið fram, og þá um leið þegjandi látið að því liggja, að lækkaðir vextir mundu leiða til aukinna útlána. Þetta er sú fullyrðing, sem ég get ekki fallizt á að sé rétt í okkar þjóðfélagi, eins og efnahagsþróun hefur verið hér á undanförnum árum. Útlánin takmarkast ekki vegna þess, að vextir séu svo háir, að þeir takmarki eftirspurnina, það vitum við allir, heldur takmarkast útlánin eingöngu af skömmtun bankanna. Og það er þvert á móti hægt að nefna þess dæmi úr okkar efnahagslífi undanfarin ár, að of háir útlánsvextir viðskiptabankanna hafi aukið á útlánin.

Á s.l. vetri höfðu Seðlabankanum safnazt allverulegir gjaldeyrissjóðir og á móti þeim stóð fé á bundnum reikningum hér heima fyrir. Gjaldeyrisvarasjóðurinn stóð í erlendum bönkum eða erlendum pappírum á mjög lágum vöxtum. Seðlabankinn mun hafa séð fram á alvarlegan vaxtahalla. Hann greip þá til þess ráðs að lækka vexti af vissum innstæðum viðskiptabankanna. Nú er það alveg ljóst, að þó að sparifé almennings hreyfist eftir ýmsum öðrum lögmálum en vaxtafætinum einum, t.d. hefur verðlagsþróunin o.fl. auðvitað áhrif á það, hvernig fólk ráðstafar peningum sínum, þá eiga viðskiptabankarnir ekki margra kosta völ í þessu efni. Þeir geta ekki varið það fé, sem þeir hafa undir höndum, fyrir verðbólgunni með því að koma því í föst verðmæti. Þó að fjárfestingar á vegum bankakerfisins í landinu séu nú allverulegar, þá eru þær sem betur fer ekki nema mjög lítið brot af því fé, sem þeir hafa yfir að ráða. Þess vegna geta viðskiptabankarnir aðeins valið á milli þess að lána fé sitt út til almennings eða atvinnuveganna eða leggja það inn í Seðlabankann. Þegar Seðlabankinn lækkar sína vexti, án þess að almennir útlánsvextir bankanna séu lækkaðir, þá mundi ég ekki ásaka bankastjóra viðskiptabankanna, þó að þeir ykju útlán sín, eftir því sem þeir gætu, og drægju þá jafnframt úr innistæðum sínum hjá Seðlabankanum. Og það skyldi þó aldrei vera, að þessi ráðstöfun, sem ég hér hef verið að gera að umræðuefni, ætti nokkurn þátt í því, að útlán bankakerfisins jukust um 400 millj. kr. meira en sparifé í landinu á því tímabili, eftir að þessi vaxtabreyting, sem ég var að nefna, var gerð og þangað til vöxtunum var breytt aftur í septembermánuði s.l. Það þarf nefnilega að vera þannig, ef rekin er ákveðin fjármálapólitík, þá verða menn að vera sjálfum sér samkvæmir. Menn þurfa að hafa gert sér grein fyrir því, hvert sú pólitík leiðir, og mega ekki grípa til panikráðstafana, þegar þeir allt í einu sjá, að einhver stofnun verður kannske að bíða af stefnu þeirra nokkurt tap.

Frysting sparifjárins var einn veigamikill liður í viðreisnarstefnunni. Það var ætlunin með henni að takmarka það fjármagn, sem almenningur hefði aðgang að, til þess með þeim hætti að takmarka eftirspurn og fjárfestingu í landinu. En nú er það svo, að bankarnir ráða ekki yfir öllum peningum í landinu, og það voru engar ráðstafanir gerðar í þessu sambandi til að hafa hemil á fjárfestingu þeirra, sem höfðu umráð yfir fé. Þegar menn gerðu sér það ljóst, hvert efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar leiddi í verðlagsmálum, hófst æsilegt fjárfestingarkapphlaup. Menn fóru að reyna að koma peningum sínum í fasta fjármuni, og var þá ekki alltaf hugsað um það, hversu nauðsynlegt það væri fyrir þjóðarheildina. Erlend vörukaupalán voru tekin, svo að nam hundruðum millj. kr., en slík erlend lán verka auðvitað á peningamarkaðinn hér innanlands með alveg sama hætti og útlán frá bönkunum. Þegar fullljóst var, hvert stefndi í verðlagsmálunum, bætti ríkisstj. gráu ofan á svart með því að taka erlent framkvæmdalán, án þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess, að þær framkvæmdir, sem þetta fé var ætlað til, kæmust áfram í samkeppninni um vinnuaflið. Með þessum hætti verður fjárfestingarmálum ekki stjórnað.

Það var eitt af loforðum viðreisnarinnar á sinni tíð, að jafnvægi í verðlagsmálum mundi skapast, þegar vísitalan, sem þá var 100, hefði náð 103 stigum. Nú hefur þessi vísitala komizt upp í 149 stig og ekkert jafnvægi sýnilegt, eins og allir sjá. Það var fullyrðingin í þá tíð, að frjáls innflutningur mundi skapa þá samkeppni, sem héldi verðlaginu í skefjum. En lánsfjárskorturinn, lánsfjársamdrátturinn í landinu hefur að mjög verulegu leyti takmarkað samkeppnina og verðlagsáhrif hennar því að verulegu leyti farið forgörðum.

