15.04.1964
Sameinað þing: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í D-deild Alþingistíðinda. (3433)

206. mál, atvinnuleysistryggingar

Fyrirspyrjandi (Óskar Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóðar og glöggar upplýsingar um það, sem fsp. mín hljóðaði um. Fyrst það, að lögin um atvinnuleysistryggingar hafi þegar verið endurskoðuð og í frv. því, sem samið hefur verið nú og lagt fyrir ríkisstj., felist það, að verzlunarmannasamtökin verði fullgildur aðili að atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta þykir mér mjög vænt um að heyra, og ég veit, að verzlunarmannastéttin öll er mjög ánægð með það, að þetta nái fram að ganga sem fyrst. Ég get skilið það, fyrst einhver ágreiningur er enn uppi um þetta, að þá verði erfitt fyrir ríkisstj. að leggja frv. fyrir á þessu þingi, en ég vil mega vænta þess og vona það, að við sjáum fram á, þó ekki innan langs tíma, að við verzlunarmenn fáum aðild að atvinnuleysistryggingasjóði.

Atvinnuleysistryggingasjóðir eru þegar orðnir starfandi víða um hinn menntaða heim og hafa verið starfandi lengi, sérstaklega á Norðurlöndum. Þetta eru orðnar öflugar stofnanir viða. Það var sannarlega ánægjulegt, þegar atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður hér á landi. Það eru einmitt svona sjóðsstofnanir, svipaðar og þessi, sem geta verið og eru lyftistöng og bjargráð fyrir ýmiss konar framkvæmdir í landinu, hjálpað til við uppbygginguna á verulegan hátt. Og með það fyrir augum sérstaklega finnst mér ég horfa fram á það, að atvinnuleysistryggingasjóður ætti að vera mikil lyftistöng, sérstaklega undir smáíbúðabyggingar, því að óneitanlega er það víst, að þetta verður mjög öflugur sjóður innan skamms og er reyndar þegar orðinn, og því meira eflist hann, ef verzlunarmannasamtökin yrðu tekin sem aðili að sjóðnum. Ég skal aðeins nefna það sem dæmi, að það mundi þýða árlega aukningu á sjóðnum, eins og nú er, ef verzlunarmannasamtökin væru þar með, um 20 millj. kr. En þetta gæti einmitt orðið til þess að hjálpa til við hvers konar þjóðnýta uppbyggingu, sem alls staðar er fjárvana, til að geta notið sin eins og skyldi. — Svo þakka ég enn þá hæstv. ráðh, fyrir svörin.