30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mjög með því að fara að ræða hér mikið um stefnu hæstv. ríkisstj. almennt, eins og frv. það, sem hér liggur fyrir, gefur þó óneitanlega töluvert tilefni til. Því hefur áður verið lýst rækilega af ræðumönnum úr röðum stjórnarandstöðunnar, hversu ljós vottur þetta frv. er um þá staðreynd, að viðrefsnarstefnan svokallaða hefur mistekizt. Þær varanlegu lagfæringar á efnahagskerfinu, sem hæstv. núv. ríkisstj. boðaði og boðaði með miklu brauki og bramli í árdögum valdaferils síns, hafa látið á sér standa og eru nú fjær því að verða að veruleika en nokkru sinni. Hin nýja samræmda efnahagsmálastefna, viðreisnarpólitíkin í heild sinni, sem átti að verða framleiðslunni hin styrkasta stoð og bera því meiri ávöxt sem lengri tímar liðu, er nú að sliga aðalútflutningsatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, eftir að hafa valdið landbúnaðinum þungum búsifjum. Og nú er gripið til þess ráðs að koma á nýju umfangsmiklu styrkjakerfi sjávarútveginum til handa, einmitt því kerfi, sem viðreisninni var talið sérstaklega til gildis að hafa afnumið að mestu leyti. Nú er líka minni völlurinn á hv. stjórnarherrum en var fyrir 4 árum, þegar þeir börðu bumbur og blésu í lúðra til að vekja sem allra mesta athygli á viðreisnarpólitíkinni sinni, þessari varanlegu lausn efnahagsmálavandans. Nú játa hæstv. ráðh, og aðrir talsmenn stjórnarflokkanna hreinskilnislega, að þær ráðstafanir, sem ætlunin er að gera til að forða sjávarútveginum frá algeru strandi, séu bráðabirgðaráðstafanir hins vegar og hinar minnstu, sem komizt verði af með, eigi að verða hægt að bægja voðanum frá á líðandi stund.

Þetta er virðingarverð hreinskilni og ólíkt geðfelldari en hinn gamli falski söngur um ágæti viðreisnarinnar og frambúðarlausnina, sem hún átti að færa þjóðinni á vanda efnahagslífsins. Hitt hefði að vísu verið karlmannlegra, að játa nú af fyllstu hreinskilni, að viðreisnarpólitíkin hefði verið villuljós, ljósið sem hvarf, og taka síðan afleiðingum þeirrar játningar, breyta gagngert um stefnu. En það er nú einu sinni mannlegur veikleiki að tregðast við að játa skyssur sínar, svo að hæstv. núv. ríkisstj. er í þessu efni nokkur vorkunn. Hitt má þó ekki gleymast, að óvíða getur verið afdrifaríkara að elta mýrarljós en á vettvangi mikils háttar þjóðmála, þegar um er að ræða sjálfa meginstefnuna í efnahagspólitík heils ríkis. Og fyrr eða síðar munu staðreyndirnar knýja fram þá játningu af allra vörum, að viðreisnardraumurinn hafi endað í martröð. Því fyrr sem menn vakna upp af martröð, því betra.

Ég get ekki látið hjá líða að víkja lítils háttar að tveim eða þrem atriðum, sem hæstv. forsrh, gerði að umræðuefni við 1. umr. málsins í þessari hv. d. í gær. Það var hógvær ræða hjá hæstv. ráðh. og málefnaleg, þótt út af brygði einu sinni eða svo. Ég á þar sérstaklega við þau ummæli hans, að aðstoðin við sjávarútveginn nú, sú sem felst í þessu frv., væri að langmestu leyti bein afleiðing þeirra kauphækkana, sem hér urðu í desembermánuði s.l. Með þessari staðhæfingu, sem fram er sett án alls samhengis við það, sem á undan var gengið í verðlags- og kaupgjaldsmálum, getur tilgangurinn ekki verið annar en sá að reyna að skella skuldinni fyrst og fremst á verkalýðshreyfinguna. Þetta eru í hæsta máta ómakleg ummæli, og ég er satt að segja steinhissa á hæstv. forsrh., ef það hefur verið og er meining hans að kenna verkalýðsstéttunum um það sérstaklega og fyrst og fremst, að nú er talið óhjákvæmilegt að taka upp bótakerfi í allstórum stíl sjávarútveginum til handa. Það er sannarlega mál til komið, að ábyrgir og vel viti bornir stjórnmálamenn, þaulkunnugir sögu verðlagsþróunar síðustu ára, leggi niður þann óvanda að fara með svo staðlausa stafi.

