28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tel það nú sjálfsagt að verða við þeim tilmælum hæstv. ráðh., að greitt sé fyrir gangi þessa máls í gegnum þingið, en þó finnst mér rétt að segja nokkur orð við 1. umr. málsins. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að á s.l. vori, eða hinn 18. apríl s.l., voru afgreidd lög frá Alþingi um almannatryggingar. Hafði farið fram heildarendurskoðun þessara laga og ný löggjöf var því afgreidd á s.l. vori. Þó að það sé nú ekki langt, eða nokkrir mánuðir, síðan þessi lög voru afgreidd frá Alþ., hefur orðið slík framvinda á efnahagsmálum í landinu, að dýrtíð hefur stórlega aukizt á þessum tíma og það svo mikið, að bætur, sem eru ætlaðar styrkþegum almannatrygginganna í því frv., sem hér er til umr., nægja hvergi til að mæta þeirri auknu dýrtíð, sem hefur átt sér stað á þessum tíma. Á þessum tíma síðan l. apríl s.l. hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 12 stig, samkv. því á dýrtíðin að hafa aukizt um 12%, og það kann einhver að segja, að þar sem dýrtíðin samkv. framfærsluvísitölu hafi ekki aukizt nema um 12% þessum tíma, séu það fullkomnar bætur hjá styrkþegunum að fá 15% hækkun. En dæmið lítur alls ekki þannig út, vegna þess að styrkirnir nema ekki nema takmörkuðum hluta af framfærslukostnaðinum. Hjá gamla fólkinu mun láta nærri, að styrkirnir nemi eitthvað 40% af framfærslukostnaðinum, og það er á þessi 40%, sem það fær 15% hækkun, en svo enga hækkun á hin 60%. Ef það ætti þess vegna að fá fullkomlega bætta þá dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur á þessum tíma, þyrfti miklu meiri hækkun á almannabótunum en hér er gert ráð fyrir, vegna þess að hér er aðeins um að ræða að bæta upp 40% á framfærslukostnaðarins hjá gamla fólkinu, en 60% eru ekki bætt að neinu.

Ég vil benda á það sem dæmi til frekari sönnunar um þetta, að síðan 1. apríl í vor hefur dvalarkostnaður á sjúkradeild elliheimilisins Grundar hér í bænum hækkað um 6650 kr., á þessum mánuðum um rúmar 6 þús. kr., þ.e.a.s. miðað við dvalarkostnað á ári. En mér sýnist, að samkv. þessu frv. verði hækkunin, sem gamla fólkið fær, ekki nema tæp 3 þús. kr., þannig að þeir, sem eru á sjúkradeild elliheimilisins, fá ekki nema tæpan helminginn bættan af þeirri aukningu dvalarkostnaðarins, sem þar hefur orðið á þessum tíma. Þetta sýnir það, að ef ætti að bæta styrkþegum upp fullkomlega þá dýrtíðaraukningu, sem hefur orðið síðan lögin um almannatryggingar voru afgreidd frá Alþ. á s.l. vori, þyrfti hækkun bótanna að vera miklu meiri en gert er ráð fyrir í því stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir. Menn fá tæplega helminginn bættan á dýrtíðaraukningunni samkv. því. Þess vegna vil ég taka undir það, sem hv. seinasti ræðumaður sagði hér áðan, að það er engin sérstök ástæða til þess fyrir ríkisstj. að vera að auglýsa þetta frv. sitt eins og eitthvert sérstakt örlæti og tala með miklum mikilmennskubrag um það, að hér sé verið að gefa gamla fólkinu jólagjöf, þar sem það fær raunverulega ekki aftur nema tæpan helminginn af því, sem búið er að taka af því á undanförnum mánuðum með þeirri dýrtíðaraukningu, sem leitt hefur af stefnu hæstv. ríkisstj.

