18.02.1964
Efri deild: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Nál. heilbr.- og félmn. var einfalt og einróma í þessu máli. Nefndin lýsti því yfir, að hún legði til, að stjórnarfrv. yrði samþ. Undir þá yfirlýsingu skrifuðum við framsóknarmennirnir í nefndinni, hv. 1. þm. Vesturl. og ég. Hins vegar lá ekki í þessari yfirlýsingu, að við afsöluðum okkur rétti til að fylgja brtt., ef fram kæmu, ef við teldum þær til bóta, og svo mun að sjálfsögðu einnig vera um alla, sem undir nál. rituðu, eins og það var orðað.

Nú liggja fyrir brtt. frá hv. 9. þm. Reykv. Það er þá fyrst skrifleg brtt., sem hann er rétt búinn að gera grein fyrir, og hún er sú, að fjölskyldubætur verði hækkaðar um 15% frá 1. jan. s.l. að telja, eins og aðrar bætur samkv. 15. gr. almannatryggingalaganna, nr. 40 frá 30. apríl 1963. Ekki er hægt að neita því, að fjölskyldubætur eru að því leyti annars eðlis en aðrar bætur, sem kenndar eru við Tryggingastofnun ríkisins, að ríkissjóður leggur einn til allt fé í fjölskyldubæturnar. Tryggingastofnunin annast aðeins dreifingu þessa fjár fyrir ríkissjóðinn. Hún er handlangari milli ríkissjóðsins og bótaþeganna. Rétt er því að líta á fjölskyldubæturnar, eins og nú er komið, sem verðlags- eða dýrtíðarbætur frá ríkissjóði. Dýrtíðin hraðvex dag frá degi. Það virðist því næsta eðlilegt, að þessar bætur séu auknar til mótvægis henni, að því leyti sem þær ná. Ég segi ekki, að fjölskyldubætur til allra jafnt, hvernig sem fjárhagur þeirra er, og jafnmiklar á barn, hvort sem þau eru mörg í heimili eða fá, séu heppilegasta form til dýrtíðarbóta. En samt eru þær form, sem er notað, og því þá ekki að láta þær vaxa með vexti þess, sem þær eiga að mæta?

Í grg. frv. þess, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram í vetur um 15% hækkun bóta þá, að undanskildum fjölskyldubótum, er þess getið eins og í afsökunarskyni fyrir, að fjölskyldubæturnar voru undanskildar, að verið sé að athuga um verulega lækkun persónufrádráttar við framtal tekna til skatts og því þyki ekki að svo stöddu rétt að hækka fjölskyldubæturnar. Er þar sagt: að svo stöddu. Ekkert hefur enn mér vitanlega komið í ljós um, að hækkun persónufrádráttar verði lögleidd, frekar en þetta, sem þarna stóð, og ekkert liggur heldur fyrir um það, hvernig frádráttarhækkuninni verður fyrir komið og í hvaða mæli hún verður. Ég tel því rétt að hækka nú fjölskyldubætur um 15% frá síðustu áramótum. Það eyðir alls ekki þörf fyrir réttmæti hækkunar persónufrádráttar, því að svo langt er frá, að hækkun fjölskyldubótanna um 15% sé í samræmi við dýrtíðarvöxtinn, eða jafnvel í samræmi við hækkun annarra bóta, eins og hún er þó orðin.

Ég hef kynnt mér, hve miklu þessi hækkun mundi nema í heild fyrir árið 1964. Samkv. áætlun Tryggingastofnunarinnar fyrir 1964, sem birt er í 3. hefti tímaritsins Sveitarstjórnarmál, er heildarupphæð fjölskyldubóta áætluð á árinu 1964 209 millj. kr. 15% hækkunin mundi eftir því verða í heild á þessu ári 31 millj. og 350 þús. Ekki er hægt að segja, að það muni stórmiklu, þótt sú upphæð bætist við ríkisútgjöld á árinu. Það er í raun og veru eins og einn dropi af þeirri miklu mjólk, sem þar er á skál. Og í raun og veru er það þannig með fjölskyldubæturnar, að eitthvað af þeim kemur til baka frá a.m.k. sumum í auknum sköttum.

Þá er önnur till. frá hv. 9. þm. Reykv., seinni till. frá í gær. Hún er um, að greiðsla hækkunarinnar á bótunum dragist ekki nema fram í apríl. Mér finnst þetta sanngjörn till. og mun styðja hana með atkvæði mínu.