Það er raunar ekki hæstv. forsrh. einn, sem gerir sig sekan um þetta, heldur flestir málsvarar ríkisstj. og þó alveg sérstaklega blöð hennar, sem reyna að læða að þeirri skoðun, að kauphækkanirnar séu jafnan orsök og undirrót verðhækkana, en sjaldan eða aldrei afleiðingar þeirra. Þegar dýrtíðarskrúfa er í fullum gangi, má vitanlega þjarka um það nokkurn veginn endalaust, hvað sé orsök og hvað afleiðing, og oftast verður uppskeran næsta lítil af slíkum og þvílíkum þrætumálum. En þegar sýna má fram á það með ljósum tölum, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði hér við umr. í gær, að kaupmáttur verkamannakaups hefur verulega rýrnað síðustu árin þrátt fyrir aukið vinnuálag, er erfitt að halda fram sem rökum, að vöxtur verðbólgunnar sé afleiðing þess, að verkamenn hafi fengið of mikið í sinn hlut. Séu þessi mál því skoðuð í samhengi við þróun efnahagslífsins í heild og metin af sanngirni, verður niðurstaðan sú, að hækkun tímakaups í krónutölu hefur verið knúin fram af illri nauðsyn og þó ekki af meira offorsi en svo, að einungis hefur nægt hverju sinni til að vega upp hluta þeirrar kjaraskerðingar, sem áður var fram komin. Hin raunverulega sök liggur því ekki hjá þeim, sem stjórnarsinnarnir vilja hér vera láta. Við skulum játa það hreinskilnislega, að aðstoðin við sjávarútveginn nú stafar ósköp einfaldlega af því, að ekki hefur tekizt að halda dýrtíðinni í skefjum. Svo getum við haldið áfram að deila um það endalaust, hvort stöðvun verðbólgunnar hafi mistekizt þrátt fyrir ágæti viðreisnarstefnunnar á ýmsum sviðum, eins og stjórnarsinnar vilja vera láta, eða vegna ágalla hennar og agnúa, eins og stjórnarandstæðingar telja. Hæstv. forsrh. væri það vissulega til sæmdar, en ekki vansa, ef hann við nánari athugun teldi ástæðu til að leiðrétta eða skýra þau ummæli sín frá í gær, sem naumast urðu skilin á annan veg en þann, að kauphækkanirnar í des. einar og út af fyrir sig væru orsök þess, að sjávarútvegurinn þarf nú aðstoðar við.

Eitt af ákvæðum þessa frv., eins og það liggur nú fyrir, er það, að ríkisstj. skuli heimilað að greiða 6% viðbót við það ferskfiskverð, sem ákveðið var með úrskurði 20. jan. s.l. Þetta ákvæði var ekki í upphaflega frv., en var fellt inn í það við meðferð málsins í hv. Nd. Hér er ætlunin að bæta sjómönnum og útvegsmönnum það dálítið upp, að fiskverð til þeirra var ákveðið nákvæmlega hið sama og gilti hið fyrra ár. Um þessa ráðstöfun, þótt væntanlega verði hún til einhverra bóta, gilda því miður að verulegu leyti orðin: of lítið og of seint. Það hefði strax orðið hálfu meira gagn, jafnvel að þessari fremur litlu hækkun fiskverðs, hefði hæstv. ríkisstj. tilkynnt þá fyrirætlun sína þegar í kjölfar eða jafnhliða því, sem úrskurðurinn um fiskverðið var birtur opinberlega. Slík tilkynning hefði dregið eitthvað úr þeim mikla óhug, sem setti að fiskimönnum, þegar þeim var frá því skýrt, að þeir svo að segja einir allra stétta ættu að fá holskeflu dýrtíðarinnar yfir sig af fullum þunga. Og hefði hæstv. ríkisstjórn tekið það ráð að beita sér strax fyrir 12–15% hækkun á fiskverði, tel ég vafalaust, að hægt hefði verið að firra vandræðum, sem nú blasa því miður við á næsta leiti. En eins og málum er komið í dag, eru allar horfur á, að verulegur hluti vertíðarbáta fari ekki á vetrarvertíð, annaðhvort alls ekki eða þá ekki fyrr en seint og síðar meir, ýmist vegna þess að útvegsmenn treysta sér ekki til að gera bátana út eða fá ekki á þá skipshafnir. Ég er hræddur um, að 6% uppbót þyki of lítil til að breyta viðhorfunum nægilega mikið, sérstaklega þar eð ekki kemur fram till. um þessa uppbót, fyrr en hálfgert upplausnarástand hefur skapazt á flotanum. Og hvort sem það er nú rétt eða ekki, þá býst ég við, að margir trúi því, að ríkisstj. hafi enga fiskverðshækkun ætlað að bjóða, einungis látið undan, þegar hún sá, að allt var að komast í óefni.

