15.04.1964
Sameinað þing: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

206. mál, atvinnuleysistryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi spurning er í tvennu lagi. Fyrri hluti hennar hljóðar svo:

„Eru lögin um atvinnuleysistryggingar í endurskoðun, og ef svo er, er árangurs af þeirri endurskoðun að vænta á þessu þingi?“

Þessu get ég svarað þannig, að í l. nr. 29 1956, um atvinnuleysistryggingar, var svo ákveðið í 22. gr., að lögin skyldu endurskoðuð í samráði við verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda eftir 2 ár. En með l. nr. 4 20. jan. 1959 var frestur þessi til endurskoðunar á l. framlengdur um 2 ár. Í samræmi við þessi lagaákvæði skipaði félmrh. nefnd til að endurskoða gildandi lög um atvinnuleysistryggingar með bréfi, dags. 28. sept. 1960. Í nefndina voru þessir menn skipaðir: Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem skipaður var formaður n., Björgvin Sigurðsson framkvstj., Eðvarð Sigurðsson alþm., Guðmundur Vignir Jósefsson skrifstofustjóri og Óskar Hallgrímsson framkvstj. N. lauk störfum 14. marz 1964, þ.e.a.s. fyrir um það bil mánuði, og hefur nú skilað frv. til l. um atvinnuleysistryggingarnar til ríkisstj. Samkomulag varð ekki í n. um frv. og gerðu tveir nm. ágreining með sérstakri bókun og sérstaka grein fyrir afstöðu sinni.

Þetta frv. til breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar var strax þegar það barst mér sent öllum ráðh. í ríkisstj. til athugunar, og það er enn hjá þeim, en hefur ekki verið tekið til meðferðar og varla að búast við, að það verði tekið til meðferðar og afgreiðslu í ríkisstj. hað fljótt, að málið geti komið til kasta Alþingis að þessu sinni, alveg sérstaklega vegna þessa ágreinings, sem í n. varð og þarf sérstakrar athugunar við. Síðari hluti fsp. er svo hljóðandi:

„Hefur verið tekið tillit til þess við endurskoðun 1., að verzlunarmannasamtökin eiga nú aðild að A.S.Í., og þeim tryggð þátttaka í atvinnuleysistryggingasjóði á sama hátt og öðrum verkalýðsfélögum?“

Þessu get ég svarað á þann hátt, að í frv. n. er lagt til, að verzlunarfólk fái aðild að atvinnuleysistryggingunum framvegis. En einn nm. hefur þó tjáð sig andvígan þessu ákvæði frv. Ég vænti, að með þessu sé fsp. að fullu svarað.