28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umr., en tel ekki hugsanlegt að sitja þegjandi hjá með öllu, vegna þess að í þessum umr. hefur hæstv. félmrh. sagt, að sér hafi verið tjáð, að í vinstri stjórninni hafi hans menn, þ.e.a.s. Alþfl.ráðh., lagt fram till. um endurbætur á tryggingalöggjöfinni, sem hafi ekki náð fram að ganga vegna andstöðu hinna ráðh. Ég er sannast að segja mjög undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli greina frá þessu, jafnvel þó að honum kunni að hafa verið tjáð þetta, því að mér finnst svo ólíklegt, að hann hafi ekki fylgzt betur með en svo, að hann ætti að taka það alvarlega, þó að honum hefði verið sagt þetta, því að sannleikurinn er sá, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson upplýsti hér áðan og áður hefur verið tekið fram af okkur ýmsum, sem vorum í vinstri stj., að hér er um algerlega rangar staðhæfingar að ræða. Hæstv. félmrh. núv. hafa verið gefnar um þetta efni rangar upplýsingar, um það er ekkert að efast. Það er sannast að segja ömurlegt hlutskipti að þurfa oftar en einu sinni að standa í því að bera til baka sögur af þessu tagi, og ég endurtek það, að ég tel, að núv. hæstv. félmrh. hafi hér verið sagt skakkt frá. Það voru engar till. um endurbætur á tryggingalöggjöfinni felldar fyrir ráðh. Alþfl. í vinstri stjórninni.

En fyrst ég er nú kominn hérna, vil ég aðeins bæta við örfáum orðum. Mér finnst sannast að segja dálítið einkennilegt, að það má heita undantekningarlaus regla, að þegar rætt er um till. núv. hæstv. ríkisstj. og umr. eiga auðvitað að snúast um þær, hvernig þær séu vaxnar, hvort þær séu sanngjarnar, skynsamlegar og uppfylli einhverja tiltekna þörf miðað við núverandi kringumstæður, þá ganga hæstv. ráðh. hér um bil ævinlega fram hjá því að ræða efnislega þau mál, sem þeir leggja fyrir, en flytja í stað þess alls konar dylgjur og ásakanir um það, sem aðrir hafi gert fyrir löngu, eins og það sé það, sem mestu máli skiptir núna, hvað gert var fyrir 10–20 árum. Er það ekki það, sem mestu máli skiptir, hvað nú er verið að gera, hvort það er skynsamlegt og hyggilegt og réttlátt eða á aðra lund?

Hvernig stendur svo á þessum málflutningi af hendi hæstv. ráðh. æ ofan í æ og má heita undantekningarlaust? Er það fyrir það, að þeir vilja ekki ræða efnislega um þær till., sem þeir gera, af einhverjum ástæðum? Ég óttast, að svo sé, og ég held, að þeir, sem fylgjast með málflutningi hér í þinginu, hljóti að draga þær ályktanir, að það sé af því, að þeim finnist ekki till. þeirra vera þannig vaxnar, að það sé heppilegt, að athyglin beinist að þeim, heldur sé í raun og veru um að gera að beina athyglinni frá þeim og að einhverju allt öðru.

Hæstv. félmrh. var að ræða hér um það, eins og ég minntist á áðan, sem hafði gerzt í vinstri stjórninni í þessum efnum eða honum hafi verið sagt að hefði gerzt, en áreiðanlega byggt á rangri skýrslu til hans. En hvaða máli skiptir það svo í raun og veru í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir? Mér skilst, að eitt aðalatriðið nú sé þetta, sem hv. 5. þm. Reykv. var að segja nú síðast, bara með öðrum orðum en ég. Ef gamla fólkið er betur sett núna en það var áður, ef útkoman er betri fyrir gamla fólkið, þegar borin eru saman ellilaunin og aðrar tryggingabætur við framfærslukostnaðinn, — ef gamla fólkið er betur sett nú en áður, þá má segja, að núv. hæstv. félmrh. og félagar hans hafi staðið sig allvel eða a. m. k. sæmilega. En ef það kemur aftur á móti upp úr dúrnum, að gamla fólkið á að vera verr sett nú þrátt fyrir þetta frv. en það var áður, t.d. fyrir nokkrum árum, miðað við tekjur úr tryggingunum annars vegar og hins vegar framfærslukostnaðinn og kostnað við dvöl á elliheimilum, — ef það kemur upp, eins og hv. 5. þm. Reykv. hefur, að því er manni virðist, hér í umr., fært alveg óyggjandi rök fyrir, hefur hæstv. ráðh. staðið sig illa og það meira en illa, því að hver vill í raun og veru halda því fram í alvöru, að íslenzka þjóðarbúið hafi ekki ráð á því núna að gera álíka vel við þetta fólk eins og 1958?

Þess vegna á hæstv. ráðh. að snúa sér að því að kryfja þessa spurningu til mergjar, því að þetta er málið sjálft, en ekki flytja hér alls konar lausafregnir, sem honum hafa verið sagðar um það, sem gerðist fyrir mörgum árum, því að tæplega getur þó hæstv. ráðh. ætlazt til þess í alvöru, að ráðh. í vinstri stjórninni hafi gert fram í tímann ráðstafanir í tryggingamálum til þess að mæta þeim búsifjum, sem þessi núv. ríkisstj. hefur staðið fyrir og enginn vissi náttúrlega að hugsanlegar væru eða kæmu til greina. Ekki hefur hæstv. ráðh, getað búizt við því. Þess vegna er þetta allt málið. En hæstv. ráðh. sagðist ekki vilja ræða þetta, heldur ætlaði hann að athuga betur þær upplýsingar, sem hv. 5. þm. Reykv. gaf í þessu tilliti. En ég verð nú að segja, af því að ég veit, að hæstv. ráðh. er mjög glöggur maður, að ég dreg alls ekki í efa, að hann hafi gert sér margoft nákvæma grein fyrir því, hver kostnaður er við dvöl gamla fólksins á elliheimilum annars vegar samanborið við tekjurnar af ellilaununum. En sé þetta rangt hjá mér og hæstv. ráðh. hafi ekki veitt þessu atriði athygli, eins og hann gaf í skyn, þannig að hann gæti nokkuð um það sagt í raun og veru, þá mundi ég vilja taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum, að hæstv. ráðh. athugi þetta, áður en. 2. umr. málsins fer fram, og geri þá bragarbót, ef það kemur í ljós, sem mun nú vera, að þær upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar í þessu tilliti, séu réttar og gamla fólkið sé verr sett en áður. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hljóti að verða okkur sammála um, að það er illa haldið á þessum málum, ef þessu þarf að miða aftur á bak, ef þjóðfélagið getur ekki búið, — við skulum segja, að við gerum ekki kröfuna hærri, bara álíka vel að þessu fólki og gert var 1958.