Ekki þarf að fara um það mörgum orðum, að miklu máli skiptir fyrir þjóðarbúskapinn, hvort út er gerður á vertíð hverri þorri bátaflotans eða einungis hluti hans. Það mun láta nærri, að 600 tonn af fiski megi teljast meðalafli á vetrarvertíð. Útflutningsverðmæti þess afla eru röskar 2 millj. kr. Afli 50 báta gerir sem sagt yfir 100 millj. kr. Nú mundi hið þjóðfélagslega tap ekki vera jafnmikið á bát, eins og þessar tölur benda til, en það yrði mikið samt, allt of mikið. Það gefur því auga leið, að hér er verulegt vandamál á ferðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur engan veginn snúizt við á nógu skjótan og nógu raunhæfan hátt.

Um það hefur verið mikið deilt, sérstaklega í blöðum nú að undanförnu, hvort úrskurður formanns verðlagsráðs sjávarútvegsins, þar sem hann einn kvað á um óbreytt fiskverð, sé lögmætur eða ekki. Ég mun ekki blanda mér í þær deilur. Hæstv. forsrh. og fleiri lögfróðir menn telja þennan úrskurð fyllilega lögmætan. Aðrir, þ. á m. lögfræðingar, draga það í efa. E.t.v. verða dómstólar látnir skera úr um þetta. En þó að það verði gert og hvernig sem sá dómur kynni að falla á sínum tíma, breytir það ekki þeirri staðreynd, að örlög vetrarvertíðar þessu sinni ráðast í mikilvægum efnum næstu daga eða allra næstu vikur. Viðfangsefnið er því að koma flotanum af stað nú, ekki aðeins hluta hans, heldur sem allra flestum vertíðarskipum.

Þess hefur orðið nokkuð vart, að margir eru þungorðir og jafnvel stórorðir í garð þess manns, sem tók að sér það örðuga hlutverk að gegna formannsstörfum í verðlagsráði sjávarútvegsins, þess manns, sem kvað upp úrskurðinn um hið óbreytta fiskverð. Slíkt hnútukast í hita dagsins kann að vera skiljanlegt, en ekki held ég, að það sé maklegt. Svipuð hríð var ekki alls fyrir löngu gerð að oddamanni í verðlagsráði landbúnaðarins, manni, sem allir, er til þekkja, vita, að er gæddur fágætri samvizkusemi, réttsýni og drenglund. Ég þori að fullyrða, að hvorki þá né nú sé um það að ræða, að viðkomandi embættismenn hafi ekki reynt af fremsta megni að taka tillit til mismunandi sjónarmiða og ástunda réttdæmi. Hitt er svo annað mál, hvort menn telja í hverju slíku tilfelli, að af hálfu löggjafans hafi verið tekið nægilegt tillit til allra atriða, þegar upp var talið það, sem við skyldi miða og byggja forsendur og dóma á. Það ætla ég, að í sambandi við verðlagsráð sjávarútvegsins þurfi sum atriði endurskoðunar við.

