24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

39. mál, innlend endurtrygging

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. þetta, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 43 frá 9. maí 1947, um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o.fl., og leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og Ed., afgreiddi það, en þar var aðeins gerð sú breyting á frv. við 2. gr., að orðið „viðskiptabanka“ í 2. málslið 1. mgr. var fellt niður.

Hámarksarður af áhættufé íslenzkrar endurtryggingar var í l. frá 1943 ákveðinn 6% af innborguðu áhættufé, og í lögum frá 1947 var hann lækkaður í 5% en með lögum 1955 var hann aftur hækkaður í 6%. Hámarksarður af áhættufé félagsins hefur verið öll þessi ár nokkuð yfir innlánsvöxtum á almennum sparisjóðsbókum án sérstaks uppsagnarfrests hjá sparisjóðsdeild Landsbanka Íslands, en þar sem vextir hafa nú á síðustu árum hækkað svo, að sparisjóðsvextir hafa verið hærri en leyfilegur hámarksarður hjá íslenzkri endurtryggingu, þykir sanngjarnt og eðlilegt að heimila örlítið hærri arðgreiðslu, þegar sparisjóðsvextir eru yfir 4% á ári. Eigendur áhættufjár hafa mjög takmarkaðan yfirráðarétt yfir áhættufénu og starfsemi félagsins, og hefur nokkurrar óánægju gætt, að ekki skuli heimilað að greiða hærri arð en 6%, þegar vextir af innlánsfé eru almennt svo háir sem nú er.

Mér þykir rétt að geta þess, að eigendur íslenzkrar endurtryggingar eru ríkissjóður, sem á 45.1%, eigendur inneignarskírteina, sem eiga 45.1% og 3 vátryggingarfélög, sem eiga 9.8%. Eigendur inneignaskírteina eru þeir, sem tryggðu skipshafnir í síðasta stríði, útgerðarfélög, útgerðarmenn, bæði farskipa, togara og mótorbáta, og enn fremur Skipaútgerð ríkisins. Einstaka bréf þessara aðila hafa verið seld með samþykki félagsstjórnar hverju sinni. Tryggingafélögin, sem eiga 9.8%, eru tvö opinber félög, Brunabótafélag Íslands og Tryggingastofnun ríkisins, en þriðja félagið er Sjóvátryggingafélag Íslands, hlutafélag. Stjórn félagsins er þannig skipuð, að félmrh, skipar tvo stjórnarmenn, eigendur inneignaskírteina kjósa tvo og vátryggingarfélögin 3 tilnefna fimmta manninn. Á árunum 1960 var tekjuafgangur félagsins 2.4 millj. kr., þar af greiddur arður af innborguðu áhættufé 595 þús. kr. Árið 1961 var tekjuafgangur 960 þús. kr., þar af greiddur arður af áhættufé 446 þús. kr., og árið 1962 var tekjuafgangur 790 þús. kr. og þar af greiddur arður af áhættufé 446 þús. kr.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 3. umr.