17.02.1964
Efri deild: 48. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 272 flyt ég tvær brtt. við þetta frv. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þær till., ég hef gert grein fyrir þeim báðum við 1. umr. málsins.

Fyrri till. er við 1. gr. og fjallar um, að orðin „að undanskildum fjölskyldubátum“ falli burt. Ég gerði grein fyrir því síðast, að ég hygg rækilega, að það er fullkomin ástæða til að láta hækkun bóta nú að þessu sinni ná einnig til fjölskyldubóta. En það er nú í fjórða skipti í röð, sem fjölskyldubætur eru undanskildar, þegar aðrar bætur trygginga eru hækkaðar. Þetta getur ekki gengið svo til endalaust af auðskildum ástæðum, með því verða fjölskyldubæturnar áður en varir einskis verðar. Það er ekki heldur næg átylla að lofa hækkun fjölskyldufrádráttar vegna barna við álagningu skatta, vegna þess að sú hækkun þarf einnig að koma, ef þessar kjarabætur til handa barnafjölskyldum, persónufrádrátturinn og fjölskyldubæturnar, eiga að halda því gildi, sem þær höfðu, þegar ákvæði um þær voru sett fyrir nokkrum árum.

Ég tel því nú fullkomna ástæðu til að lofa fjölskyldubótunum að fylgja með við þessa hækkun. Ef það verður ógert látið af hlífð við ríkissjóð, þá tel ég, að aðrar leiðir eigi frekar að fara en þessa, að gera fjölskyldubæturnar smátt og smátt verðlausar. Það er hugsanlegt, ef menn umfram allt vilja hugsa um velferð ríkissjóðs, ef svo mætti segja, að gera þá aðra breytingu, eins og þá að hætta að greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni í fjölskyldu, en gagnvart barnmörgu fjölskyldunum er þetta ranglæti, að undanskilja þessar bætur í hvert skipti sem aðrar bætur almannatrygginga eru hækkaðar.

Önnur brtt. mín er við ákvæði til bráðabirgða og er þess efnis, að 15% bótahækkunin skuli greidd ekki síðar en í aprílmánuði í stað þess, sem heimilað er í frv., að það skuli ekki gert fyrr en í júlí. Ég hafði einnig orð um þetta atriði við 1. umr. málsins og benti á, að fátækum bótaþegum veitir ekki af að fá þessa hækkun sem allra fyrst og því má ekki draga útborgun þeirra lengur en nauðsyn krefur. Ég hygg, að það sé ekki ósanngjarnt og að öllu leyti fært þeim aðilum, sem eiga að greiða bæturnar ásamt hækkun, að ætlast til þess, að þessi hækkun verði greidd ekki síðar en í aprílmánuði. Þannig yrði biðtíminn styttur um helming.