09.12.1963
Neðri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

39. mál, innlend endurtrygging

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþ., að ég ætla samhljóða. Það var lagt hér fram á síðasta þingi, en náði þá ekki að fá afgreiðslu.

Efni frv. er það að heimila íslenzkri endurtryggingu og slysatryggingu skipshafna o.fl. að miða arðgreiðslu sína ekki lengur við 6%, eins og verið hefur, heldur fá hana hækkaða nokkuð. Þegar arðgreiðslan var ákveðin í upphafi 6% og síðar, þegar hún var ákveðin 5%, var við það miðað, að innlánsvextir af sparifé voru í kringum 4% og arðgreiðslan þess vegna nokkru hærri, og það er nú einnig talið eðlilegt, að arðgreiðslan sé nokkru hærri en þeir vextir, sem menn fá af sparifé því, sem lagt er á almennar innlánsbækur án sérstaks uppsagnarfrests. Frv. fer fram á það, að þessum arðgreiðslum megi nú haga þannig, að arðurinn verði allt að 2% hærri en vextir af almennum innlánsbókum án sérstaks uppsagnarfrests eru.

Efni frv. er raunverulega ekki annað en þetta, en til glöggvunar skal ég gera grein fyrir því, hvernig það fé skiptist, sem er undirstaðan undir þessari starfsemi. Innskotsfé ríkisins í þessa starfsemi er 1.85 millj., 3 tryggingafélög hafa lagt fram 136 þús. kr. hvert, þ.e.a.s. Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélag Íslands og Sjóvátryggingafélag Íslands. Þetta eru samtals 408 þús. kr. Og ýmsir útgerðarmenn hafa lagt fram 2 millj. 706 þús. kr. Þetta eru samtals 4 millj. 964 þús. kr. Auk þess er svo áhættufé, sem ríki og tryggingarfélögin hafa bundið í fyrirtækinu eða heitið að láta standa þar sem áhættufé, þ.e. ríkið með 856 þús., vátryggingarfélögin þrjú með samtals 180 þús., eða í allt 1 millj. og 36 þús. kr. Alls er þess vegna það fé, sem þessi stofnun hefur til umráða, bæði innskotsféð og áhættuféð, að upphæð samtals 6 millj. kr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð og vildi leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.