Þegar hv. talsmenn ríkisstj. hafa á undanförnum mánuðum verið að leita skýringa á því, hvernig farið hefur í verðlagsmálunum, þá hefur þeim orðið tíðrætt um það, að sá farvegur, sem kauphækkanirnar skili sér eftir út í verðlagið, eins og þeir gjarnan orða það, séu þær verðlagningarreglur, sem í gildi eru á landbúnaðarvörum. Því hefur verið haldið fram hér á hv. Alþingi í umr., sem hér voru fyrir nokkrum mánuðum, og oft síðan, að gegnum landbúnaðarvöruverðlagið fari kauphækkanirnar út í verðlagið og skapi þann skrúfugang, sem sé ein höfuðorsök verðlagsþróunarinnar í landinu. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu frá Hagstofu Íslands, sem er fróðlegt að skoða í þessu sambandi. Þar segir, að 10% hækkun á lágmarkstaxta Dagsbrúnar mundi leiða af sér hækkanir á landbúnaðarvöruverði, sem mundu hækka vísitöluna um 1.8 stig eða 1.3%, — þegar þetta var skrifað, var vísitalan lítið eitt lægri en hún er nú, þ. e. 144 stig, — að 10% kauphækkun mundi gegnum þennan farveg, sem hér er um að ræða, leiða til 1.3% hækkunar í vísitölu eða 1.8 stiga hækkunar. Til þess að hækka vísitöluna um 4.5 stig eftir þessum farvegi þyrfti því 25% kauphækkun.

Í ágústmánuði s.l. hækkaði vísitalan einmitt um 4.5 stig. Hafði nú orðið 25% kauphækkun í ágúst? Nei, það hafði ekki orðið. Kauphækkanirnar, sem urðu í júní, höfðu komið inn í júlívísitöluna, og það voru raunar engar kauphækkanir, sem höfðu þessi áhrif á ágústvísitöluna. Hvað var það, sem hafði þessi áhrif á vísitöluna? Ég hef útreikning á því hér fyrir framan mig, og þar kemur í ljós, að gjöld til hins opinbera hafa þarna áhrif um 2.76 vísitölustig. Hækkað verð á sígarettum og áfengi, sem einnig er til tekjuöflunar í ríkissjóð, hefur þarna áhrif um ½ vísitölustig. Síðan koma bara nokkur smáatriði, leigubifreiðataxti, klipping karla, húsnæðisliður, m.ö.o. hreint óverulegir liðir. Þarna m.ö.o. eiga álögur til hins opinbera meginþáttinn í því að hækka vísitöluna um 4½ stig, sem raunar var hækkað upp í 5 stig, í þessum eina mánuði, sem þarna var um að ræða. Það er þess vegna vissulega ástæða til þess að hafa fleiri atriði í huga en verðlagningarreglur landbúnaðarins, þegar kannaðar eru ástæðurnar fyrir verðlagsþróuninni í landinu.

Nú skal því sízt neitað, að það hefur fleirum gengið illa að ráða við verðlagsþróunina í landinu en núv. hæstv. ríkisstj., jafnvel þó að þeir hafi reynt að berjast við hana á fleiri vígstöðvum en hæstv. núv. ríkisstj. gerir, því að hún beinir eingöngu geiri sínum gegn þeim þætti þessarar framvindu, sem eru kauphækkanirnar. Nú er það svo, að það hefur engum gengið eins illa að ráða við þessa framvindu og núv. ríkisstj. Skv. nýlegum útreikningum, sem ég hef hér fyrir framan mig, kemur í ljós, að vísitala neyzluvöruverðs hefur aldrei hækkað eins mikið á neinu ári síðan 1954 og hún hefur gert árin 1961, 1962 og 1963, og raunar 1960 líka, nema árið 1956. Önnur ár hefur tekizt miklum mun betur að ráða við verðlagsþróunina í landinu heldur en hæstv. núv. ríkisstjórn hefur tekizt á nokkru ári síns valdaferils.

Nú þykir mér rétt að vekja athygli hv. þdm. á því, að dýrtíðarþróunin verður ekki sigruð með aðgerðum í peningamálum eingöngu, eins og virðist hafa vakað fyrir mörgum talsmönnum hæstv. ríkisstj. Það er ekki hægt, ef ekki skapast trú á, að það takist að hafa hemil á verðbólgunni. Verðbólgan á sér ekki aðeins fjármálalegar orsakir, hún á sér einnig sálfræðilegar orsakir. Trúin á verðbólguna elur hana nefnilega, vegna þess að fólk hagar ráðstöfunum fjármuna sinna í samræmi við þá trú, ef það trúir því, að verðbólga sé á næsta leiti, og slíkar aðfarir verða aftur til þess að ala verðbólguna.

Ég er þeirrar skoðunar, að ásamt afnámi verðtryggingarinnar á laun og kaupgjald sé það fyrst og fremst ein hliðin á viðreisninni, sem hefur gert það að verkum, að svo erfiðlega hefur gengið að skapa þá trú, sem nauðsynlegt er að skapa á stöðugu verðlagi, til þess að nokkur von sé til þess, að það náist, og þessi hlið viðreisnarinnar, sem ég hér á við, er þessi: Eitt af því, sem skeði við þær efnahagsaðgerðir, sem gerðar voru á öndverðu ári 1960, var það, að hlutfallið á milli stofnkostnaðar og fjármagnskostnaðar annars vegar og launatekna og atvinnutekna hins vegar raskaðist stórlega. Stofnfjárkostnaður allur hækkaði mjög mikið, og til viðbótar því hækkuðu svo vextir og lán styttust líka. Fjármagnskostnaðurinn hækkaði sem sagt mjög verulega, en kaupgjald og atvinnutekjur hækkuðu annaðhvort ekkert eða ekki að sama skapi. En þegar þetta hlutfall breyttist, minnkaði trú manna á því, að slíkt ástand gæti staðizt án verðbólgu. Það liggur í augum uppi, að þegar byggingarkostnaður einföldustu íbúðar er orðin fimmföld venjuleg árslaun og með þeim vaxtakjörum og lánskjörum, sem fyrir er að fara hér, getur fólk ekki fengið sig til að trúa því, að slíkt ástand geti verið varanlegt án verðbólgu. Það mundi gera öllum ómögulegt að ráðast í sjálfsögðustu og eðlilegustu fjárfestingu. Þess vegna hefur óafvitandi skapazt sú trú hjá mönnum, að verðbólguþróunin hlyti að halda áfram. Af þessum ástæðum er ég þeirrar skoðunar, að ein nauðsynleg forsenda þess, að hægt sé að ráða við verðbólguþróunina, sé að koma aftur hlutfallinu á milli stofnkostnaðarins annars vegar og hins vegar launa og atvinnutekna í hóflegra horf en nú hefur verið um skeið.

