11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

131. mál, jarðræktarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. fór fram á það áðan í sambandi við umr. um málið, sem næst var á undan þessu á dagskránni, að menn hættu þessum eilífa samanburði á því, sem áður var, og því, sem er nú, t.d. varðandi landbúnaðinn, en sneru sér á hinn bóginn að því að ræða um það, hvað þyrfti að gera.

Ég skal verða við þessu í sambandi við þetta mál og ekki fara að ræða hér á sama hátt almennt um þessi efni og gert var í sambandi við hitt málið, sem var hér á undan, enda skiptir auðvitað mestu af öllu, hvað ætlunin er að gera til að bæta úr þeim vandkvæðum, sem landbúnaðurinn á nú við að etja. Og þá sýnir þetta frv., sem hér liggur fyrir, hvaða breytingar hæstv. ráðh. telur nauðsynlegt að gera á jarðræktarlögunum, en í þeim lögum eru ákvæði um bein framlög af hendi ríkisins til uppbyggingarinnar í sveitunum. Nú hafa menn verið að lýsa því hér yfir, þ. á m. hæstv. landbrh., að það yrði að auka verulega beinan stuðning við uppbygginguna í landbúnaðinum, og við höfum nýlega rætt frv., sem gengur í þá átt, og skal ég ekki fara að endurtaka umr, um það hér.

En hér kemur annað frv., sem fjallar um beinu framlögin til uppbyggingar í landbúnaðinum og sýnir þá, hvað hæstv. ráðh. telur eðlilegt og fært að gera í þessu. Áður en ég fer að lýsa því, sem hæstv. ráðh. telur þarna hæfilegt að gera og hægt að gera, þá vil ég benda á og undirstrika það, að 1960 var sett það ákvæði í lög á Íslandi, að jarðræktarframlagið skyldi standa óbreytt í krónutölu eins og það var þá, þótt dýrtíðin hækkaði: Þetta þýðir það, að undir stjórn hæstv. núv. landbrh. og núv. ríkisstj. hafa jarðræktarframlögin, þau sem ákveðin eru í sjálfum jarðræktarlögunum, lækkað ár frá ári. Þau hafa raunverulega lækkað ár frá ári með vaxandi dýrtíð. Um þetta er vitaskuld ekki hægt að deila, og sannast að segja datt mér ekki annað í hug en hæstv. landbrh. kæmi með ný jarðræktarlög, þegar hann kæmi með þessi málefni inn í þingið, þar sem m.a. þetta ákvæði væri afnumið og leiðréttar einnig þær stórkostlegu lækkanir, sem orðið hafa á jarðræktarframlögunum, síðan yrðu jarðræktarframlögin þar til viðbótar hækkuð, miðað við hið nýja ástand, sem orðið er varðandi stofnkostnað í búskap, og önnur þau atriði, sem við höfum verið að ræða hér undanfarna daga. Mér datt ekki annað í hug en hæstv. ráðh. mundi beita sér fyrir þessu.

