18.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í D-deild Alþingistíðinda. (3438)

214. mál, síldarleit

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Spurt er, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til þess, að hægt verði að framkvæma síldarleit á vorvertið fyrir Suður- og Vesturlandi og á sumarvertíð fyrir Norður- og Austurlandi. Og í öðru lagi: Hafa verið gerðar ráðstafanir um öflun varanlegs skipakosts til síldarleitar?

Sem svar við þessum fsp. get ég upplýst, að Jakob Jakobsson fiskifræðingur hefur gert till. til rn. um skipaþörf og rekstur síldarleitarinnar frá 1. apríl og til ársloka 1964. í þessari áætlun er gert ráð fyrir 150—250 lesta skipi, t.d. mótorskipinu Fanney, frá 20. marz til 30. sept., einu 250—500 lesta skipi frá 1. júní og til ársloka og 500 lesta skipi, t.d. varðskipinu Ægi, frá 20. maí til 30. okt. Með hliðsjón af þessum till. gerði rn. áætlun um kostnað vegna síldar- og fiskileitarinnar. Varð niðurstaðan sú, að heildarkostnaður við síldar- og fiskileit yrði samkv. áætluninni 15.7 millj. kr. í ár, en þar af yrði kostnaður við fiskileit vegna togaranna 5.7 millj. kr.

Kostnaður við síldarleit og veiðitilraunir hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Árið 1962 voru veittar í þessu skyni 7 millj, og 50 þús. kr. til fiskileitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna. En útgjöldin urðu raunverulega 7.2 millj. rúmar. Árið 1963 voru veittar 9 millj. 50 þús. kr. í þessu skyni, en kostnaðurinn varð 9.6 millj. rúmar á árinu 1963.

Í þessa árs fjárlögum eru veittar 9 millj. og 50 þús. kr. til síldar- og fiskileitar, og í 3. mgr. 2. gr. l. nr. 11 1964, um aðstoð við sjávarútveginn, er gert ráð fyrir 4 millj. kr. framlagi til viðbótar til fiskileitar á þessu ári. Samtals eru því veittar 13 millj. kr. til síldar- og fiskileitar í ár, um 4 millj. meira en undanfarin ár, en eins og áður segir, var reiknað með, að kostnaður þyrfti að vera meiri ef till. fiskideildarinnar og rn. yrðu framkvæmdar að fullu. Þrátt fyrir þennan mismun hefur rn. ákveðið að freista að halda uppi þeirri leit, sem gert er ráð fyrir hér að framan, og í samræmi við þá ákvörðun hefur mótorskipið Fanney verið leigt til síldarleitar, og hefur hún þegar hafið leit við Suðuvesturlandið. M/s Ægir mun hefja síldarleit 20. maí, eins og áætlunin kveður á um, og gerðir hafa verið samningar um leigu á mótorskipinu Pétri Thorsteinsson, en fiskifræðingarnir telja það skip hentugast til síldarleitar af þeim skipum, sem til greina koma. Verður mótorskipið Pétur Thorsteinsson leigt frá 1. júní og til ársloka.

Þá er rétt að skýra frá því um leið, að ríkisstj. hefur ákveðið í samræmi við lög nr. 1 1964, að b/v Þorsteinn þorskabítur verði notaður til fiskileitar fyrir togarana. B/v Þorsteinn þorskabítur hefur verið í síldarleit að mestu leyti síðan í septemberbyrjun s.1., en þessi nýja fiskileit, sem honum er nú ætluð, það sem eftir er af árinu, er að því leyti til nýmæli, að það er stöðug fiskileit þennan síðari hluta ársins eða það sem eftir er af árinu.

Hvað því viðvíkur að fá endanlega lausn og sérstök skip í þessu skyni, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, vildi ég segja það, að ríkissjóður hefur í sinni umsjá nú ágætisskip til þessara starfa, sem er Þorsteinn þorskabítur, og enn fremur hefur Fanney, sem að mestu leyti er í opinberri eigu eða að öllu leyti í opinberri eigu raunar, verið mjög við þessar rannsóknir riðin. Það hefur þess vegna verið talið rétt að halda þessum rannsóknum og fiski- og síldarleit uppi með svipuðum hætti og gert hefur verið á undanförnum árum, þó með mikilli aukningu, allt að því 50% aukningu, a.m.k. frá því, sem verið hefur undanfarin ár, þó að hitt sé sjálfsagt rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að framtíðarfyrirkomulagið verði það, að föst skip verði höfð til þessarar þjónustu allt árið. En sem sagt, þessi 4 skip, sem ég nefndi, verða við síldar- og fiskileit mikið til, það sem eftir er af árinu.