Á vinnumarkaðinum hefur verið að skapast þessi ár ástand, sem er algerlega óþolandi. Gengislækkunin 1960 lagði þungar byrðar á allan almenning. Það var í sjálfu sér ekki vefengt í upphafi, að svo mundi verða, en sagt, að þær mundu aðeins verða um sinn, um stuttan tíma, og svo mundi úr rætast. Launþegastéttirnar lögðu á sig þessar byrðar og bjuggu við óbreytt kaupgjald fram til vors 1961, þegar þeim tókst að semja um hóflegar kauphækkanir. En í ágústmánuði 1961 svaraði ríkisstj. þessum kauphækkunum með því að lækka gengi krónunnar. Því var haldið fram, að það væri nauðsynlegt til að vernda þann litla gjaldeyrissjóð, sem þá hefði skapazt, og skapa skilyrði fyrir, að hann gæti haldið áfram að vaxa. Og það er athyglisvert, að þetta var notað sem höfuðröksemd í þessu máli, en ekki hitt, að atvinnuvegirnir gætu ekki borið kauphækkunina, því að það gátu þeir sannarlega. Við þessa gengisbreytingu voru allir samningar ógiltir, vegna þess að þeir höfðu inni að halda ákvæði um, að þeir féllu úr gildi, ef genginu yrði breytt, eins og samningar hafa gert hér um alllangt skeið, og það var ekki fyrr en í maí 1962, að aftur voru gerðir hóflegir kjarasamningar. Í þeim var vísitöluventill, sem sprakk svo í október, þegar vísitalan hafði hækkað mjög verulega fram úr því marki, sem gert var ráð fyrir í samningunum, og nýtt kaupgjald var svo ákveðið, án þess að nýir samningar væru gerðir í jan. 1963, og sjálfsagt er hv. þdm. minnisstæð framvindan á s.l. ári í þessum efnum, samningarnir í júní, þjóðhátíðarsamningarnir, og síðan í des. s.l.

Á s.l. ári voru gildandi við þessar atvinnustéttir, sem ég hér hef gert að umræðuefni, verkamenn og iðnverkamenn, lægst launuðu stéttirnar, við þær voru í gildi samningar á árinu 1963 aðeins í 4½ mánuð, samningslaust var við þessar stéttir í 7½ mánuð á árinu 1963. Þrívegis á því ári urðu almennar kauphækkanir í landinu. Þetta kom ekki á óvart. Þegar verðtrygging kaupsins var bönnuð með 23. gr. l. um efnahagsmál frá 1940, vöruðum við framsóknarmenn við þessari þróun málanna. Ég vil leyfa mér að minna á það, að við 2. umr. í hv. Nd. um efnahagsmálafrv. í febr. 1960 átti ég þar sæti sem varamaður fyrir hv. 4. þm. Sunnl., þá ræddi ég um bannið við vísitölunni og lýsti þá þeirri skoðun minni, að þó að vísitölufyrirkomulagið hefði verið mjög gallað á ýmsa lund, væri tilgangslaust að ætla að banna það með lögum, ef ekki gætu náðst um það frjálsir samningar við launþegasamtökin að fella slík ákvæði úr samningum. Um þetta sagði ég skv. B-deild Alþt., 2. hefti 1959, með leyfi hæstv.forseta:

„Það er skoðun mín, að þetta sé mjög hættulegt ákvæði í frv. og kannske það ákvæði, sem beri í sér örlög þeirra ráðstafana, sem hér eru til umr. Það hefur engan tilgang að setja svona ákvæði í lög, vegna þess að vilji launþegar ekki fallast á það með frjálsum samningum, þá leiðir lagaákvæði um það ekki til neins nema vandræða. Árangurinn verður þá aðeins sá, að kjarasamningar verða gerðir til styttri tíma, vinnudeilur og verkföll verða tíðari og eilífur ófriður á vinnumarkaðnum, sem leiðir til tjóns fyrir launþega, fyrir atvinnurekendur og fyrir þjóðfélagið allt.“

Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið fleiri en ég, sem gerðu sér ljóst, að framvindan hlyti að verða þessi, og hæstv. ríkisstj. hefur því varla getað komið það mjög á óvart, þó að samningstími almennra kjarasamninga í landinu hafi sífellt verið að styttast. Þetta bann við vísitölunni hefur leitt til fleiri einkennilegra, óheillavænlegra fyrirbrigða en styttri samninga. Það hefur leitt til þess, að farið er að taka inn í kaup- og kjarasamninga ákvæði um, að þessi skuli hækka, ef hinn hækkar, og fæ ég ekki séð, að það sé heillavænlegra en miða við verðlagið, að menn fari að miða sig þannig við kaup hver annars. Og ég verð að láta í ljós harm minn yfir því, að hv. Alþingi skyldi hafa orðið fyrir því slysi að setja ákvæði af því tagi inn í 7. gr. l. um kjaramál opinberra starfsmanna í stað þess að miða þá heldur við að tryggja kaupgetu launa hinna opinberu starfsmanna með ákvæðum um verðlagstryggingu. En við það ástand, sem undanfarin 4 ár hefur verið að skapast á vinnumarkaðnum í landinu, verður að sjálfsögðu ekki lengi unað. Það verður að finna leiðir til að tryggja vinnufrið í landinu, og ég skal ekki draga fjöður yfir þá skoðun mína, að verðtrygging af einhverju tagi og í einhverju formi á launum og kaupgjaldi hljóti að vera meginþáttur í því.

Ég hef hér rakið nokkur atriði úr stefnu viðreisnarinnar til að leitast við að sýna fram á það með nokkrum atriðum, sem ég hef nefnt, að ófarir viðreisnarinnar hafa ekki verið neitt yfirnáttúrlegt fyrirbæri, heldur rökrétt afleiðing rangrar stjórnarstefnu og sinnuleysis og mistaka í framkvæmd. Örlagaríkasta orsökin fyrir því, hvernig komið er, er það, sem ég gat um áðan, það atriði stefnunnar, sem hæstv. ríkisstj. hefur ævinlega verið trú, en það er dýrtíðarstefnan: að takmarka kaupgetuna með því að tryggja það, að kaupið hækki ekki meira en verðlagið, heldur frekar öfugt. Uppbótastefnan, sem kölluð var, eða uppbótakerfin voru fordæmd á sínum tíma, en þau voru aldrei yfirgefin, eins og hv. 10. þm. Reykv. gat um hér áðan. Þeim var haldið áfram, og nú á að blása þau upp til þess að reyna að leysa til bráðabirgða þau vandamál, sem skapazt hafa af viðreisninni.

Ég skal ekki hafa þessar almennu hugleiðingar öllu lengri, en snúa mér að því að ræða um nokkur atriði frv. efnislega og gera grein fyrir brtt., sem við flytjum, minni hl. fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég.

1. gr. í frv., eins og það liggur fyrir Ed., er um uppbætur til frystihúsanna. Ef þær kauphækkanir, sem urðu í des., hefðu ekki á neinn hátt verið bættar, hefði það skv. þeirri túlkun, sem ríkjandi er á lögum um verðlagsráð, orðið til þess að lækka fiskverðið. Það var þess vegna frá sjónarmiði þessarar túlkunar ekki óeðlilegt, að oddamaður í verðlagsnefnd tók inn í sína útreikninga fyrirheit hæstv. ríkisstj. um stuðning við þessa atvinnuvegi og reiknaði 30 aura á kg inn í fiskverðið. í þessu frv., sem hér liggur fyrir, felast efndir ríkisstj. á því fyrirheiti, sem hún gaf, og þær eru með þeim hætti, að útflutningsgjaldið er lækkað sem svarar til u.þ.b. 10 aura á hvert hráefniskg. En 43 millj., sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., eiga þá að bæta hina 22 aurana, því að 32 aurar er þetta allt sagt vera á hráefniskíló.

Að þessu athuguðu er satt að segja einkennilegt að lesa svo í frv., að þessari fjárhæð, 43 millj., skuli verja til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks. Ég veit ekki, hvaða tilgangi það þjónar að vera að gefa í skyn, að þetta fé sé hægt að nota til tvenns í einu. Þessir peningar eru ætlaðir til að borga 22 aura á fiskkg, og þeir geta þess vegna ekki komið að verulegu gagni til að auka framleiðni eða bæta aðstöðu í hraðfrystihúsunum. Það hefur einnig upplýsts í meðferð þessa máls, m.a. af hv. form. fjhn. Nd. á sameiginlegum fundi fjhn. deildanna, að gert sé ráð fyrir því, að öll frystihúsin fái af þessu framlagi í einhverju hlutfalli við sína framleiðslu, og þá liggur ljóst fyrir, að hér er um verðuppbætur að ræða. Framleiðnimálin eru góðra gjalda verð og þeim verður að sinna. En þeim verður að sinna með raunhæfari ráðstöfunum en þeim að segja, að uppbætur til að greiða fyrir fisk geti orðið til að borga ráðstafanir frystihúsanna til aukinnar framleiðni. Raunhæfari ráðstafanir í þessum efnum vil ég leggja áherzlu á að gerðar séu. Ég vil í því sambandi leyfa mér að minna á, að fyrir þessari hv. d. liggur frv. um framleiðnilánasjóð, flutt af okkur nokkrum framsóknarmönnum, sem ég mundi vilja láta í ljós von um, að d. sæi sér nú fært að láta fá eðlilega meðferð, en það hefur legið mánuðum saman óhreyft.

En það er ekki bara fé, sem þarf til að auka framleiðnina. Það þarf líka menn með þekkingu og nægilega menntun til að geta sagt fyrir um nauðsynlegar ráðstafanir. Og eitt af því, sem æskilegt væri að fá gert í þessu efni, er að fá komið á fót fiskiðnskóla, eins og till. liggur fyrir um í Sþ., og raunar var svipuð till. flutt sem brtt. við þetta frv, í hv. Nd., en var þar felld af einhuga stjórnarliði, og höfum við því ekki séð ástæðu til að endurflytja hana hér í Ed. En ef nú svo færi, að hægt væri að nota eitthvað af því fé, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., til þess að afla véla eða tækja, t.d. til þess að auka framleiðni, þá mundi ríkissjóður væntanlega fá um þriðjung af peningunum til baka í tollum á þessum nauðsynlegu vélum og tækjum. Ég segi þetta til að benda á og undirstrika þá skoðun, sem raunar hefur komið fram hjá mörgum öðrum en mér í seinni tíð, að það er í rauninni fráleitt, að við skulum leggja háa tolla á vélar og tæki til okkar útflutningsiðnaðar.