En í staðinn fyrir það kemur hæstv. ráðh. nú með jarðræktarlagafrv., sem ráðgerir, að jarðræktarframlagið til allra þeirra greina, sem ekki eru teknar undir sérákvæði, skuli halda áfram að lækka með vaxandi dýrtíð, og í þessu frv., er ekki að finna annað en lagfæringu á einu tæknilegu atriði, því að það er ekki hægt að kalla það annað en lagfæringu á tæknilegu atriði, að nú skuli plógræsi koma undir jarðræktarframlög eins og önnur ræsi, og þar umfram er aðeins eitt verulegt efnisatriði, þar sem er hækkun á framlögum til súgþurrkunarkerfa. Öll önnur atriði í jarðræktarlögunum skulu standa óbreytt og menn m.a. búa áfram við það, að jarðræktarframlögin til annarra framkvæmda skuli fara fækkandi áfram með vaxandi dýrtíð.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að framsóknarmenn hafa lagt fram frv. hér í hv. d. um breyt. á jarðræktarlögunum. Það frv. er í fyrsta lagi miðað við að koma í veg fyrir, að jarðræktarframlögin geti lækkað framvegis vélrænt, þótt dýrtíð fari vaxandi, og það er gert ráð fyrir, að framlögin verði ákveðinn hundraðshluti af kostnaðarverði, eins og sjálfsagt er og eins og raunar að nokkru leyti var áður, þar sem framlögin voru hækkuð eftir vísitölu, þ.e.a.s. áður en núv. ríkisstj. beitti sér fyrir því að setja framlögin föst í krónutölu og þar með lækka þau árlega, eins og ég sagði. Það er sem sé gert ráð fyrir því að lagfæra þetta sjálfsagða atriði. En þar að auki er gert ráð fyrir því í frv. framsóknarmanna að auka verulega framlög til þeirra framkvæmda í sveitunum, sem brýnasta nauðsyn ber til að styðja. Og ég verð að segja, að mér eru það mikil vonbrigði, ef hæstv. ríkisstj. telur sér ekki fært að fallast á þær till., sem þarna eru gerðar af hendi framsóknarmanna.

Ég verð að taka það fram, að hér hefur það skeð, að hæstv. ráðh. hefur í raun og veru ekki tekið nema eitt efnisatriði upp úr þessu frv. okkar inn í sínar tillögur, en hinum atriðunum virðist hann ekki að svo komnu máli a.m.k. vilja sinna, þó að ég verði að vonast eftir því, að breyting gæti orðið á því í n. og við meðferð málsins í þinginu.

Ég ætla að rifja upp, hvernig ástatt er orðið um jarðræktarframlögin til einstakra framkvæmda og hverjar till. framsóknarmanna eru um breytingar í því efni. Ég tek fyrst þurrheyshlöður. Það er nú þannig komið eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, að framlag í þurrheyshlöður mun vera komið niður í kringum 2.3% af kostnaðarverði, en við leggjum til, að þurrheyshlöður verði studdar með 15% framlagi af kostnaðarverði. En hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir í sínu frv., að þetta verði óbreytt áfram og haldi því áfram að lækka með vaxandi dýrtíð.

Þá eru það votheyshlöðurnar. Vitanlegt er, að votheyshlöður skortir stórkostlega enn þá víðs vegar í landinu, enda sívaxandi þörf fyrir þær með aukinni ræktun. Framlagið í votheyshlöðurnar er mér tjáð að sé nú komið niður í 8.5% og hefur lækkað ár frá ári og á sýnilega enn að halda áfram að lækka, því miður. En við leggjum til, að framlag í votheyshlöður verði 25% af kostnaðarverði.

Um garðávaxtageymslur er þannig háttað, að þær eru komnar niður í 8.5%. Við leggjum til, að þær verði studdar með 15%, en hæstv. ráðh. leggur til, að framlag verði óbreytt og haldi því áfram að lækka.

Áburðargeymslur eru nú komnar niður í 16% af kostnaðarverði, en við leggjum til, að þær verði studdar með 25% framlagi, en hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því í þessu frv., að þetta verði óbreytt, haldist í krónutölu og haldi þá áfram að lækka með vaxandi dýrtíð.

Girðingar um ræktunarlönd eru nú komnar niður í 11%, en við gerum ráð fyrir, að framlögin fari í 25%, en hæstv. ráðh. ráðgerir það óbreytt í krónutölu og haldi því áfram að lækka. Framlag til súgþurrkunarkerfa er nú talið vera komið niður í 10% eða þar um kring, og við gerum ráð fyrir að hækka það í 40%, og að því er mér skilst eru till. hæstv. ráðh. miðaðar við, að framlag þetta verði frá 24–36% eftir ástæðum og miðist við verðlag í dag, og er þetta því eina stóra atriðið, sem hæstv. ráðh. tekur upp úr okkar frv. Verð ég að segja, að það finnst mér lélegri frammistaða en í því frv., sem hér var rætt á undan, því að í það frv. tók hæstv. ráðh. þó upp tvö atriði af þrem úr tilsvarandi frv. okkar, en úr jarðræktarlagafrv. okkar, sem fjallar um mjög veigamikla liði í stuðningnum við landbúnaðinn, tekur hæstv. ráðh. í raun og veru ekki upp nema einn efnislið og gengur þar þó mun skemmra.