Það hefur annars heyrzt oft af hálfu stjórnarflokkanna, bæði hér á Alþ. og víðar, að eitt það bezta, sem ríkisstj. hafi gert, hafi verið aukning almannatrygginganna. Mér finnst ekki úr vegi í sambandi við þetta mál að athuga þetta örlítið. Og þá kemur það fyrst í huga. Hvernig er það, sem á að mæla aukningu almannatrygginganna? Hver er rétti mælikvarðinn í þeim efnum? Ég mundi segja, að það væri bezt að finna út, hvað almannatryggingarnar væru, hvort þær færu vaxandi eða minnkandi, hver hluti styrkirnir eru af framfærslukostnaðinum, t.d. hve stór hluti ellilaunin eru af framfærslukostnaði gamla fólksins á hverjum tíma. Og ég hef gert nokkra athugun á því, hvernig þetta kemur út.

Árið 1955 voru ellilaun einstaklings 9955 kr., eða tæpar 10 þús. kr. Þá var ársdvalarkostnaðurinn á ári á hinni almennu deild elliheimilisins Grundar 21900 kr., eða samkv. því námu ellilaunin um 45% af dvalarkostnaðinum á hinni almennu deild elliheimilisins, 45% eða í kringum það. Aftur á móti var dvalarkostnaður þá á sjúkradeild elliheimilisins um 25500 kr., og það svarar til þess, að ellilaunin hafi þá numið um 39% af dvalarkostnaðinum á þessari deild. Sem sagt, á þessum tíma, eða haustið 1958, námu ellilaunin, ellilaun einstaklings, 45% af dvalarkostnaði á almennri deild á elliheimilinu og 39% af dvalarkostnaði á sjúkradeild. Þessar tölur líta hins vegar þannig út í dag, að nú eru ellilaunin orðin 18240 kr., svo að hér er vissulega um verulega hækkun á þeim að ræða. (Gripið fram í.) Ellilaunin nú hjá einstaklingi munu vera um 18240 kr., svo að það er alveg rétt, að hér hefur tölulega átt sér stað veruleg hækkun frá 1958. En þegar við berum þetta svo saman við dvalarkostnaðinn eins og hann er í dag, verður niðurstaðan önnur í dag er dvalarkostnaðurinn á sjúkradeild elliheimilisins 54 þús. kr. á ári og 46800 kr. á hinni almennu deild. Þetta svarar til þess, að í dag séu ellilaunin ekki nema 39% af framfærslukostnaðinum eða dvalarkostnaðinum á almennu deildinni og um 34% á sjúkradeildinni. Niðurstaðan er þá í stuttu máli sú, að 1958 námu ellilaunin á sjúkradeildinni 39%, en nema nú ekki nema 34%, þannig að hlutur styrkþegans hefur þarna versnað um 5% af dvalarkostnaðinum. Á almennu deildinni lítur þetta hins vegar þannig út, að 1958 námu ellilaunin 45% af dvalarkostnaðinum, en ekki nema 39% í dag, svo að þarna hefur enn þá meiri lækkun átt sér stað.

Ég hygg, að þetta dæmi sýni það fullkomlega, sem ég hef hér nefnt, að almannatryggingarnar hafa raunverulega farið minnkandi á þessum tíma, en ekki vaxandi, ef miðað er við framfærslukostnaðinn á hverjum tíma, sem sagt, þær eru raunverulega minni í dag en þær voru 1958, ef miðað er við framfærslukostnaðinn nú og þá og hluta ellilaunanna af honum. Þegar þessar staðreyndir eru athugaðar, held ég, að ríkisstj. ætti að fara að draga nokkuð úr þeim áróðri, sem hún hefur haft uppi um það, að almannatryggingarnar hafi aukizt stórlega í tíð núv, stjórnar, því að ef réttur samanburður er gerður í þessum efnum, þ.e.a.s. fundinn út hluti trygginganna í framfærslukostnaðinum, kemur í ljós, að hér er um rýrnun, en ekki aukningu að ræða á tryggingunum.