Við höfum gert brtt. við þessa grein, sem ég skal þó ekki ræða um nú, heldur kem ég lítið eitt að því síðar, þegar ég ræði um brtt. okkar allar í einu. En ákvæði 2. gr. í frv., eins og það liggur fyrir, gefur mér tilefni til nokkurra aths. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði aflatryggingasjóði 51 millj., sem úthluta skal til togara, sem gerðir voru út á árinu 1963, og að því er virðist jafnvel til þeirra, sem ekki eru gerðir út 1964, og einnig er heimilt að úthluta af þessu til togara, sem ekki voru gerðir út 1963, ef þeir væru gerðir út á árinu 1964. Þetta er nú dálítið hlálegt, en ég skal ekki fara frekar út í það, heldur langar mig að fara nokkrum orðum um þær ástæður, sem tilfærðar eru til þess, að togararnir þurfi þennan stuðning, sem ég ætla mér þó alls ekki að vefengja að þeir þurfi. Það er sagt, að höfuðástæðurnar séu tvenns konar: annars vegar úrelt vinnubrögð í skipunum og hins vegar minnkuð aflabrögð, og er þá m.a. látið að því liggja, að ein af orsökum þeirra sé útfærsla landhelginnar. Í sambandi við fyrra atriðið dettur mér í hug, að það sé næsta einkennilegt, að þar sem talið er, að úrelt vinnubrögð séu ein af orsökunum fyrir erfiðleikum togaranna, skuli þeirra framlag ekki vera bundið neinu skilyrði um framleiðsluaukningu, en hins vegar þeim, sem fá sitt framlag til að standa undir fiskverðinu, er gert að skilyrði, að þeir skuli gera ráðstafanir til framleiðniaukningar. Það hefði óneitanlega átt betur við í sambandi við togarana. En út í það skal ekki farið lengra að sinni.

Þá er það hitt atriðið, sem ég get ekki látið hjá líða að fara hér um nokkrum orðum, og það er, þegar sagt er, að togararnir eigi að fá bætur fyrir það, að við höfum fært út landhelgina. Togararnir voru aldrei keyptir til að veiða á þeim slóðum, þar sem nú er landhelgin. Þessir togarar voru keyptir aðallega til að sækja á fjarlægari mið, enda eru þeir mjög óhentug tæki til að nota á nálægum miðum, en einmitt þessi nálægu mið eru þau, sem verða bezt nýtt með bátaflotanum og raunar ekki fullkomlega nýtt á neinn annan hátt en með bátum, sem skila aflanum fullkomlega nýjum og ferskum í land. Eigi að síður hefur sú stefna verið ofan á nú um árabil að láta bátana borga í gegnum aflatryggingasjóð stórar fúlgur árlega til togaranna. Þetta er auðvitað hlálegt fyrirkomulag og þeim mun fjarstæðara, sem málum er nú þannig komið, að ríkissjóður þarf að borga bátunum uppbætur. En mér telst svo til, að af þeim uppbótum, sem bátaflotinn fær, verði nær helmingur, sem fer gegnum aflatryggingasjóðinn til togaranna, ef framvindan verður svipuð og verið hefur í aflatryggingasjóði á undanförnum árum. Mér virðist, að þessar hugleiðingar styðji mjög þá till., sem raunar hefur komið fram hér á hv. Alþingi, að nú sé fyllilega tímabært að endurskoða löggjöfina um aflatryggingasjóð í grundvallaratriðum.

Ég vil láta í ljós von um, að þær 4 millj., sem gert er ráð fyrir í þessari gr. að renni til fiskleitar í þágu togaranna, megi verða drjúgar, og hér er um að ræða raunhæfan stuðning, sem ástæða er til að fagna.

Síðasta ákvæði þessarar gr. fjallar svo um 6% hækkun á fiskverðinu, og það er ekki að ófyrirsynju, að slík till. er borin fram, þó að það sé ekki hægt að segja, að þarna sé um neina ofrausn að ræða hjá hæstv. ríkisstj. og það hefði þurft að vera hægt að hækka fiskverðið meira, og höfum við í þeim tilgangi gert till. um að lækka vaxtakostnaðinn og láta sparnaðinn, sem af því leiðir, ganga til hækkunar fiskverðsins.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um 3. gr. þessa frv., sem fjallar um útflutningsgjöldin. Útflutningsgjöldin eru og hafa verið allt of há. Það er meiningarlaust að skattleggja útflutningsframleiðsluna með þessum hætti. Útflutningsgjöldin þurfa að lækka verulega.

Það er líka alveg óeðlilegt, að ríkið taki að sér skattheimtu til að borga ákveðna kostnaðarliði fyrir útgerðina, eins og t.d. vátryggingargjöldin, og a.m.k. verður að gera þá kröfu, að sé það gert, þá gangi ríkisvaldið úr skugga um, að þessum vátryggingum sé fyrir komið með sem allra hagstæðustum hætti, en í umr. hér á hv. Alþ. hafa hvað eftir annað verið leidd að því rök, sem ég skal þó ekki fella neinn dóm um, að hve miklu leyti eru rétt, en það hafa verið leidd að því rök, að þetta fyrirkomulag vátrygginganna sé með mjög dýrum og óhentugum hætti.

