18.02.1964
Efri deild: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði lagt fram tvær brtt. við frv. við 2. umr. og dró þær báðar til baka til 3. umr. Varðandi fyrri till., sem efnislega felur í sér, að í fjölskyldubætur skuli einnig hækka um 15% frá 1. jan., vildi ég láta þess getið, að í gær utan þingfundar var mér bent á, að misskilja mætti þá till., þannig að orkað gæti tvímælis, hvort við væri átt, að fjölskyldubætur frá 1. jan. 1964 skyldu hækka um 15% eða um 32.25%,. Vitanlega var það og er meining mín, að fjölskyldubæturnar hækki eins og aðrar bætur frá 1. jan. um 15%, en í frvgr. er af vissum ástæðum nefnd talan 32.25%. Til þess nú að taka af allan vafa um þetta og orða þetta sem ljósast, óska ég að taka þessa fyrri till. mína á þskj. 272 til baka, en flytja í hennar stað skriflega till., sem tekur af öll tvímæli í þessu efni. En brtt. mín hljóðar svo, hún á við 1. gr. og er um það, að greinin orðist svo:

„Frá 1. jan. 1964 skulu bætur samkv. 1. nr. 40 frá 30. apríl 1963, um almannatryggingar, greiddar með 32.25% álagi í stað þeirra 15% hækkunar, sem ákveðin var með lögum nr. 72 1963, um hækkun á bótum almannatrygginga. Frá sama tíma skulu fjölskyldubætur hækka um 15% .“

Með þessu hygg ég, að öll tvímæli séu af tekin um það, að fyrir mér sem flm. vakir, að fjölskyldubæturnar hækki aðeins um 15% eða til jafns við aðrar bætur frá 1. jan. 1964.

Herra forseti. Ég vil mælast til þess, að þessi till. verði leyfð, þrátt fyrir það að hún kemur of seint og er skrifleg.