Í upphafi 1. gr. þessa frv. segir, að ríkissjóður leggi fram á árinu 1964 43 millj. kr., er verja skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks. Því var varpað fram hér í þessum umr., m.a. í gær, að ákvæðið um framleiðniaukningu og endurbætur á fiskframleiðslu muni vera orðagjálfur eitt í þessu frv., eins konar slaufa, eins og Laxness mundi líklega orða það. Þetta standi einungis þarna af því, að hæstv. ríkisstj. þætti í því dálítið punt, þegar hún væri að fara inn á uppbótaleiðina, sem hún hefði áður fordæmt og viðreisnin átti að afnema í eitt skipti fyrir öll. Ég vil ekki alveg að óreyndu væna hæstv. ríkisstj. um þetta. Ég vil mega treysta því, að full alvara sé að baki þessa ákvæðis, sem ég tel vera mjög athyglisvert. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. sé þarna að benda á og undirstrika það, sem allir eru sammála um, að varanlegasta leiðin til aukinnar hagsældar sé meiri framleiðni, þ.e. hagkvæmari vinnubrögð, bætt framleiðsla með minnkandi tilkostnaði á verðmætiseiningu. Hitt er svo rétt, að í frv. sjálfu eru ekki frekari ákvæði um það, á hvern hátt fénu skuli úthlutað til þess að ná þessu sérstaka, yfirlýsta markmiði. En þar sem það samkv. skýrum ákvæðum frv. er eina, aleina forsendan fyrir því, að þessi 43 millj, kr. styrkur skuli veittur hraðfrystihúsunum, hlýtur maður að ætla, að tilgangurinn sé sá að setja um þetta eins glögg og ótvíræð ákvæði og við verður komið í þeim úthlutunarreglum, sem sjútvmrn. er ætlað að setja. Ég vil leggja mjög ríka áherzlu á þetta, því að ég tel, að ákvæðið um, að styrkurinn skuli renna til framleiðniaukningar, sé eitt hið allra jákvæðasta í þessu frv. Það fer því vissulega vel á því og væri enda mikils vert, ef hæstv. forsrh. vildi að gefnu tilefni frá í gær lýsa því yfir ótvírætt, að ætlunin sé að framkvæma þetta ákvæði frv. nákvæmlega eftir orðanna hljóðan og það sé algerlega úr lausu lofti gripið, að hér sé aðeins um að ræða fallegt orðalag, sem ekkert sé meint með.

En í sambandi við þetta vil ég vekja á því athygli, að í 2. gr. frv., sem fjallar að mestu um stuðning við togaraútgerðina, er ekkert ákvæði um framleiðniaukningu. Þetta stafar e.t.v. fyrst og fremst af því, að hér er aðallega um að ræða 51 millj. kr. styrk, sem greiða skal vegna mikils hallarekstrar togara á liðnu ári, árinu 1963. Skal við úthlutunina fyrst og fremst miðað við úthaldstíma hvers skips þetta umrædda ár. En það held ég að sé óhætt að fullyrða, að svo mikil þörf sem er á bættri rekstraraðstöðu hraðfrystihúsa og svo miklir möguleikar sem þar eru í sambandi við aukna framleiðni, er þörfin ekki síður brýn að því er varðar togaraútgerð landsmanna. Það vita allir, að nú í seinni tíð hefur togaraútgerð á Íslandi átt í miklum og vaxandi erfiðleikum. Mikill hluti togaraflotans er að verða gamall. Skipin eru mjög mannfrek. Þau eru dýr í rekstri og viðhaldskostnaður eykst eðlilega, eftir því sem flotinn eldist. Þessi skip, sem þóttu og voru ágæt á sínum tíma að mörgu leyti a.m.k., eru algerlega við það miðuð, að hægt sé, ef svo mætti segja, að róta upp miklum afla á ekki mjög fjarlægum miðum, aðallega við Ísland og Grænland að einhverju leyti.

Það er orðið ákaflega brýnt og hefur raunar dregizt miklu lengur en skyldi, að fram fari gagnger og margþætt könnun á togaraútgerð hér á Íslandi, á gildi hennar fyrir þjóðarbúskapinn og framtíðarmöguleikum þeirrar útgerðar. Ég vil nefna hér aðeins lauslega nokkur atriði, sem þyrfti að gefa sem fyllstan gaum í sambandi við slíka könnun eða athugun, þegar hún færi fram.

