11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

131. mál, jarðræktarlög

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið allmiklar umr. um landbúnaðarmálin undanfarna daga hér á Alþingi. Ég hef ekki tekið neinn þátt í þeim umr. og ætla mér ekki að eyða hér löngum tíma, en mig langar þó aðeins að drepa á örfá atriði í sambandi við þetta frv., sem nú er hér til umr.

Ég veit, að fátt hefur verið meira brennandi spursmál í hugum bænda hér á landi núna undanfarin ár heldur en það, hvenær lagt yrði fram nýtt jarðræktarlagafrv. á Alþ. Ég veit, að bændur hafa um fátt spurt mig meira en það, hvað ég héldi um það, hvenær slíkt frv. kæmi fram og hvaða breytingar það mundi gera á þeirra högum. Sannleikurinn er sá, að það veltur mjög á því um farsæld bændastéttarinnar, hvernig hið opinbera, ríkisvaldið, býr að starfi bænda og hvort það styður þeirra starf rausnarlega ellegar ekki.

Nú hefur þetta jarðræktarlagafrv. séð dagsins ljós. Og ég verð að segja, að þegar ég sá þetta frv., fann ég til vorkunnsemi með hæstv. landbrh., og er ég þó ekki vanur að vera mjög miskunnsamur við hann, — vorkunnsemi vegna þess, að ég er viss um, að hann hefur viljað gera miklu meira og betur en honum hefur tekizt í sambandi við þetta frv. Ég er viss um, að hann er vel minnugur þess, að það eru ekki mjög mörg ár síðan, að þegar bóndi byggði sér votheysgryfju, safnfor eða áburðarkjallara, þá borgaði jarðræktarstyrkurinn efnið í slíkar framkvæmdir. Það eru fá ár síðan þetta var þannig. Nú er jarðræktarstyrkurinn, sem bændur fá út á slíkar framkvæmdir, svo að segja einskis virði, hann er orðinn svo lítill. Og þetta á að standa óbreytt skv. þessu frv. Ég bjóst við, að þarna yrði gerð veruleg hækkun, og hefði ekki veitt af, því að þær eru mjög nauðsynlegar, þessar framkvæmdir, fyrir búnaðinn í landinu, og þess vegna hefði verið þýðingarmikið að hækka nú framlög til þessara framkvæmda í staðinn fyrir að þau standa í stað.

Ég vil þá enn fremur minnast á jarðræktarframlagið til þeirra, sem komnir eru með yfir 25 ha. tún. Ég hygg, að margir bændur, sem hafa yfir 25-35-40 ha. tún, geri ekki betur en komast sæmilega af og sumir kannske ekki það. Þeim hefði sannarlega ekki veitt af því, að það hefði eitthvað verið betur gert við þá í sambandi við ræktunina heldur en þarna er ætlazt til. Það eru 1223 kr., styrkurinn á ha., eins og það er núna og eins og það á að vera, þegar komið er yfir þetta mark. Af sérfræðingum er talið, að það þurfi 40 kg af grasfræi í ha., og kg af grasfræinu kostar um 50–60 kr. Þá sjáið þið það, að þetta er ekki nema fyrir kannske rúmlega helmingnum af því grasfræi, sem maðurinn þarf að sá í ha.

Má segja, þegar trúnaðarmenn búnaðarsambandanna fóru og tóku út jarðabætur bændanna á s.l. sumri, þá sögðust þeir eiga aldrei þessu vant að taka út það land, sem brotið hefði verið í vor, þótt í það hefði verið sáð einærum jurtum, höfrum eða grænfóðri, því að þetta væru fyrirmæli, að mér skildist, frá ríkisstj. eða landbrh., því að jarðræktarlögunum mundi verða breytt í það horf, að nú væri tekið upp á því að borga jarðræktarframlag á þessar framkvæmdir strax, sem hefur ekki verið gert að undanförnu, ekki fyrr en hefur verið búið að loka flögunum með grasfræsáningu. En ég sé ekki í þessu frv., að það sé gert ráð fyrir því, að þetta verði framkvæmt, eins og gert var ráð fyrir og eins og þessir úttektarmenn framkvæma þetta í haust um mælingarnar, sem hefði þó verið mjög eðlilegt, því að það er áreiðanlega þýðingarmikið, að bændur rækti þessar jurtir, kál og hafra og annað grænfóður, til beitar fyrir búpening á haustin og fram eftir vetri. Það er eins konar heyöflun fyrir búpeninginn og engu þýðingarminna en að rækta gras og afla heyja. En mér skilst, það kann að vera misskilningur úr mér og landbrh. leiðréttir það þá, ef þetta er misskilningur úr mér, að frv. geri ekki ráð fyrir þessu.