Hæstv. ráðh. segir, að menn verði að skilja, að það sé ekki hægt að gera meira en hann stingur upp á, og hann færir þær afsakanir fram í því sambandi, að það, sem hann er hér með á ferðinni, kosti samtals um 18–20 mlllj. kr. á ári, og vegna þess, að þessar lagfæringar, sem hann leggur til í þessu frv. og í frv., sem við vorum að ræða hér á undan, kosti 18–20 millj, kr. á ári, verði endurskoðun jarðræktarlaganna að bíða. Hæstv. ráðh. lýsti því hér yfir áðan, að hún yrði þar með að bíða, það gæti ekki orðið úr því, að almenn endurskoðun á jarðræktarlögunum færi fram, vegna þess að þessi atriði, sem hann hefði valið úr, væru svona kostnaðarsöm, þau kostuðu 10–20 millj. kr. á ári, og þá verði menn að sætta sig við það, að framlögin til að gera votheyshlöður, framlögin til að gera þurrheyshlöður, framlögin til að koma upp garðávaxtageymslum og áburðargeymslum, girðingum og öðrum slíkum lífsnauðsynlegum framkvæmdum fari áfram lækkandi ár frá ári, eins og verið hefur með vaxandi dýrtíð. Lengra væri ekki hægt að ganga í því að styðja landbúnaðinn.

En ég vil segja hæstv. ráðh., að ég er honum algerlega ósammála um þetta. Ég er hissa á því, að hann skuli sætta sig við að flytja þennan málstað hér á Alþ., þegar þess er gætt t.d., að fjárlögin eru núna komin raunverulega upp í um 3000 millj., og þegar við athugum, að t.d. aðeins núna fyrir nokkrum dögum var samþ. 50 millj. kr. framlag beint úr ríkissjóði til togaranna og rúml. 40 millj. kr. framlag beint úr ríkissjóði til hraðfrystihúsanna, og var ákvarðað á nokkrum dögum að gera þetta, af því að það þótti nauðsynlegt. En eftir að hafa skoðað þessi mál í 2–3 ár, þá er allur sá stuðningur, sem hæstv. ráðh. hefur fram að færa landbúnaðinum til handa til þess að gera nýtt átak í framkvæmdum og auka stuðning við að stækka smærri búin, upp á 18–20 milljónir samtals. Meira sé ekki hægt að gera, þegar landbúnaðurinn á hlut að máli.

