06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

218. mál, stóreignaskattur

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið við þessum spurningum, sem mér finnst að leiði í ljós býsna einkennilega framkvæmd á þessum lögum. Mér skilst á orðum hæstv. ráðh., að augljóst sé, að hæstiréttur hefur ekki viljað fallast á það, að þessi skattur brjóti í öllum meginatriðum í bága við stjórnarskrá landsins, svo að dómur hæstaréttar í þeim efnum hefur þegar fallið. Hins vegar hafði hæstiréttur gert aths. við tvö atriði, að mér skildist varðandi mat á hlutabréfum og fyrirframgreiddan arf, en slíkt voru vitanlega engin meginatriði í þessari löggjöf. En hins vegar er alveg greinilegt, að það hefur verið haldið á innheimtu á þessum skatti á allt annan hátt en gert hefur verið í öðrum tilfellum, þegar skattar hafa verið á lagðir í þessu landi, og sýnilega ekki einu sinni farið eftir því að innheimta þann skatt, sem óumdeilanlega stendur þó á lagður og enginn dómstóli út af fyrir sig hefur reynt að hnekkja. Verulegur hluti skattsins er enn þannig óinnheimtur. En horfið hefur verið að því ráði, sagði hæstv. ráðh., að láta þá sem áttu að vera búnir að greiða skattinn, setja greiðslutryggingu fyrir skattinum. Það er vitanlega allt annað en l. mæla fyrir um og allt annað en gert er í öðrum tilfellum.

Það er svo auðvitað mál út af fyrir sig, vangaveltur hæstaréttardómara í dómi sínum um það, hvað megi teljast sanngjarnt og hvað ekki sanngjarnt, þó að það raski ekki stjórnarskrárákvæðum, eins og t.d. það, að verið sé að mismuna vissum rekstrarformum, það sé verið að gera einu rekstrarforminu hærra undir höfði en öðru. Skyldum við hér á Alþingi vera óvanir því, að það séu ákveðnir mismunandi skattstigar á hina ýmsu aðila í landinu? Ég veit ekki betur en það liggi nú frv. fyrir þinginu, þar sem gert er ráð fyrir mismunandi skattstigum á hin ýmsu rekstrarform í landinu eftir því, hvort rekstrarformið er viðvíkjandi sjávarútvegi, iðnaði eða öðru. Það er vitanlega ekkert nýtt atriði. Og hvað sem hæstaréttardómarar segja um það, hvað þeim þykir sanngjarnt eða ekki sanngjarnt í þeim efnum, þá skiptir það ekki máli.

Nei, hér hefur sýnilega verið hafður sá háttur á, að sérstaklega nú síðustu árin, 1961, 1962 og 1963, hefur svo að segja verið horfið frá því að framfylgja l. Af þeim rúmlega 39 millj. kr. af skattinum, sem hafa verið innheimtar, hefur innheimtan 1961 verið 2.9 millj. og 1962 542 þús. og 1963 mínus 386 þús. kr. Það er alveg augljóst af þessu, að það hefur beinlínis verið horfið frá því að framfylgja 1., horfið frá því að innheimta skattinn. Þetta tel ég vítavert og það eigi ekki að skipta máli, eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, hvort viðkomandi ráðh. eða viðkomandi ríkisstj. er óánægð með lagasetninguna eða ekki. Það á ekki að ráða úrslitum um það, hvernig á að halda á meðferð þeirra laga, sem sett hafa verið á Alþingi. Það er svo hins vegar ljóst, að hæstv. fjmrh. er að hugleiða það að láta breyta þessum lögum, m.a. að gefa þeim, sem áttu að greiða skattinn, enn þá lengri greiðslufrest, ef það mætti þá kannske halda áfram þessum leik að efna til málaferla, eins og gert hefur verið, og tefja framkvæmdina á þann hátt. En sé það meining ríkisstj. að breyta 1., þá á vitanlega að fara lagalega leið að því, leggja hér fram frv. um það á Alþingi og breyta þannig lögunum.

Mér sýnist sem sagt, að það sé alveg augljóst mál, að hér hafi verið farið í bága við gildandi lagaákvæði.

Það er svo ekki tími til þess hér í þessum fyrirspurnatíma að ræða um þau rök, sem lágu að álagningu skattsins og réttmæti skattsins, borið saman við aðra skattstofna ýmsa. Til þess er ekki tími. En ég hlýt að finna að því, að það skuli ekki hafa verið farið eftir gildandi l. um innheimtu á þessum skatti og þeir fengið að njóta skattsins, sem áttu samkv. l. að njóta hans.