28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Sú hefur verið venjan undanfarin ár að hækka bótagreiðslur almannatrygginganna í svipuðu hlutfalli og almennar launahækkanir hafa orðið í landinu. Hefur þá að undanförnu oftast verið miðað við þá hækkun, sem orðið hefur hjá opinberum starfsmönnum, sem allt þangað til s.l. sumar fengu venjulega sínar hækkanir jafnar, allir sömu hundraðshlutahækkunina. Á þessu hefur orðið breyting nú í ár þannig að samkv. kjaradómi hafa launabætur opinberra starfsmanna hækkað mjög mismunandi, og verður því ekki unnt að hafa hliðsjón af þeim við hækkun á bótagreiðslum almannatrygginganna. Valin hefur því verið sú leið að leggja til, að bæturnar yrðu hækkaðar svipað þeirri hækkun, sem orðið hefur á almennum launagreiðslum í landinu á þessu ári. En þær hafa verið þannig, að laun hækkuðu almennt um 5% í janúarmánuði s.l. og aftur um 7½% frá 23. júní s.l., eða samtals frá þeim tíma um 12.8–12.9% frá því, sem áður var á undanförnu ári. Nú hefur verið lagt til, að bæturnar verði hækkaðar um 15%, sem svarar nokkurn veginn til þeirrar meðalhækkunar, sem orðið hefur á árinu, ef tekið er tillit til þess, að 5% hafa verið greidd á fyrri hluta ársins, því að hækkanir bóta almannatrygginganna koma ekki til framkvæmda nema fyrir síðari hluta ársins.

Ég skal viðurkenna, að það hefur nokkur dráttur orðið á því að leggja þetta frv. fram, en það stafar fyrst og fremst af því, að það var ekki útilokað, að einhverjar hækkanir frekar mundu verða á þessu ári, og lítur raunar út fyrir, að svo verði, þó að þær séu ekki komnar til framkvæmda enn, og var þá meiningin að taka þær allar í einu lagi til viðmiðunar. En þar sem svo langt er liðið á árið og stefnt er að því, að þessi hækkun bóta almannatrygginganna komi til framkvæmda fyrir áramótin, er ekki talið gerlegt að bíða lengur. Ef frekari hækkanir verða á þessu ári en ég nú hef nefnt, verður að taka þessi mál til endurskoðunar á ný og samræma þær bótagreiðslur, sem í framtíðinni verða greiddar, þeim hækkunum, sem verða kunna.

Þessar hækkanir, sem nú er gert ráð fyrir að verði 15%, skulu gilda um allar lífeyrisgreiðslur almannatrygginganna og frá 1. júlí s.l. Undanskildar eru þó fjölskyldubæturnar, sem ekki er lagt til að verði hækkaðar að sinni, og kemur það til af því, að til athugunar eru ákvæði bæði tekjuskattslaga og útsvarslaga um persónufrádrátt, en fjölskyldubæturnar verka mjög svipað á hag manna og þessar frádráttarupphæðir og því talið rétt að bíða með ákvörðun um þessar bætur, þar til séð verður, hvernig verður ráðið til lykta frádrætti samkv. tekjuskatts- og útsvarslögum. Enn fremur er þess að geta, að nýju lögin um almannatryggingarnar, sem samþykkt voru hér á Alþingi s.l. vor, koma ekki til framkvæmda fyrr en um n. k. áramót, og þær breytingar, sem þau lög bera í sér, koma því ekki fram til hækkunar fyrr en þau ganga í gildi, eða um áramótin. Hækkunin samkv. þeim lögum eða viðbótargreiðslur þeirra laga koma því ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan.

Kostnaður við þessa hækkun er talsverður, eins og skýrt er frá á fskj., sem fylgir með frv., þar sem kostnaðurinn er sundurliðaður. Þar er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við þessa hækkun frá 1. júlí s.l. til 31. des. 1964 verði sem hér segir: Ellilífeyrisgreiðslurnar hækka um 58.8 millj., örorkulífeyrir og örorkustyrkur hækka um 15½ millj., aðrar bætur hækka um 14.7 millj. og tillag til varasjóðs er 1.8 millj., eða samtals hækkunin 90.8 millj. kr. Þessi kostnaður skiptist svo, eins og einnig er greint frá á fskj., þannig, að ríkissjóður greiðir 32.7 millj., hinir tryggðu greiða 29.1 millj., sveitarsjóðirnir greiða 15.3 millj. og atvinnurekendur 12.7 millj.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að slysabætur og sjúkradagpeningar, sem greiddir eru af sjúkrasamlögunum, hækki einnig um sama hundraðshluta, þ.e.a.s. um 15%, og er útgjaldaaukning slysatrygginganna af þeim sökum áætluð 3½ millj., en af þeirri upphæð kemur ekki neitt á ríkissjóðinn, heldur borin uppi af iðgjöldum atvinnurekenda. Sjúkratryggingamar aftur á móti munu verða fyrir auknum útgjöldum, sem samtals eru áætluð 2.3 millj. af þessum sökum, og þar af greiðir ríkissjóður eina. Samtals mun því ríkissjóður þurfa að greiða vegna þessara hækkana á því 1½ ári, sem þetta reikningsuppgjör nær til, um 33.7 millj. Æskilegt hefði sjálfsagt verið að hækka bæturnar meira en þetta, en þeirri reglu hefur verið fylgt að undanförnu að láta þessar hækkanir á bótagreiðslum almannatrygginganna fylgja þeim almennu launahækkunum, sem orðið hafa á undanförnu tímabili, og hefur það því einnig verið gert hér.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þessar uppbætur eða hækkanir verði greiddar í einu lagi fyrir síðari helming ársins, eða 6 mánuði, fyrir næstu áramót. Ég vildi því mjög eindregið leyfa mér að óska eftir því við hæstv. forseta og þá n., sem þetta frv. fær til meðferðar, að afgreiðslu málsins yrði flýtt svo sem mögulegt er, til þess að þessi afgreiðsla fyrir áramót geti átt sér stað. Að vísu hefur Tryggingastofnunin þegar hafið undirbúning að því, en getur náttúrlega ekki gengið frá því á neinn hátt, fyrr en afgr. hefur verið frv.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.