04.02.1964
Neðri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það gleður mig mjög að heyra um þann aukna áhuga fyrir almannatryggingunum, sem kemur fram í ræðum hv. 5. þm. Reykv. Það hefur ekki alltaf verið svo, að Framsfl. væri svo áhugasamur um almannatryggingarnar, og stundum hefur það verið svo, að hann hefur ekki treyst sér til að vera með þeim bótagreiðslum og þeim hækkunum á bótagreiðslum, sem lagt hefur verið til hér á Alþingi að gerðar væru, og skal ég ekki rekja þá sögu frekar.

Hv. þm. sagði, að hækkunartillaga Framsfl. á bótagreiðslunum fyrir jólin hefði verið við það miðuð, að auðvitað kæmu fram síðar þær hækkanir, sem mundu verða gerðar á almennum launum í landinu eftir þann tíma. En ég vil þó benda á, að þær till., sem fram komu fyrir jólin um hækkun á bótunum, voru að verulegu leyti miðaðar við þær hækkunartill. á launum, sem komnar voru fram þá. Það komu fram till. frá Alþb. um 40% hækkun, miðaðar við það, að hækkunin, sem um var talað fyrir jólin á almennu tímakaupi, mundi verða um 15%. Ríkisstj. taldi ekki rétt á því stigi, á meðan ekki var frá þeim hækkunum gengið, að miða hækkanir á bótunum við annað en það, sem þegar var orðið, og lofaði því, eins og hún hefur nú staðið við, að síðar mundu verða bornar fram tillögur um hækkanir á bótagreiðslunum, sem svaraði þeim hækkunum, sem síðar væru gerðar á almennum launum. Ég held þess vegna, að í þessari 25% hækkunartill. Framsfl. fyrir jólin hafi falizt það, að það ætti að mæta þeim hækkunartill. á launum, sem þá voru uppi og líklegt var að mundu koma fram.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki ástæða til að taka til greina þær umframgreiðslur, sem dvalargestir eða vistmenn á elliheimilum fengju umfram almannatryggingalögin. En ég vil benda honum á, að einmitt í almannatryggingalögunum er heimild til þess að hækka lífeyrisgreiðslurnar um allt að 100% hjá þeim mönnum, sem verða að vera á sjúkrahúsi eða á elliheimili eða einhverju slíku, og það er samkv. þeim lögum, sem vistmenn á þessum sjúkrahúsum hafa fengið sinn dvalarkostnað að fullu greiddan á þennan hátt.

Þá sagði hv. þm., að 1600 kr. mundu koma á hvert mannsbarn í landinu af þeirri söluskattshækkun, sem hér hefur verið lögleidd nú með lögum um aðstoð við sjávarútveginn o.fl. Eftir því ætti 4½ manns fjölskylda, sem miðað er við venjulega, að hafa í útgjöld vegna þessarar hækkunar söluskattsins um 7200 kr. En 2½%, eins og söluskatturinn er af nauðþurftum, er ekki af 100 þús. kr. meiri en 2500 kr., þannig að einhvers staðar hlýtur hér að skakka. Hv. þm. getur ekki sannfært neinn mann um það, að almenn fjölskylda á Íslandi þurfi að borga vegna hækkunar söluskattsins 7200 kr., þar sem hún hefur ekki nema rúmar 100 þús. kr. tekjur, og þó að hún eyddi því öllu í nauðsynjar, yrði það ekki í útgjöldum fyrir hana nema 2500 kr. á ári, og sanni hann það með sínum framsóknarreikningi, að það skuli vera öðruvísi.

Hann sagði, að við værum státnir af þeim breytingum, sem við höfum gert á almannatryggingalögunum. Það hefur hvergi komið fram, að við værum það. Við vildum aðeins hækka bæturnar nú á svipaðan hátt og laun almennings í landinu hafa hækkað, og það hefur verið gert. Þær hafa verið hækkaðar á árinu sem leið um 15%, og hér er lagt til, að 15% verði bætt við, þannig að hækkun bótanna í þessum tveim áföngum verður um 32%, alveg eins og hækkun launa almennings í landinu hefur orðið. Hvernig launagreiðslur til almennings og greiðslur til þessara bótaþega eru, skal ég ekki segja og skal ekki rekja, né hvernig hlutfallið er þarna á milli. En ég ætla, að ef bótaþegum almannatrygginganna er veitt svipuð hækkun eða sú sama og almennum launþegum í landinu, verði þeir a.m.k. ekki verr úti en þeir.

Hinu mótmæli ég svo algerlega, að sú 2½% söluskattsaukning, sem orðið hefur með l. um aðstoð við sjávarútveginn, sem nýlega hafa verið samþykkt hér á þinginu, baki meðalfjölskyldu 7200 kr. í aukin útgjöld, því að það á hreint ekki stoð neins staðar, það getur hver einn maður sagt sér, því að til þess að fá 7200 kr. aukin útgjöld, þyrfti það að miðast við a.m.k. upp undir 300 þús. kr. tekjur.