Mér fannst rétt að láta þetta koma hér fram í sambandi við þetta mál í tilefni af þessum stöðuga áróðri hv. stjórnarflokka, að þeir hafi verið að auka tryggingarnar. Það er að vísu rétt, að þeir hafa aukið tryggingarnar hvað krónutölu snertir, eins og allt hefur líka farið hækkandi í þessu landi hvað krónutöluna snertir, en þegar miðað er við raunverulegt verðgildi, kemur annað í ljós, eins og ég hef nú rakið.

Mér finnst rétt að minna á það í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það gerir ráð fyrir verulegri hækkun tryggingariðgjaldanna, sem almenningur greiðir. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að í grg. frv. er gert ráð fyrir, að iðgjöldin hækki um 30 millj. kr. Hér er um hækkun að ræða, sem kemur á allan almenning í landinu og jafnt þá, sem eru láglaunaðir og hálaunaðir, og ég vil benda á þetta vegna þess, að ég tel sjálfsagt, að nú í sambandi við þá samninga um kaupgjaldsmálin, sem yfir standa, verði tekið tillit til þessarar hækkunar á iðgjöldunum, sem gerir það nauðsynlegt, að láglaunafólkið fái nokkru hærri bætur en ella. Ég þori ekki að segja það ákveðið, hvað mikilli hækkun þessi iðgjöld kunna að nema miðað við kaupgjaldið, en einhvers staðar mun það þó alltaf vera frá ½–1% af kaupgjaldi Dagsbrúnarmanns.

Ég var að rekja það hér áðan, þegar hæstv. ráðh. gekk í burtu, hvernig þessar auknu tryggingar, sem ríkisstj. hefur verið að hæla sér af, hafa farið í gin dýrtíðarinnar og raunar miklu meira en það. Og það er ein af mörgum hinum hörmulegu sönnunum þess, hve dýrtíðin hefur leikið almenning. í landinu grálega. Það, sem hefur að sjálfsögðu valdið dýrtíðinni fyrst og fremst, er sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið uppi í efnahagsmálunum. Afleiðing hennar er m. a. sú, að þrátt fyrir það að tryggingarnar hafi hvað eftir annað verið hækkaðar í krónutölu, eru þær minni hluti af framfærslukostnaði manna í landinu eða styrkþeganna en þær voru t.d. 1958. Þess vegna held ég, að það sé mál til komið, að hæstv, ríkisstj. færi nú að athuga leiðir til þess að draga úr þessari dýrtíð, sem stefna hennar hefur valdið, það sé fullkomlega kominn tími til þess, að hún fari að athuga leiðir í þessu sambandi. Hæstv. menntmrh. var að vísu að benda á eina leið hér fyrir nokkrum dögum í sambandi við annað mál. Hann var að tala um, að bændastéttin hefði fengið um 240 millj. kr. meira en henni hefði borið í samanburði við stéttarbræður hennar erlendis. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál hér eða rekja það, hve óréttmætar þessar tölur eru, vegna þess að það verður gert við annað tækifæri, en læt aðeins nægja að segja, að þessar tölur hæstv. menntmrh. voru fullkomlega rangar og alveg furðulegt, að maður í hans stöðu skuli bera annað eins á borð hér á Alþingi. En um það ætla ég ekki að ræða frekar að sinni, vegna þess að það verður gert ýtarlega seinna.