Ég vil svo í sambandi við þetta vekja athygli á því, að útflutningsgjaldið, eins og það er innheimt, miðað við útflutningsverðmæti, er í raun og veru skattur á vinnu, sem unnin er í landinu, og meiri ástæða væri til að leggja útflutningsgjaldið á þunga, og kem ég aðeins að því að nefna það síðar.

Ég þarf ekki að ræða neitt um 4. gr., en 5. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að söluskattur hækki úr 3% og upp í 5½%. Stuðningurinn, sem gert er ráð fyrir við sjávarútveginn, kostar 180 millj. kr. á ári. Hæstv. ríkisstj. notar svo tækifærið til að leggja skatta á fyrir ýmsu fleiru í leiðinni. Hún hefur aldrei verið smátæk í þeim efnum og vill nú innheimta nýja skatta, sem nema nærri 300 millj. kr. á ári. En ríkissjóð vantar ekki fé. Það er allt útlit fyrir, að á þessu ári verði framhald á því, sem verið hefur undanfarin ár, að greiðsluafgangar haugast upp í ríkissjóði. Það er nýjung, sem hér er á ferð, að verið er að leggja á nýja skatta, án þess að ríkissjóð vanti fé. Þetta er framhald stefnunnar um að tryggja það, að kaupgetan aukist ekki. Þetta er framhald dýrtíðarstefnunnar, og með þeirri skattlagningu, ef að lögum verður, hefst ný umferð á dýrtíðarhjólinu. Samningar við launastéttirnar í landinu eru lausir eftir 4–5 mánuði, og ég veit það, að hæstv. ríkisstj. gengur ekki að því gruflandi, að launastéttirnar munu leitast við að tryggja hagsmuni sína gagnvart hækkandi verðlagi. Ég veit ekki, hvar hæstv. ríkisstj. heldur að þetta mál endi, ef svona er haldið áfram.

Það eru í þessum málum núna tímamót. Ríkissjóður hefur sýnilega efni á því að taka á sig það, sem þessi bráðabirgðalausn kostar, og að gera það er eina vorin til þess, að nauðsynlegar sættir á vinnumarkaðnum geti tekizt. Af þessum ástæðum er það óhugsandi, að við framsóknarmenn getum fallizt á þessa hækkun, eins og nú standa sakir, þegar tekjuafgangur og greiðsluafgangur hrúgast upp hjá ríkissjóði.

Ég vil svo fara nokkrum orðum um 6. gr., sem felur í sér frestun á þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í fjárl. Hér er um að ræða hreina hallærisráðstöfun, sem felur í sér að ómerkja það, sem Alþ. var að ganga frá í fjárl. fyrir 5 vikum. Ríkisstj. er þá í sjálfsvald sett, hvað af því hún vill framkvæma, hvort hún vill nokkuð af því framkvæma og hvort hún vill eitthvað af því framkvæma og þá hvað. Slíka samþykkt getur hv. Alþ. ekki gert, eins og nú standa sakir. Til þess er ekki tilefni.

Það er vissulega eðlilegt, að reynt sé að hafa einhverja eðlilega stjórn á fjárfestingarmálum. í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem mikið er ógert og margt þarf að gera, er ekki hægt að gera allt í einu, eitthvað verður að víkja. Hér í landinu á sér stað nú um þessar mundir hóflaus verðbólgufjárfesting. En það er ekki hún, sem er ætlað að víkja. Nei, það eru skólarnir, sem eiga að víkja, sjúkrahúsin, vegirnir, brýrnar, hafnirnar, þetta á að víkja, ef eitthvað þarf að víkja.

Það er vissulega nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, ekki með fullyrðingum um skoðanir annarra, stóryrðum og furðulegum málflutningi, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, — það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að við verðum að hafa stjórn á fjárfestingunni og við verðum að finna skynsamlegar leiðir til að gera það. Það verða ekki fundnar leiðir í þeim efnum með því að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og fara gífuryrðum um það, að þeir vilji halda uppi spillingu í þjóðfélaginu, heldur verður þetta gert með því að kryfja vandamálið til mergjar og leita að þeim leiðum, sem tryggðu hagsmuni þjóðfélagsins sem bezt án þess að ganga á frelsi og rétt einstaklinganna meira en frekasta nauðsyn krefur. Áður gerðust þessir hlutir með þeim hætti hér á landi, að það úthlutað af opinberum aðilum leyfum til að ráðast í fjárfestingu á svipaðan hátt og enn er gert í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. Noregi og Danmörku. Hér voru það pólitískar nefndir, sem sáu um þessa úthlutun fjárfestingarleyfa og raunar gjaldeyrisleyfa líka og skömmtun verðlags einnig. Það hefur margt verið sagt ljótt um þá spillingu, sem sumir hafa talið að hafi þróazt í sambandi við þetta, og ég verð að segja, að fyrir nýliða í pólitík eins og mig var það nokkuð forvitnilegt að heyra mann, sem um langa hríð hefur verið í fremstu röð í forustuliði stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem fulltrúa hefur átt í öllum slíkum nefndum, og mann, sem sjálfur hefur átt sæti í n. af þessu tagi, gera starfsemi þeirra að umræðuefni, en það gerði hv. 10. þm. Reykv. í ræðu, sem hann flutti við 2. umr. frv. um launamál hér í hv. d. í nóvembermánuði, og kom raunar verulega inn á þessi atriði hér áðan í ræðu sinni, þegar hann var að gera okkur framsóknarmönnum upp þær skoðanir, að við vildum umfram allt taka upp slík vinnubrögð á nýjan leik, en þá sagði hv. 10. þm. Reykv. um þessa hluti eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta, — hann var aðallega að ræða um gjaldeyrisleyfi, en að sjálfsögðu gilda sömu sjónarmið um úthlutun annarra leyfa, sem kaupsýslumenn hafa hagsmuni af að fá, svo sem í sambandi við verðlag og fjárfestingu og því um líkt, — hv. 10. þm. Reykv. sagði orðrétt:

