11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

131. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til breytinga á jarðræktarlögunum. Það hefur verið til umræðu nú ein 2–3 ár að endurskoða jarðræktarlögin. Búnaðarþing skipaði á sínum tíma mþn. í því skyni, og skilaði sú n. áliti til rn. á árinu 1962. Rn. skipaði síðan n. til að athuga þetta frv. mþn. búnaðarþings, og skilaði sú nefnd áliti fyrri hluta ársins 1963. Frv. var síðan til athugunar hjá ríkisstj., réttara sagt hjá landbrh., og var um það talað, að það yrði flutt eins og það kom frá hinni stjórnskipuðu n. En á s.l. sumri, þegar farið var að ræða um þessi mál, hvað það væri, sem lægi mest á að gera í ræktunarmálum, og er ég fór að velta þessum málum fyrir mér, gerði ég mér ljóst, að þetta heildarfrv. til breytinga á jarðræktarl. væri að vísu gott, það sem það náði, en þótt það væri lögfest, dygði það ekki til að ýta á ræktunina, þar sem mest þörf var á að flýta fyrir henni.

Frv. mþn. og stjórnskipuðu n. gerði ráð fyrir árlegum auknum útgjöldum til jarðræktar og annarra styrkja, 14–15 millj. kr. Og þá var gert ráð fyrir að styrkja alla ræktun jafnt á þeim jörðum, hvort þær voru skammt á veg komnar eða langt á veg komnar, en það var dálítið mismunandi eftir því, á hvers konar landi ræktunin átti að fara fram. Það var t.d. miklu lægra á söndum en á mýrlendi og lægra í valllendi en á mýrlendi. Það var frá 1300 kr. á ha. og upp í 3 þús. kr., þar sem talið var dýrast að rækta.

Út af fyrir sig er nauðsynlegt, að allsherjarendurskoðun jarðræktarl. fari fram. En það verður ekki að þessu sinni, vegna þess að sú ákvörðun var tekin að flytja frv. til breyt. á stofnlánadeildarl., eins og lýst hefur verið í frv. því, sem var til umr. hér 5 undan, með það fyrir augum að flýta sérstaklega fyrir ræktuninni, þar sem þörfin er brýnust. Og eins og getið var um, gerir það frv., sem við vorum áðan að ræða um, ráð fyrir hér um bil jafnmikilli hækkun á útgjöldum til ræktunarmála á hverju ári og þótt frv. til heildarendurskoðunar jarðræktarl. hefði verið samþykkt. Þótt við séum nú sammála um, að það frv., sem við áðan vorum að ræða um, sé harla gott og nauðsynlegt, voru þó nokkrir þættir í jarðræktarl. þess eðlis, að nauðsyn bar til að taka þá strax til meðferðar og hækka styrki á þeim sviðum.

Það, sem er þá fyrst skv. þessu frv., er 1. gr. Þar er gert ráð fyrir að styrkja plógræsi, en ákvæði um það hefur hreinlega vantað í jarðræktarlögin, vegna þess að plógræsi, eins og þau nú eru gerð, eru nýtilkomin eða komu um leið og finnski plógurinn var fluttur inn, en hann byrjaði að starfa á s.l. sumri. Það hefur verið gert ráð fyrir að styrkja plógræsin með 20 aura grunngjaldi á metra, sem verður rúmlega 1.20 kr., þegar vísitalan er komin þar á, en það er áætlað, að heildarkostnaður við plógræsi verði frá 1.50 kr. til 1.70 kr. eftir því, hvernig aðstaðan er á hverjum stað, og eftir því, hve mikið er hægt að vinna í einu. Það er kominn til landsins aðeins einn plógur af þessari gerð, og hann starfaði á s.l. ári. En það er gert ráð fyrir, að á næsta sumri vinni a.m.k. 2 slíkir plógar, og það eru miklar vonir bundnar við þessa aðferð í framræslunni. Það eru miklar vonir við það tengdar, að á þennan hátt megi stórum auka framræsluna, flýta fyrir henni og hún megi með þessum hætti verða mun ódýrari en áður. Reynsluna vantar vitanlega fyrir því, hversu endingargóð þessi ræsi verða, og má reikna með, að það verði á hverjum stað nokkuð eftir jarðlagi. En ræktunarmenn vænta hins bezta í þessu efni. Pálmi Einarsson gerir ráð fyrir því, að ein vélasamstæða með finnskum plógi, sem hefur nóg verkefni allt sumarið, muni vinna það mikið, að styrkur til hennar muni nema um 1.1 milljón króna árlega.

Skv. 2. gr. þessa frv. eru taldir hér upp nokkrir liðir, einnig þeir, sem enga hækkun fá, og er það gert til þess, að greinin geti verið samfelld í 1., og því ekki tekið út úr aðeins það, sem á að hækka. Heyhlöður, þ.e. þurrheyshlöður, steyptar með járnþaki og úr öðru efni, styrkur á þær er óbreyttur. Þurrheyshlöður á steyptum grunni úr timbri, asbesti, járni eða öðru jafngildu efni, styrkur á þær er einnig óbreyttur. Og votheyshlöður steyptar með þaki úr varanlegu efni, styrkur á þær er einnig óbreyttur og sömuleiðis á garðávaxtageymslur. En styrkur á súgþurrkunarkerfi í þurrheyshlöðum er hækkaður mjög mikið frá því, sem áður var, eða úr 5 kr. grunngjald í 12 kr. grunngjald, og er þá gert ráð fyrir, að allur kostnaðurinn við súgþurrkunarkerfi í gólfi hlöðunnar fáist greiddur með þessum styrk. Þá er f-liður skv. 2. gr., það er gert ráð fyrir, að styrkurinn hækki upp í 18 kr. grunngjald, sé súgþurrkunarkerfið með fasttengdum blásara. Súgþurrkunarkerfið kostar vitanlega jafnmikið, hvort blásarinn er fasttengdur eða ekki, og það, sem hér er umfram, verður þá sem styrkur á blásarann. Miðað við 18 kr. grunngjald verður styrkurinn um 110 kr. á hvern fermetra í hlöðunni. Miðað við þann styrk, sem hér er nefndur, bæði með fasttengdum blásara og án blásara, má gera ráð fyrir því, að allir bændur geti komið sér upp súgþurrkunarkerfi. Og það er vitanlega mjög nauðsynlegt að ýta undir það, að bændur bjargi heyjunum frá skemmdum, en eins og kunnugt er, þá hefur það oft átt sér stað, að grasið hefur skemmzt á túninu eða engjunum, eftir að það hefur verið slegið.

