02.12.1963
Efri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

39. mál, innlend endurtrygging

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í grg. hæstv. sjútvmrh. fyrir þessu frv. við 1. umr. málsins, er aðalefni þess það að samræma ákvæðin um innlenda endurtryggingu o.s.frv. þeim vaxtafæti, sem gildir á hverjum tíma. Eins og kunnugt er, eru að vísu skiptar skoðanir um það hér á hv. Alþ., hver vaxtafóturinn í þjóðfélaginu eigi að vera. En hvað sem því líður, getur það varla verið álitamál, að eðlilegt sé, að ákvæði um þá arðsúthlutun, sem hér er um að ræða, hljóti að vera í samræmi við þann vaxtafót, sem er á hverjum tíma. Með tilliti til þessa hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt, þó með einni lítils háttar breytingu, eins og nál. á þskj. 101 ber með sér, nefnilega þeirri, að nafni Landsbanka Íslands verði breytt til samræmis við það, sem nú er.