18.02.1964
Neðri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

131. mál, jarðræktarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ekkert gaman með hæstv. landbrh. Hann heldur enn áfram að segja skröksöguna sína um það, að lánasjóðir landbúnaðarins hafi verið gjaldþrota, þegar núv. stjórn tók við. Þetta er auðvitað atriði, sem ekki á að þurfa að deila um, því að reikningar Búnaðarbankans og sjóðanna eru birtir ár hvert, og þeir eru meira að segja prentaðir í Stjórnartíðindunum. Það er hægt að lesa þá í Stjórnartíðindunum, sem eru hér á skrifstofunni. Reikningar ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sýna, að í árslok 1959 var samanlagður höfuðstóll sjóðanna, þ.e.a.s. hreinar eignir, 100 998 524.06 kr. Frá þessu er rétt að draga yfirfærslugjaldið, sem þá var í gildi, af þeim hluta af skuldum sjóðanna, sem reiknaðar voru í erlendri mynt. Og þegar það er gert, eru samt eftir af hinni hreinu eign sjóðanna eða höfuðstólnum um þessi áramót, 1959–1960, rúmar 40 millj. samtals, eins og ég sagði áðan. Nákvæmlega eru það 41636 506.26 kr. Þetta var hrein eign sjóðanna samanlögð í árslok 1959, samkv. reikningum Búnaðarbankans. Svo kom núv. stjórn til skjalanna, og eftir að hún var búin að ráðskast hér í eitt ár, 1960, og framkvæma sína stórkostlegu gengislækkun, var þó hagur þessara sjóða ekki verri en það í árslok 1960, að þegar þeir voru teknir báðir saman, var ekki eignahallinn hjá þeim nema tæplega 2½ millj. kr. Hann var nú ekki lakari en þetta eftir allt, sem yfir þá hafði dunið af völdum þessarar ríkisstj. á hennar fyrsta ári. Um þessi mál á ekki að þurfa að deila, eins og ég sagði. Reikningar sjóðanna eru birtir opinberlega, og þar er hægt að sjá þetta, hvað sem hæstv. ráðh. segir um einhverjar skýrslur, sem sýni allt annað.