Það er kostnaðarsamt að rækta, það er kostnaðarsamt að kaupa áburð til þess að tryggja sprettuna, en það gera bændur í vaxandi mæli. Ég hef ekki tölur hér mörg ár aftur í tímann, en mig minnir, að bændur hafi keypt áburð á árinu 1963 fyrir 120 millj. kr., og það má ætla, að þeir kaupi áburð á árinu 1964 fyrir 150–160 millj. kr. Áburðarnotkun vex með ári hverju með aukinni ræktun, og það er þess vegna mjög nauðsynlegt, að það sé fyrir því séð, að heyið náist grænt af vellinum og að áburðarkaupin fari ekki til ónýtis með því, að heyið fari í hrakning.

Ég býst við, að einhverjir spyrji að því: Af hverju er ekki styrkur hækkaður á votheysgeymslur jafnframt? En því er til að svara, að flestir bændur munu nú hafa þegar talsvert af votheysgeymslum, og það er vitað, að það hentar ekki að fóðra í of ríkum mæli á votheyi. En um leið og styrkurinn til súgþurrkunar er aukinn, minnkar þörfin fyrir að byggja votheysgeymslur, og það má vænta þess, með því að styrkurinn er hér hækkaður svo verulega sem raun ber vitni, að allir bændur, hvort sem þeir eru efnaðir eða ekki, stuðli nú að því að koma upp súgþurrkunarkerfi og tryggja sig þannig gegn rigningu og rosa.

Samkv. 3. gr. er gert ráð fyrir hækkun á jarðræktarstyrk til þeirra jarða, sem hafa ræktun undir 25 ha., og er þessi gr. í samræmi við hitt frv., sem við vorum að ræða hér um áðan. Skv. þessari gr. hækkar jarðræktarstyrkurinn um, rúml. 1500 kr. á ha. frá því, sem verið hefur. Og er þá gert ráð fyrir, að allar jarðir, hvort sem þær eru nýbýli eða gömul býli, sem hafa komizt aftur úr, njóti svipaðs styrks í heild, þ. e. 5000–5500 kr. á ha., auk þess kostnaðar, sem af framræslunni leiðir, eins og segir á öðrum stað í frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv., það skýrir sig sjálft, það eru teknir hér aðeins fjórir þættir úr jarðræktarlagafrv. mþn., en það, sem tekið er, það er tekið á myndarlegan hátt, þannig að ræktunarstyrkurinn er verulega aukinn og styrkurinn á súgþurrkun aukinn það mikið, að bændum er kleift að koma á hjá sér súgþurrkun yfirleitt.

Nú geri ég ráð fyrir því, að ýmsir vilji segja: Hvers vegna var ekki frv. mþn., sem að verulegu leyti var byggt á frv., sem búnaðarþingsnefndin skilaði af sér, flutt hér í heilu lagi? Hvers vegna að vera að taka út úr því nokkra þætti? Hvers vegna ekki að hækka jarðræktarstyrkinn á einu ári um 30–35 millj. kr. í staðinn fyrir 18–20 millj.? Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það, en ég vil minna á, að með því að lögfesta þetta frv. og það, sem við áðan vorum að tala um, hefur verið stigið stærra skref í stuðningi við ræktun og framfarir í sveitum en nokkru sinni áður, og við þá, sem nú koma og telja, að það hefði átt að koma hvort tveggja, frv. mþn. og stuðningurinn við nýbýlin og afturúrjarðirnar, vil ég aðeins segja, að það er ekki við því að búast, að á sama árinu komi öllu meira en þetta. Og ég vil minna á, að það er ekki lengra síðan en 6 ár, að það þótti stórt og merkilegt framfaraspor að auka styrkinn til nýbýla og jarða, sem áður var bundinn við 5 ha., upp í 10 ha. Það þótti ákaflega merkilegt spor til framfara. Og þegar að því var fundið þá af þáv. stjórnarandstöðu, að ekki var gengið lengra, þá taldi þáv. landbrh. ekki eðlilegt að vera að koma með óskalista í ræktunar- eða framfaramálum landbúnaðarins, það yrði að miða við það, hvað hægt væri að gera á hverjum tíma. Og ég býst við því, að þótt fjárráðin megi teljast í sæmilegu horfi nú hjá ríkissjóði, verði eigi að síður að miða að einhverju leyti við það, sem fært þykir hverju sinni.

Frv. þetta og hitt frv., sem ég áðan ræddi um, munu kosta ríkissjóð árlega 18–20 millj., að vísu ekki gott að fullyrða, hvað þetta frv. kemur til með að kosta í rauninni, þar sem um áætlunarupphæð er að ræða, en það gæti verið 4–7 millj., en 10-20 millj. alls, sem útgjöld ríkissjóðs mundu hækka á einu ári vegna beggja þessara frv.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni þessari umr.