24.02.1964
Efri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

152. mál, laun forseta Íslands

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Með tilliti til þeirra miklu launabreytinga, sem orðið hafa á s.l. ári, m.a. á launakjörum opinberra starfsmanna, getur það varla verið álitamál, að óhjákvæmilegt er, að endurskoðuð verði núgildandi ákvæði um laun forseta Íslands. Það er auðvitað matsatriði, sem um má deila, hversu há skuli ákvarða þessi laun. En það frv., sem fyrir liggur, hefur gengið ágreiningslaust, að því er ég bezt veit, gegnum hv. Nd., og eins og álit fjhn. á þskj. 303 ber með sér, erum við, sem í nefndinni eigum sæti, sammála um, að frv. verði samþ. óbreytt. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. fyrir frv.