En mér finnst rétt, fyrst dýrtíðarmálið ber hér á góma, að benda hæstv. ríkisstj, á annan miklu stærri lið, sem hægt er að spara, en þessar ímynduðu 240 millj., sem menntmrh. var að tala um. Þeir ríkisreikningar, sem alþm. hafa nýlega fengið, bera það með sér, að á seinasta ári hafa tollar og söluskattar verið svo háir, að ríkið hefur fengið í tekjur um 300 millj. kr. meira en Alþingi taldi þörf vera fyrir og áætlaði í fjárl. Á þessu ári verða umframtekjur ríkisins enn þá meiri en þetta, jafnvel svo að skiptir hundruðum millj. kr. meiri. Og það er alveg ljóst mál, að að óbreyttum söluskattsstigum og tollstigum munu umframtekjur ríkisins á næsta ári verða enn þá meiri en þetta, eða miðað við fjárl., eins og þau eru í dag, og þrátt fyrir það að reiknað sé með launahækkunum hjá opinberum starfsmönnum og þeirri lækkun á tekjuskatti, sem boðuð hefur verið. Þetta liggur í því, að þar sem kaupgjald og verðlag hefur stórhækkað í landinu á þessu ári, mun velta þjóðarbúsins að sjálfsögðu stóraukast og ríkissjóður að óbreyttum toll- og söluskattsstigum þar af leiðandi fá miklu meiri tekjur á næsta ári bara af sjálfu sér, auk þess sem við eigum að vænta þess, vegna þess að skipastóllinn hefur farið vaxandi á þessu ári og verðlag hefur farið hækkandi á mörgum útflutningsvörum, að útflutningur verði mun meiri á næsta ári en hann var á þessu ári, og það hefur sín áhrif á það, að veltan eykst og þar með tekjur ríkissjóðs. Þess vegna er það fyrirsjáanlegt, að þessar stórfelldu umframtekjur ríkisins munu halda áfram á næsta ári, nema veruleg tolla- og söluskattslækkun eigi sér stað. Enda má benda á það í þessu sambandi, að þessir toll- og skattstigar eru orðnir til með nokkuð óvenjulegum hætti, því að þegar ráðizt var í þær gengislækkanir, sem hér hafa verið gerðar á undanförnum árum, þótti sjálfsagt að lækka álagningarstiga hjá verzlunum, vegna þess að sá grundvöllur, sem álagningin var lögð á, hækkaði mjög verulega. En það var einn aðili, sem gerði þetta ekki hjá sér, heldur lét alla gömlu álagninguna haldast, þrátt fyrir það að grundvöllurinn gerbreyttist, sem lagt var á, og það var ríkissjóður eða ríkisstj. með því að láta ekki aðeins gömlu tollstigana haldast að mestu leyti, heldur bætti við mörgum nýjum tollum, eins og innflutningssöluskattinum, sem síðan var innlimaður í tollskrána, og svo söluskatti í smásölu, í staðinn fyrir það, að það var talið eðlilegt, að verzlanir lækkuðu álagningu sína. Þegar grundvöllurinn hækkaði, sem lagt var á, þá hélt ríkissjóður allri sinni álagningu óbreyttri og eykur hana þvert á móti á mörgum sviðum til viðbótar. Þetta gerir það hins vegar mögulegt, að ef ríkisstj. hefði vilja til þess að draga eitthvað úr dýrtíðinni í landinu, getur hún nú lækkað stórlega bæði tollstiga og söluskattsstiga, og það mundi leiða til þess, að dýrtíðin færi minnkandi í landinu og sú aukning á almannatryggingum, sem hér er gert ráð fyrir, eða sérstaklega ef hún fengist hækkuð í meðferð þingsins, færi ekki að öllu leyti í gin dýrtíðarinnar, heldur kæmi mönnum að raunverulegum notum.

Þess vegna vildi ég nota þetta tækifæri alveg sérstaklega, þar sem hér hefur verið sýnt fram á, hve hlálega dýrtíðarstefna stjórnarinnar hefur farið með almannatryggingarnar, að þær hafa raunverulega minnkað þrátt fyrir allar þær hækkanir í krónutölu, sem hafa átt sér stað, að þá taki nú ríkisstj. upp breytta stefnu og spyrni við fótum og fari að vinna að lækkunum á dýrtíðinni í stað þess að halda áfram að auka hana, eins og hún hefur gert til þessa. Og það er því frekar ástæða til að benda hæstv. ríkisstj. á þetta; vegna þess að hún hefur stórkostlega möguleika til lækkunar á dýrtíðinni með því að lækka þá drápstolla og drápssöluskatta, sem nú eru lagðir á þjóðina.