„En eftir einhverjum reglum verður að fara við úthlutun gjaldeyrisleyfa. Til þess að gera málið ekki of flókið hafa þær n., sem að þessu hafa unnið, sett sér vissar reglur, svo sem þær, að eitthvert fyrirtæki eigi rétt á því að fá vissan innflutningskvóta, eins og það er kallað o.s.frv. En að því leyti sem þær reglur nægja ekki til að leysa þau vandamál, sem þessar n. standa gagnvart, þá er það nú einu sinni þannig, að í þessum n. eiga sæti fulltrúar stjórnmálaflokkanna, og hver einstakur þessara fulltrúa telur það fyrst og fremst sitt verkefni að gæta þess, að hagsmunir fyrirtækja og einstaklinga, sem styðja hans flokk, séu ekki fyrir borð bornir.“

Þetta sagði hv. 10. þm. Reykv. þá, og hann hélt áfram:

„Síðan er svo samið um það milli nm., hvernig úthluta skuli bílum o.s.frv., þar sem hver mælir með þeim, sem hann veit að eru hans flokksmenn, og eftir þeirra leiðum eru vandamálin leyst. Það gefur auga leið,“ sagði hv. 10. þm. Reykv., „að fyrir utan þá spillingu, sem þetta fyrirkomulag býður heim, hefur þetta ekki heppileg áhrif á efnahagsvöxt þjóðarinnar, því að þótt fyrirtæki greiði í sjóð einhvers flokks eða jafnvel í sjóði fleiri flokka til þess að tryggja sig alveg, þá er það ekki víst, að þetta sama fyrirtæki geri sem hagstæðust innkaup.“

Þetta voru orð hv. 10. þm. Reykv. við 2. umr. hér í Ed. um frv. til l. um launamál, sem hér var til meðferðar í nóvembermánuði s.l., og hér talar vissulega sá, sem ekki verður vefengdur, og mér virðist þessi yfirlýsing hans, sem ég hlustaði á með mikilli athygli, hafa haft þau áhrif á mig, að ég hef fjarlægzt það enn meir að vilja fela n. af því tagi, sem hann þarna ræðir um, og sérstaklega á vegum núv. stjórnarflokka, slík völd sem þarna er um að ræða.

En það eru vissulega fleiri leiðir ti,l til þess að hafa áhrif á fjárfestinguna í landinu. Hv. 10. þm. Reykv. hlýtur að gera sér ljóst, að það eru ýmsar aðrar leiðir til, til þess að hafa opinbera stjórn á fjárfestingunni. Ég skal bara nefna eitt dæmi, ekki vegna þess að ég telji, að það sé æskilegt, heldur bara til að benda á það, hvernig Svíar hafa snúizt við því vandamáli, þegar þeim þótti í haust vera of mikil eftirspurn eftir vinnuafli og vera að skapast þau þenslumerki á þeirra þjóðfélagi, sem þeir töldu mjög óæskileg. Ég er hér með fréttabréf frá Skandinavíska bankanum í Svíþjóð, þar sem segir frá því, að það hafi verið ákveðið í októbermánuði s.l., að á tímabilinu frá 1, nóv. og til mánaðamótanna febrúar-marz 1964 væri óheimilt að byrja á nokkurri nýrri fjárfestingarframkvæmd í Svíþjóð. Þessi ákvörðun mun vera byggð á gamalli lagaheimild frá því á stríðsárunum. Ég er ekki að segja, að það væri hæfilegt að fara nú að á sama hátt hér, en ég vildi þó vekja athygli manna á því, að það eru ýmsar leiðir til, til þess að hafa hemil á fjárfestingu í landinu. Og það er auðvitað líka rétt að benda á það, að þó að Svíar hafi sett á þarna algera fjárfestingarstöðvun, þá er vel hugsanlegt að flokka fjárfestingu í ýmsa flokka og leggja áherzlu á það, sem þjóðarheildinni er nauðsynlegt.

En á þessu máli verður að taka af alvöru. Þetta er alvörumál, og það þarf að skoða þetta mál vandlega og leita að leiðum, eins og ég gat um áðan, sem kæmu þjóðfélagsheildinni að gagni, án þess að rýra rétt og frelsi einstaklinganna meir en frekasta nauðsyn býður.

Ég skal nú ljúka máli mínu með því að gera í örstuttu máli grein fyrir þeim brtt., sem við flytjum, hv. 1. þm. Norðurl, e. og ég, sem minni hl. fjhn.

Í fyrsta lagi flytjum við brtt. um það, að bæturnar, sem um ræðir í 1. gr., nái einnig til framleiðslu skreiðar og saltfisks, og í því skyni að rýra ekki bæturnar til frystihúsanna höfum við þá lagt til, að framlagið verði hækkað í 60 millj. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Samlag skreiðarframleiðenda hafa skrifað fjhn. Nd. bréf, þar sem þessi samtök rökstyðja nauðsyn þess, að þessu sé breytt á þennan veg, og þar sem þessi gögn liggja fyrir hér á hv. Alþingi, skal ég ekki rekja þau frekar, aðeins skýra frá því, að við í minni hl. fjhn. höfum fallizt á þessi sjónarmið og leggjum því fram brtt. í þessa átt.