Nú vil ég alls ekki eiga þátt í því að gera manni getsakir, en ég get ekki stillt mig um að benda á, að þetta er í lélegu samræmi við látlausar yfirlýsingar um, að það þurfi einmitt að gera ný átök í sambandi við landbúnaðinn til þess að stækka smærri búin. Hvernig á að stækka smærri búin? Hvaða atriði eru það, sem mestu máli skipta fyrir smærri búin, til þess að þau geti stækkað? Jú, við vitum, að það eru betri lánskjör, lægri vextir. — Hæstv. ráðh. er algerlega ófáanlegur til þess að beita sér fyrir því að bæta lánskjörin, þau hafa versnað stórkostlega. — Enn fremur meiri bein framlög til lífsnauðsynlegustu framkvæmda, að leggja meira fé fram beint úr ríkissjóði til að styðja uppbygginguna á smærri búunum. Hvaða framkvæmdir eru það, sem þarf að styðja á smærri búunum? Ræktunin, — og það verður aukinn stuðningur við hana, eins og hér hefur verið rakið, — og súgþurrkunin, það er alveg rétt. En það er ekki bara ræktunin og súgþurrkunin, sem þarf að styðja. Það er engu síður alveg lífsnauðsynlegt að auka stuðninginn við votheysgerðina, við að koma upp þurrheysgeymslunum og aðrar þær framkvæmdir, sem ég taldi hér áðan. Þetta verður allt að haldast í hendur, og sannleikurinn er sá, að jafnvel þó að farið væri eftir till, framsóknarmanna um þessi efni, sem eru í jarðræktarlagafrv., sem nú liggur fyrir þessari hv. d., þá er þar um að ræða lága fjárhæð í heild samanborið við þær fjárhæðir, sem fjallað er um svo að segja daglega hér og veittar eru í alls konar skyni. Og ég verð að draga mjög í efa vilja þeirra manna til að gera ný átök í þessum efnum, sem láta sér það blæða í augum, hvort það er 10–20 millj. kr. meira eða minna á ári, sem lagt er fram í þágu landbúnaðarins, ef það gæti orðið til þess að hjálpa til að leysa þann vanda, sem nú liggur fyrir. Og ég vil leyfa mér líka að segja, að þeir menn hafa ekki neinn brennandi áhuga á því að stækka smáu búin, sem horfa á það aðgerðarlaust ár eftir ár, að jarðræktarframlagið fari lækkandi til sumra þýðingarmestu framkvæmdanna, sem þarf að sinna, til þess að smærri búin geti stækkað.

Ég vil þess vegna mjög eindregið óska eftir því, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, geri úr þessu máli raunverulega endurskoðun á jarðræktarlögunum og taki a.m.k. upp þau helztu atriði, sem eru í jarðræktarlagafrv. framsóknarmanna og ég hef hér gert grein fyrir í sambandi við þetta mál.

Það hefur verið almennt rætt um landbúnaðarmálin, og ég skal ekki fara út í almennar umr. um þau, en að lokum vil ég aðeins segja þetta um stefnu okkar framsóknarmanna í þeim málum:

Við viljum láta laga verðlagsmálin, en okkur er algerlega ljóst, að það er margt fleira, sem þarf að gera og þá fyrst og fremst til þess að styðja þá til að koma undir sig fótum, sem hafa ekki enn þá nægilega stór bú, og til þess að ýta undir frumbýlinga, að þeir geti raunverulega tekið við búskap.

Við höfum flutt hér æðimörg mál á Alþ., og ég ætla að leyfa mér að lokum að telja upp nokkur þeirra. Það er jarðræktarlagafrv., sem við höfum flutt og ég hef lýst. Frv. okkar um að breyta stofnlánadeildarlögunum og lækka vextina verulega. Enn fremur frv. um að koma á fót bústofnslánasjóði, sem láni hagfelld lán til vélakaupa og bústofnsaukningar. Enn fremur till. um að auka fjármagn veðdeildarinnar, sérstaklega til þess að hún geti sinnt í mun ríkara mæli en nú á sér stað lánveitingum í sambandi við eignaskipti á jörðum. Enn fremur eigum við hér till. í hv. Alþ. um aukningu á afurðalánum landbúnaðarins, sem við teljum lífsnauðsyn að verði sinnt, og till. um, að athugað sé um tryggingar í þágu landbúnaðarins til þess að hjálpa til að mæta áföllum, sem verða í sambandi við búskapinn. En slíkar tryggingar eru ekki lögleiddar enn sem komið er vegna bændanna, enda þótt segja megi, að hliðstæðar tryggingar séu komnar fyrir allar aðrar stéttir. Við munum líka beita okkur fyrir því að koma á löggjöf um samvinnubú með tilliti til þess, að augljóst er, að vandamál einyrkjabúskapar verður að reyna að leysa í vaxandi mæli á næstunni með aukinni samvinnu bændanna.

Fleiri mál mætti telja, en ég vil minna á þessi, og við leggjum mjög mikla áherzlu á, að jarðræktarframlagið sjálft verði aukið á þann hátt, sem við höfum lagt til í okkar frv., og við teljum það fjarstæðu, að ríkinu sé ofvaxið að standa undir slíkum framlögum.