Það er þá í fyrsta lagi: Er þjóðhagslega hagkvæmt að stefna að því að endurnýja íslenzka togaraflotann og þá í hve stórum stíl? Eru fiskiskip af öðrum gerðum og stærðum hagkvæmari, miðað við þær aðstæður, sem skapazt hafa hér eftir útfærslu landhelginnar? Sé talið þjóðhagslega hagkvæmt að endurnýja togaraflotann eða verði það talið að lokinni slíkri könnun þjóðhagslega hagkvæmt að gera ráð fyrir útgerð þeirrar tegundar fiskiskipa um langa framtíð hér við land, vakna spurningarnar: Hvaða stærðir, hvaða gerðir og hvaða fyrirkomulag hentar bezt nútímaaðstæðum? Hverjar sem verða kunna niðurstöður slíkrar rannsóknar, þá er það staðreynd, að við eigum nú eitthvað um 40 togara. Þeir bera sig ekki, og miðað við svipuð aflabrögð og verið hafa undanfarin ár má gera ráð fyrir áframhaldandi taprekstri þeirra, nema því aðeins að hægt sé að koma við aukinni hagkvæmni í rekstri. Og þá vaknar enn ein spurning: Er tæknilega mögulegt og líklegt til aukinnar hagkvæmni í rekstri að breyta íslenzkum togurum þannig, að komizt verði af með færri menn á þeim en nú er, og er hægt að lækka rekstrarkostnaðinn að öðru leyti, t.a.m. í sambandi við sparneytnari vélar? Er sem sagt hægt að láta útgerð þessara skipa eftir breytingarnar bera sig með minna aflamagni en nú þarf til þess, að þau geti borið sig, þ.e.a.s. með því aflamagni, sem líkur benda til, að verði að reikna með í nánustu framtíð a.m.k.? Og í síðasta lagi: Eru einhver tiltök að auka verðmæti hins takmarkaða aflamagns togaranna, og ef svo væri, mundi það borga tilkostnað? Þetta eru aðeins fáein þeirra atriða, sem rannsaka þarf, bæði að því er varðar togaraútgerð hér í framtíðinni og hinn mikla vanda, sem nú er á höndum um rekstur þeirra togara, sem við Íslendingar eigum í dag.

Væntanlega má gera ráð fyrir nokkrum árangri af aukinni fiskileit, en eitt af ákvæðum frv. felur það í sér, að veita skal nokkra aukafjárveitingu til fiskileitar. En möguleikarnir á því sviði eru þó takmarkaðir.

Með allt þetta í huga hefur mér þótt rétt að leggja áherzlu á nauðsyn þess, að hafizt verði þegar á þessu ári handa um alhliða rannsókn á gildi og möguleikum togaraútgerðar við Ísland. Ég geri mér ljóst, að sumir þættir slíkrar rannsóknar hljóta að taka alllangan tíma, e.t.v. nokkur ár, og kosta sennilega verulegt fé. En þessi rannsókn er óhjákvæmileg, og því fyrr sem byrjað er á verkefninu, því betra, og sumu kynni að vera hægt að kippa í lag á skömmum tíma.

Með hliðsjón af því, sem ég nú hef sagt, hef ég ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. leyft mér að leggja fram brtt. við 2. gr. frv., sem felur það í sér, að ríkisstj. skal heimilað að verja á þessu ári úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. til þess að láta framkvæma tilraunir um framleiðniaukningu og hagkvæmari rekstur togara, svo og til rannsókna á framtíðarmöguleikum togaraútgerðarinnar hér við land.

Nokkrar fleiri brtt., þær eru allar skriflegar, flytjum við hv. 4. þm. Norðurl. e. við frv. Ég skal nú víkja að þessum till, fáeinum orðum.