Enn fremur er með þessu frv., sem hér liggur fyrir, farið inn á þá leið að viðurkenna í grundvallaratriðum sjónarmið séruppbóta, uppbóta til þeirra, sem erfiðara eiga, en ekki eitt gengi fyrir alla, eins og hv. 10. þm. Reykv. mundi hafa orðað það. Með því að þetta grundvallarsjónarmið er viðurkennt, teljum við eðlilegt, að þær fiskiðnaðarstöðvar, sem hafa erfiðasta sérstöðu vegna þess hráefnis, sem þær þurfa að nýta, en á hinn bóginn þurfa nauðsynlega að vera reknar vegna þess byggðarlags, sem hlut á að máli, fái séruppbætur á sumarveiddan fisk. Þetta er gamalt mál, sem þarna er um að ræða, og þarf ekki að eyða löngu máli í að gera grein fyrir því.

Enn fremur teljum við ekki eðlilegt, að fé því, sem um ræðir í 1. gr., sé úthlutað af stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það hafa verið borin fram ýtarleg rök fyrir því, af hverju við erum þessarar skoðunar, m.a. við umr. málsins í Nd., og ég geri ráð fyrir, að hv. dm. sé þetta kunnugt. Við höfum þess vegna hugleitt það að finna annan aðila til að úthluta þessu fé, og e.t.v. hefði verið eðlilegt að leggja til, að það væri gert af þingkjörinni n., en við komumst að þeirri niðurstöðu, að rétt mundi að leggja til, að stjórn atvinnubótasjóðs úthlutaði þessu fé, enda hefur hún aðstöðu til að kanna skilyrði hinna einstöku framleiðenda og skilyrði til að þekkja þau til hlítar.

Í fjórða lagi leggjum við til, að efni 5. og 6. gr. falli burt, og ég er búinn að gera grein fyrir ástæðunum til þess.

í fimmta lagi leggjum við til, að afurðalánin verði hækkuð upp í 67% og vextirnir verði færðir í það horf, sem þeir voru fyrir viðreisn, en sá sparnaður fyrir fiskframleiðendur, sem þetta mundi hafa í för með sér, yrði notaður til að hækka fiskverðið.

Í sjötta lagi leggjum við til, að sett verði bráðabirgðaákvæði um það, að ákvæði 3. gr. um útflutningsgjald verði endurskoðað. Endurskoðunin skal miðuð við það að breyta gjaldinu þannig, að það verði miðað við þunga útfluttra sjávarafurða í stað verðmætis og jafnframt lækkað verulega. Þetta er till., sem hv. 4. þm. Reykn. bar fram í hv. Nd. og mér virðist ganga í mjög rétta átt. Eins og ég var að gera grein fyrir áðan, erum við að skattleggja vinnulaunin við útflutningsframleiðsluna með því fyrirkomulagi, sem núna er, og það verður að teljast mjög óhentugt.

Í sjöunda lagi gerum við svo þá till., að aðalefni þessa frv. verði það að endurskoða allt efnahagskerfið frá rótum í því skyni að rannsaka vandamálin til hlítar, að það verði skipuð 8 manna n., 2 frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu þeirra, til þess að rannsaka efnahagsmál þjóðarinnar og leita samkomulags um aðkallandi ráðstafanir í þeim efnum, er miði að því að hindra vöxt dýrtíðarinnar, halda atvinnulífinu í fullum gangi, auka framleiðni og framleiðslu og tryggja öllu vinnandi fólki viðunandi tekjur fyrir hæfilegan vinnutíma.

Það ríður nú mest á því að koma í veg fyrir nýja umferð dýrtíðarhjólsins, sem óhjákvæmilega mundi skapast, ef nú yrðu lagðar á nýjar álögur, sem næmu 300 millj. kr. miðað við eitt ár. Það, sem ríður mest á nú fyrir okkur Íslendinga, er að skapa okkur vinnufrið í landinu. Stuðningurinn, sem hér er gert ráð fyrir við sjávarútveginn, kostar innan við 4 millj. kr. á viku. Þó að því sé haldið fram af hv. stjórnarliðum, að ríkissjóður geti ekki borið allar þær 180 millj., sem þessi stuðningur kostar yfir árið allt, þá verður því ekki haldið fram með neinni sanngirni, að það setji ríkissjóð á höfuðið eða í nokkra hættu um greiðsluhalla, þó að beðið sé, meðan sú athugun, sem hér er lögð til, fer fram og gengið er úr skugga um það, hvort grundvöllur er fyrir víðtæku samkomulagi um nýjar leiðir í efnahagsmálum.

Viðreisnin er komin í þrot. Hæstv. forsrh. orðaði þetta þannig, — ég held ég fari rétt með það, að hann sagði, að þetta frv. ætti að firra vandræðum í bili. Álögur upp á 300 millj. kr. á ári eru engin lausn á þessum vanda, þær eru aðeins upphaf nýrra vandræða. Þess vegna bið ég hv. þm. stjórnarflokkanna um að hugleiða þetta mál enn einu sinni vandlega. Ég bið þá um það að fella 5. og 6. gr. burt úr frv., samþykkja þá athugun á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem við leggjum til að gerð verði. Þeir hafa það alltaf á valdi sínu að taka málið aftur og samþ. 5. og 6 gr., ef ekki fæst niðurstaða af þeirri athugun.