29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

911. mál, lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 486 hef ég borið fram fsp. til hæstv. félmrh. um lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins. Fsp. eru í tveim liðum, svo hljóðandi:

„1) Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að afla byggingarsjóði ríkisins fjár til íbúðarlána á þessu árl?

2) Hve hárri upphæð má búast við, að sjóðurinn geti úthlutað í ár, og hvenær á árinu?“

Um s.l. mánaðamót munu um 2200 umsóknir hafa legið fyrir hjá húsnæðismálastjórn um lán úr byggingarsjóði ríkisins, og er það meiri fjöldi óafgreiddra umsókna en nokkru sinni hefur áður verið um að ræða. Þessar umsóknir eru bæði um byrjunarlán og viðbótarlán, þannig að sumir umsækjendur hafa enn alls ekkert fengið úr byggingarsjóði, en aðrir einhver byrjunarlán. Húsbyggingum sumra umsækjenda er ekki svo langt komið, að þær séu lánshæfar, og kæmi því ekki til úthlutunar á lánum vegna þeirra, þótt fé væri fyrir hendi. Þegar tekið er tillit til alls þessa, mun ekki fjarri lagi að áætla, að byggingarsjóðúr ríkisins þyrfti um 200—230 millj. kr. til þess að geta fullnægt öllum lánshæfum umsóknum, sem nú liggja fyrir, og er sjóðurinn því fjær því en áður að geta sinnt því hlutverki, sem honum er ætlað.

Fjölmargir húsbyggjendur standa uppi með hús sín hálfgerð, leigja sér á sama tíma húsnæði dýru verði, greiða vexti af því fjármagni, sem í húsbyggingu þeirra er komið, og verða jafnvel að greiða kyndingarkostnað á báðum stöðum. Þessum og öllum þeim öðrum mönnum, sem biða nú eftir lánsfé, ríður því á miklu að fá að vita sem allra fyrst um þá fyrirgreiðslu, sem þeir geta átt von á frá byggingarsjóði ríkisins, þó að sú upphæð geti aldrei orðið há, sem þeir gætu hæst fengið. Einkum kemur það húsbyggjendum illa, að þriðjungur ársins skuli vera liðinn, án þess að þeir fái nokkra vitneskju um, hvers þeir mega vænta á þessu ári, og er því ókleift að gera þær bindandi skuldbindingar, sem óhjákvæmilegar eru til þess að tryggja sér efni og vinnuafl í tæka tíð fyrir sumarið. Allt frá því í des. s.l. hefur fjöldi þessara húsbyggjenda átt stöðug viðtöl við stjórnarmenn í húsnæðismálastjórn án þess að verða nokkru nær um það, hve hárri upphæð má búast við að byggingarsjóður geti úthlutað á þessu ári og hvenær á árinu. Því hef ég talið rétt, að þessum spurningum, sem húsbyggjendum er nauðsyn að fá svar við, verði svarað hér á hv. Alþingi, fyrst þau svör hafa ekki fengizt annars staðar.