30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég lít á þetta frv. um aukningu söluskatts og aðstoð við sjávarútveginn einungis sem skyndiráðstafanir til bráðabirgða. Með frv. er horfið frá viðreisnarstefnunni og hið fordæmda uppbótakerfi tekið upp á ný, að því er frystihús og bátaútvegsmenn varðar. Þessa lausn get ég því ekki aðhyllzt til frambúðar. Auk þess er fyrirkomulagið á framlaginu til frystihúsanna umdeilanlegt. Mörg þeirra eru að vísu illa stæð og þó einkum frystihúsin úti á landsbyggðinni, en bezta aðstoðin við þau væri að tryggja þeim fjárframlág til meiri hráefnisöflunar.

Mesta vandamálið í dag er dýrtíðin, og það vandamál verður að leysa af festu og réttsýni, án allrar hálfvelgju og undanlátssemi. Ég treysti hæstv. ríkisstj. til að einbeita kröftum sínum að þessu alvarlega verkefni næstu vikur og næstu mánuði, því að með bráðabirgðaúrræðum verður ekki stjórnað til lengdar.

Undanfarna mánuði hefur dýrtíðin vaxið með miklum hraða, og fram undan eru ýmsar blikur á lofti í þeim efnum. Söluskattshækkunin leiðir af sér aukna dýrtíð. Opinberir starfsmenn eru að leggja fyrir kjaradóm kröfu sína um 15% kauphækkun. Ef hún nær fram að ganga, kostar það ríkissjóð 100 millj. kr. yfir árið, en ekki er gert ráð fyrir neinni tekjuöflun í þessu frv. til að mæta auknum útgjöldum á þessu sviði. Uppmælingamenn eru að fara af stað með sínar kjarakröfur. Dómur um kjör verzlunarmanna fellur eftir nokkra daga, og í kjölfar hans koma áreiðanlega miklar kröfur um hækkun álagningar frá kaupmönnum og kaupfélögum. Hinn 1. marz n. k. hækkar búvöruverðið um 8–9% í kjölfar kauphækkananna í desember. Þannig heldur dýrtíðin áfram að magnast, og með sama áframhaldi þarf enginn að búast við því, að það verði vinnufriður í vor.

Á undanförnum árum og áratugum hefur þróazt hér svikamyllukerfi, sem færir allt heilbrigt efnahagslíf úr skorðum og er nú að komast í algleyming. Hækki verðlagið, hækkar kaupið, þá hækkar búvöruverðið, þá hækkar kaupið aftur, framleiðendur innlendrar vöru fá sína hækkun á vörum og þjónustu eftir formúlum frá verðlagsskrifstofunni. Í bili verða útflytjendur út undan, en þegar þeir standa ekki lengur undir auknum framleiðslukostnaði, þá er gengið lækkað eða útflutningsuppbætur greiddar. Allt þetta kallar svo á aukin útgjöld ríkissjóðs og nýjar skattaálögur.

Árangursríkustu leiðina út úr þessum ógöngum tel ég vera að færa niður kaupgjald og verðlag, á svipaðan hátt og gert var árið 1959 af stjórn Emils Jónssonar. Um leið þarf að binda kaupgjald, verðlag, búvöruverð og fiskverð til a.m.k. eins árs og taka svikamyllukerfið úr sambandi. Með þessu er ekki verið að vega að neinni stétt, heldur stöðva dýrtíðina og bjarga þjóðinni. Ekki hafa bændur og verkamenn grætt á verðbólgunni, svo að þeim er það mikið hagsmunamál, að hún sé stöðvuð, en verðbólgugróði atvinnurekenda er óheilbrigður, og hann má gjarnan taka af. Verðbólguþróunin hefur einmitt valdið óhagrænni fjárfestingu, sem ekki hefur getað skilað launastéttunum þeim arði, sem eðlilegur yrði talinn. Á þessu eina ári, sem allt yrði bundið, ætti síðan að kalla saman ráðstefnu launþega, bænda og atvinnurekenda, þar sem reynt væri að finna nýtt form fyrir skiptingu arðsins af þjóðarframleiðslunni, form, sem væri laust við víxláhrif svikamyllukerfsins.

Sumir vilja halda því fram, að ekki sé gerlegt að lögbinda kaupgjald og verðlag um skeið, því að stéttirnar muni ekki una því, að tekinn sé af þeim rétturinn til að fá hækkun á andvirði vinnu sinnar og vöru. Ég svara því til, að réttur verkamanna, bænda, útvegsmanna, sjómanna, opinberra starfsmanna, iðnrekenda og kaupmanna til að dansa hrunadans í kringum verðbólgubálið og kasta verðmætum á eldinn er ekki þess eðlis, að þjóðfélaginu beri að viðurkenna hann og varðveita. Þvert á móti ber því að stöðva slíkan dans. Hinni beinu niðurfærsluleið þurfa að fylgja ýmsar hliðarráðstafanir. Í henni felast mestu möguleikarnir á því að bæta hag almennings í landinu með lækkun útsvara og skatta. Til greina kæmu einnig vísitöluuppbætur á lægri laun og álagning verðbólguskatts.

Á undanförnum árum hefur ríkisstj. unnið að því að efla mjög undirstöðusjóði atvinnuveganna í landinu, svo sem fiskveiðasjóð, iðnlánasjóð og stofnlánadeild landbúnaðarins. Þá hefur benzínskatturinn einnig verið hækkaður mikið nú fyrir skömmu, til þess að unnt sé að stórauka vegagerð í landinu. Hvernig fer svo verðbólgan með þessa sjóði og þessi fjárframlög? Á stuttum tíma étur hún upp mestalla aukningu, svo að ávinningurinn verður lítill, þegar til lengdar lætur. Verðbólgan heggur sín stóru skörð í alla sjóði í landinu og færir þjóðina fjær þeim nytsamlegu markmiðum, sem sjóðirnir keppa að. Verðbólgan er þannig hinn mesti skaðvaldur. Það má því ljóst vera, að árangur viðreisnarinnar er í veði, ef verðbólgan verður ekki stöðvuð.

Bráðabirgðaráðstafanir eins og þær, sem hér eru á döfinni, geta átt fyllsta rétt á sér, þótt benda megi á ýmsa annmarka þeirra. En mest gildi hafa slíkar bráðabirgðaráðstafanir, ef þær opna augu manna fyrir brýnni þörf róttækari og varanlegri aðgerða til að leysa það mikla verðbólguvandamál, sem nú steðjar að þjóðinni.