30.01.1964
Efri deild: 41. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það virðist hafa verið tilgangslítið undir öllum umr. þessa máls á Alþingi að flytja brtt. Þó vil ég freista þess enn á elleftu stundu.

Söluskattur er óhlífisöm álaga, af því að hann leggst á brauð hins snauða með sama þunga og brauð hins ríka. Nú má hver húsmóðir, sem fer út til innkaupa, sennilega gera ráð fyrir því frá næstu mánaðamótum að þurfa að láta í ríkiskassann 5.50 kr. af hverjum 100 kr. seðli, sem hún kaupir fyrir, í stað 3 kr. áður, síðan á árinu 1960. Þetta verða iðin útgjöld á öllum kaupsviðum. En sá verður munur á þessu eftir 1. febr. og fyrir hækkunina, að áður fór 1/5 parturinn af söluskattinum til sveitarfélaganna og dró úr álögunum þar, eða 60 aurar fyrir hverjar 100 kr., en nú á ekkert af viðbótarskattinum að fara þá leið. En þangað ættu vitanlega að renna af hækkunarhlutanum 50 aurar, eða 1.10 kr. af hverjum 5.50 kr.

Það var hæstv. fjmrh. til heiðurs, þegar hann innleiddi þá reglu, að af hinum annars illræmda söluskatti fengju sveitarfélögin fimmta hlutann. En nú ætla stjórnarflokkarnir að hverfa frá þeirri reglu. Hvernig stendur á því? Ekki getur það verið af því, að sveitarfélögin verði ekki fyrir barðinu á dýrtíðinni. Auðvitað þurfa þau að greiða þá kauphækkun, sem orðið hefur og mest er talað um að valdi því, að hækka þurfi söluskattinn vegna ríkissjóðs. Ekki eru nema fáar vikur síðan Alþ. ákvað með lagabreytingu hækkun á framlagi sveitarfélaga til almannatrygginga. Eins og allir vita, hafa sveitarfélögin takmarkaðar heimildir í lögum til tekjuöflunar á móti útgjaldaþörfinni. Hins vegar getur ríkið gefið sjálfu sér heimildir til tekjuöflunar. Því er ekki markaður bás í þeim efnum nema af gjaldgetu þegnanna.

Nú er spurn: Hvers vegna fylgdi ekki hæstv. fjmrh. sinni vinsælu reglu, þegar þetta söluskattsfrv. var samið, að láta 1/5 af söluskattshækkuninni renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna? Var hann ofurliði borinn af félögum sínum í ríkisstj. eða flokkum hennar? Mér þykir það ekki alls kostar líklegt, ef hann hefði viljað beita þeirri orku, sem hann á yfir að ráða. Eða taldi hann ríkissjóðinn svo illa kominn í höndum sér, að skattalækkunin yrði að renna öll í sjóðinn til að bjarga því skipi? Eða heldur hann, að sveitarfélögin séu ekki í erfiðleikum? Ég held, að hann hafi ekki gefið sér tóm til að athuga þetta nógu rækilega. Ég tel tvímælalaust, að Alþ. eigi að taka það tillit til sveitarfélaganna að ætla þeim 1/5 af söluskattshækkuninni. Það var að vel yfirveguðu máli, sem þeim var ætlaður 1/5 partur söluskattsins 1960, og mæltist mjög vel fyrir. Þegar þessi sami skattur er hækkaður vegna víðtækra almennra dýrtíðarráðstafana, er mjög fráleitt og óviturlegt að láta sem sveitarfélögin séu ekki til. Slíkt er uppgjöf. Að vísu má segja, að í mörgu sé uppgjöf hjá hæstv. ríkisstj., en svona uppgjöf má ekki eiga sér stað, meðan algert þrot er ekki formlega viðurkennt.

Við minnihlutamenn fjhn. ætlum að leyfa okkur að leggja fram skrifl. till. um að fella niður úr 5. gr. frv. mgr. þá, sem ákveður, að sveitarfélögin skuli ekki fá sinn hluta af hækkun söluskattsins. Hæstv. ríkisstj. áætlar, að hækkunin, sem gengur í gildi 1. febr., færi sér um 260 millj. kr. tekjur fyrir ríkissjóð á þessu ári. Till. okkar felur í sér, að um 52 millj. af þeirri fjárhæð gangi til sveitarfélaganna og reglan um hlutdeild þeirra í söluskattstekjunum sé ekki rofin. Dettur nokkrum í hug, að ríkissjóður, eins og hjá honum hefur verið í pottinn búið, geti ekki staðið að þessu? Er nokkur hér inni, sem telur, að sveitarfélögin þurfi ekki á þessu að halda, eða Alþ. þurfi ekki að taka hlutfallslega sama tillit til þeirra og síðustu ár? Svör við þessum spurningum koma fram í atkvgr. um brtt. okkar. Ég bið hæstv. forseta, um leið og ég afhendi honum till., sem er í skriflegu formi og hlaut að vera það nú, að leita afbrigða fyrir till.