Mig langaði að minnast á, að það eru tvö atriði í þessu frv., þar sem um hækkun er að ræða, og ég skal viðurkenna það, að viðvíkjandi plógræsunum er þarna um nýmæli að ræða, sem er mjög gott og ég tek undir á allan hátt, og í öðru lagi er þarna um verulega hækkun að ræða til súgþurrkunarkerfa í þurrheyshlöðum. En þó verð ég að segja það, að ég gerði ráð fyrir, að þarna mundi verða betur gert en fram kemur. Ég hygg, að bónda, sem hefur 20–25 ha. ræktun, veiti ekki af að hafa heyhlöðu, sem telur 800–1000 hesta af heyi, og sú hlaða hlýtur að verða að vera 120–130 fermetrar að flatarmáli. Ég hygg, að í slíka hlöðu kosti núna ekki minna en 60–70 þús. kr. að setja upp súgþurrkunarkerfi ásamt blásara og mótor, það kosti 60–70 þús. kr. Nú má vera, að það sé hægt að fá eitthvert lán út á þetta í Búnaðarbankanum til fárra ára, en framlagið, — ég var að reyna að reikna það út áðan, ég skal játa, að ég er ekki fljótur reikningsmaður, — en mér skilst, að framlagið á slíkt súgþurrkunarkerfi, þar sem fasttengdur blásari er, verði ekki nema rúmlega 13 þús. kr. og á kerfi án fasttengds blásara verði þetta eitthvað tæpar 9 þús. kr. Mér finnst þetta ekki vera rausnarlegt framlag. Úr því að farið var nú að hreyfa þetta, sem nauðsynlegt var, hefði þurft að gera betur, því að sannleikurinn er sá, að það eru þeir bændurnir, sem verst eru settir efnahagslega, sem enn eiga eftir að koma þessum tækjum upp hjá sér, og það hefði sannarlega ekki veitt af því að styðja þá nú með ráðum og dáð til að koma þessu upp. Ég er sannfærður um, að það er hægt með rösklegu átaki hins opinbera að hjálpa bændum til að koma upp þessari tækni á fáum árum.

Við framsóknarmenn höfum flutt hér þing eftir þing þáltill. um stuðning hins opinbera við þessar framkvæmdir, en sú till. hefur ekki fundið neina náð fyrir augum stjórnarinnar. En þetta er eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við framleiðni í landbúnaðinum. Það er, að bændur geti verkað þau hey eða það gras, sem sprettur af ræktuninni. Það er gífurlega mikill kostnaður við að rækta jörðina, og það er hörmulegt til þess að vita, að þegar þekking og tækni eru fyrir hendi til að bjarga verðmætunum, þá skuli ekki verða gengið í það rösklega af hálfu hins opinbera að hjálpa til við það, heldur láta árlega grotna niður svo og svo mikið vegna óþurrka af heyjum af hinu nýræktaða landi. Við getum áreiðanlega gert þetta, ef samstaða væri um það.

Um votheysgerð er það að segja, að frá mínu sjónarmiði er hún alveg jafnþýðingarmikil og súgþurrkun, og hvort tveggja þarf að fara saman. Ég hygg, að votheysturn, sem tekur 8 kýrfóður, kosti núna uppkominn um 60–70 þús. kr., en auk þess þarf að kaupa tæki til þess að koma grasinu í turninn. Þegar hann er orðinn 8–10 m hár, þarf blásara og allkraftmikið afl til að knýja blásarann. Kostar mikið fé að kaupa þetta, svo að ég hygg, að það sé ekki hægt að koma upp votheysgeymslu fyrir 8 kýrfóður fyrir minna en nokkuð á annað hundrað þús. kr. Og ég verð að segja það, að mér bregður í brún, að það skuli ekki hafa verið gert neitt til að bæta úr hvað þetta snertir. Framlagið til votheysgeymslnanna á að vera eins og það hefur verið undanfarið, síðan löngu fyrir gengisfellinguna miklu, 5.50 kr. á rúmmetra, sem er að vísu margfaldað með vísitölu 611, en allir sjá, að þetta er ekki nema smáupphæð og þetta getur ekki gengið að mínu áliti. Það verður að koma lagfæring á þessu. Ég vildi fara fram á það við hæstv. landbrh., að hann gerði nú sitt ýtrasta til þess, meðan málið er hér í þinginu, að leiðréttingar fengjust á þessu, og ég vil taka það fram, að við framsóknarmenn munum bera fram brtt. um þetta atriði og ýmis önnur í sambandi við þetta frv.