24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

108. mál, afnám laga um verðlagsskrár

Frsm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða stjfrv. þess efnis, að lög nr. 27 1954, um verðlagsskrár, séu felld úr gildi, en þau lög voru framlenging á 1. nr. 16 frá árinu 1897. Fjhn. d. hefur athugað þetta frv. og er sammála því efnislega.

Frv. er fram komið vegna þess, að það var eitt af verkefnum yfirskattanefndanna að semja verðlagsskrár, hver á sínu svæði. Nú voru yfirskattanefndir lagðar niður með l. nr. 70 1962, en skattstjórum hvers umdæmis var falið að sinna þessu verkefni. En það er talsvert starf, og segir svo í gömlu lögunum um það: „Við verðlagningu búpenings skal hún fara eftir því, á hvaða verði búfé hverrar tegundar hefur gengið kaupum og sölum manna á milli á verðlagsskrársvæðinu, og sé miðað við meðalverð. Við verðskráningu innlendra framleiðsluvara skal hún fara eftir skýrslum, er hún aflar sér frá verzlunum þeim, er íbúar viðkomandi verðlagsskrárumdæmis hafa aðalviðskipti við, og skal leggja til grundvallar það verð, sem framleiðendur fá fyrir vöru sína.”

Verðlagsskrár hafa samkv. þessum lögum til þessa verið birtar í B-deild Stjórnartíðindanna einu sinni á ári og taka þar allmikið rúm ár hvert.

Með þeirri breytingu, sem orðin er á viðskiptaháttum landsmanna, er almennt talið, að verðlagsskrár þessar hafi ekki lengur neitt hagnýtt gildi, og er því lagt til, að lögin séu algerlega afnumin. Fjhn. hefur fallizt á þetta sjónarmið og mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 3. umr.