Það er í fyrsta lagi, að við 1. gr. bætist ákvæði, að í reglunum, sem setja skuli, verði ákveðið, að þær fiskframleiðslustöðvar, sem hafa erfiðasta aðstöðu, njóti hlutfallslega hærri styrkja en hinar, sem betri aðstöðuna hafa. Það má kannske segja í fljótu bragði, að þetta stangist nokkuð á við hitt, sem ég hef reynt að leggja sem ríkasta áherzlu á, að styrkurinn til hraðfrystihúsanna verði fyrst og fremst veittur til aukinnar framleiðni. En hér er um að ræða undantekningartilfelli, sem eru þess eðlis, að það er mikil ástæða til að taka þau til greina. Hér mundi sérstaklega vera um að ræða tiltölulega lítil frystihús úti á landsbyggðinni, sem í mörgum tilfellum fá ekki nægilegt fiskmagn til þess að vinna með fullum afköstum nema þá lítinn hluta ársins, fá mikið af smáum fiski o.s.frv., þ.e.a.s. aðstaðan er ekki góð og það er vissum erfiðleikum bundið e.t.v. að bæta hana, a.m.k. í skjótri svipan. En þó má segja um slík frystihús víða úti á landsbyggðinni, að þau séu lífakkeri þeirra þorpa eða byggðarlaga, sem þar eiga hlut að máli. Það virðist því vera sanngjarnt og eðlilegt, að tekið sé tillit til slíkrar sérstöðu.

Í öðru lagi flytjum við brtt. við 2. gr. frv. Leggjum við til í þeirri till., að hærri styrkur sé greiddur fyrir úthaldstíma þeirra togara, sem á árinu 1963 höfðu veitt fyrir innlendan markað, heldur en hinna, sem veiddu fyrir erlendan. Það er enginn efi á því, að að því er verulegur ávinningur, í fyrsta lagi atvinnulega séð, að togararnir leggi sem mest upp af afla sínum til vinnslu hér innanlands. Þetta er líka alveg vafalaust í flestum tilfellum þjóðhagslega hagkvæmt, og þess vegna hefur það mikið til síns máls að gera þarna mun á, auðvelda sem sagt togurunum að veiða fyrir innlendan markað.

Við 2. gr. flytjum við einnig till. um ákvæði þess efnis, að heimilt skuli ráðh. að setja það að skilyrði fyrir greiðslu styrks til togaranna, að samningar hafi áður tekizt um sanngjarna hækkun á kaupi togarasjómanna. Þá leggjum við til, að fiskverð til sjómanna og útgerðarmanna verði hækkað um 15% í stað 6%, eins og lagt er til í frv. Ég hef áður rökstutt nauðsyn þess, og sannleikurinn er sá, að ef réttlæti á að sýna hlutarsjómönnum, þá er varla um það að ræða, að kaup þeirra geti hækkað öllu minna en þetta, og í öðru lagi, að ef tryggja á eftir föngum nokkurn veginn snurðulausan rekstur bátaflotans á yfirstandandi vetrarvertíð, mun varla af því veita, að fiskverðið hækki sem þessu svarar.

Við 5. gr. frv. flytjum við brtt. um lækkun vaxta á afurðalánum og hækkun afurðalána í prósenttölum, svo og till. um almenna lækkun vaxta, bæði innláns- og útlánsvaxta, niður í það, sem var fyrir viðreisnarlöggjöfina 1960. Hér er um svo margþætt stórmál að ræða, eitt stærsta deilumál í sambandi við viðreisnarstefnuna, að það er nú e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að ræða það í löngu máli hér, enda mun ég ekki fara nánar út í þá sálma við þetta tækifæri.

Loks leggjum við til, að 6. gr. frv. falli niður. Við teljum ekki koma til mála, að Alþ. afhendi hæstv. ríkisstj. ótakmarkaða heimild til að fresta verklegum framkvæmdum ríkisins, á sama tíma sem ekki virðist við það komandi, að taka megi upp neitt skipulag á fjárfestingu eða neina skipulagða fjárfestingarstefnu yfirleitt. Meðan einkaaðilar geta eftir sem áður ráðizt í hvers konar fjárfestingu hömlu- og eftirlitslaust, kemur ekki til greina að okkar dómi, að Alþ. geti samþ. slíka ráðstöfun sem þessi er.

Till. okkar eru, eins og ég áðan sagði, skriflegar, og æski ég þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þeim.