18.02.1964
Neðri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

131. mál, jarðræktarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. á í vök að verjast út af gjaldþrotinu. Það verður erfitt að sanna þetta gjaldþrot. En hvað ætli margir viðreisnarhöfðingjar hafi nú gefið sig upp sem gjaldþrota, sem áttu 40 millj. umfram skuldir í seinni tíð? Ég er hræddur um, að þeir séu ekki margir. En þeim er alveg lífsnauðsyn, viðreisnarmönnum, að reyna að koma þessu inn í höfuðið á fólki, að þeir hafi verið gjaldþrota, sjóðirnir. Hann sagði líka annað í gær, gengið hafi verið fellt 1958. Ég veit ekki til þess, að skráning á erlendum gjaldeyri hafi nokkru sinni verið breytt á árinu 1958. Það var lagt á yfirfærslugjald, en það er ekki gengisbreyting. Hvað ætli það sé á móti öllum sölusköttunum hjá þessari stjórn? Hæstv. ráðh. lítur víst svo á, að ef einhverjir skattar eða álögur eða innflutningsgjöld valda verðhækkun á vörum, þá sé það gengislækkun. Við skulum láta það heita svo. Hvað hefur þá núv. stjórn fellt oft gengið? Það fer fram skráning á verðlagi í landinu einu sinni í mánuði allt árið. Mér sýnist þá, að viðreisnarstjórnin sé búin að fella gengið 48 sinnum á 4 árum. Það er hvorki meira né minna.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið lánað meira nú til landbúnaðarins í krónum en áður, og hann nefndi tölur. En ég tók eftir því, að hann nefndi tölurnar ekki nema fyrir 3 ár. Hann nefndi árin 1961, 1962 og 1963. Af hverju nefndi hann ekki hin árin? Ekki vitum við neitt um þau, nema þá að fletta því upp. Það er aumi samanburðurinn.

Hæstv. ráðh. segir, að styrkur til íbúðarhúsa hafi verið hækkaður, og það er rétt. Mig minnir, að hann væri 25 þús. kr., þegar stjórnin tók við. Og hann mun vera kominn upp í 50–60 þús. núna, — ráðgerður 60 þús., hann er víst ekki kominn nema upp í 50. En þetta er 25 þús. kr. hækkun. Það er rétt, að lánin munu hafa verið hækkuð úr 75 þús. kr. upp í 150. Við skulum segja, að þarna sé 100 þús. kr. hækkun. En hvað hafa íbúðarhúsin hækkað hjá bændunum á meðan? Hvað græddu þeir á viðreisninni að fá þetta í staðinn fyrir verðhækkunina? Samkv. skýrslum hagstofunnar kostar íbúðarhús af lítilli gerð, sem nú er byggt í sveitum, um 675 þús. kr, og hefur hækkað um þessi 50%, sem hæstv. ráðh. talaði um í gær og er rétt. M.ö.o.: verðlagið á húsinu hefur þú hækkað nokkuð yfir 200 þús. kr. Hækkunin á lánunum og hækkunin á styrknum er ekki nálægt því á móti hækkuninni á íbúðarhúsinu.

Ég ætla að endurtaka það, sem ég sagði í gær, að það er ekkert vit í því að fara að byrja búskap, eins og nú standa sakir. Þetta þykir hæstv. ráðh. hart og segir, að með þessu sé verið að beita áróðri gegn sveitunum, hættulegum áróðri, framsóknarmenn séu að spilla fyrir sveitunum, spilla fyrir landbúnaðinum, að segja hlutina svona. Hvað gera bændurnir sjálfir? Hvað hefur Stéttarsambandið gert? Hvað hefur búnaðarþing gert? Hvað hafa bændafundir um allt land gert? Ég held, að þeir hafi sagt frá ástandinu eins og það er. Eru nú bændurnir farnir að beita áróðri gegn sjálfum sér? Það er alveg hroðalegt að heyra þetta, þeir skuli segja sömu hlutina og við. Þeir eru þá að beita áróðri gegn sér, vinna gegn sveitunum, tæma sveitirnar. Þetta eru bændurnir sjálfir að gera. Það er trúleg saga þetta! Hitt skil ég vel, að hæstv. ríkisstj. kæmi betur, að það væri þagað yfir þessu og væri ekkert verið að segja frá því, hvernig ástatt er orðið fyrir þeim, sem hugsa til að fara að hefja búskap í sveit. Annars er þetta ekki nema reikningsdæmi, hvort það er betra að búa í sveit núna en var t.d. fyrir 5 árum.

Nú liggur hér fyrir frv., þar sem m.a. er lagt til, að hækkaður verði styrkur allt upp í 25 ha. af ræktuðu landi. Ég lít þannig á, að þetta sé þá hugmyndin, að bændur geti haft allt að því 25 ha. tún og þá að sjálfsögðu bústofn í samræmi við það. Slíkur bóndi þyrfti þá t.d. að vera með 15 kýr og í kringum 200 fjár, ef það á að vera í samræmi við þetta tún. Og ef bóndi ætlar að fara að búa í sveit, verður hann að gera sér grein fyrir, hvað þetta muni kosta. Það er óhjákvæmilegt, ef við viljum vita, hvort það er betra að búa núna en var fyrir 5 árum, þá verðum við líka að setja dæmið upp eins og það var þá. Samkv. skýrslum, sem fyrir liggja og ekki eru vefengdar, mundi þetta 15 kúa fjós kosta um 360 þús. kr., 200 kinda fjárhús með tilheyrandi fóður- og áburðargeymslum um 260 þús. kr. Áhaldahús þarf á sveitabæ, ekki má láta vélarnar standa úti. Það er lágt reiknað að segja, að það kosti um 90 þús. eftir þeim upplýsingum að dæma, sem ég fékk frá Teiknistofu landbúnaðarins. Svo eru það vélarnar. Það er útilokað að fá viðunandi vélar á sveitaheimili fyrir minna en um 280 þús. núna, þar sem traktorinn einn með sláttuvél kostar upp undir 110—120 þús. kr., og er þá engin bifreið, enginn jeppi talinn þar með. En það þarf meira. Það þarf sjálfa ræktunina. Og við skulum hugsa okkur, að ríkið væri farið að rækta helming, bera kostnaðinn að hálfu. Hvað mundi nú 25 ha. ræktun kosta? Eftir því sem mér er tjáð af landnámsstjóra, kostar núna mjög nálægt 13 þús. kr. að rækta ha., áætlað fyrir árið 1963. Hálfur kostnaðurinn við að rækta 25 ha. yrði þá um 160 þús. kr. Svo er eftir bústofninn, þessar 15 kýr og 200 kindur, og eftir því sem ég get bezt reiknað og fengið upplýsingar um, er þetta ekki undir 270 þús. kr. Þetta er þá stofnkostnaðurinn fyrir unga manninn, sem langar til að fara að búa í sveit, eða til samans 1 millj. 420 þús., og er þá íbúðarhúsið ekki talið með. Það er glæsilegt, — eða hitt þó heldur. En þetta hefði kostað fyrir 5 árum, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, um 900 þús. Hækkunin ein losar hálfa milljón.

Hvað reikna á í vexti af þessum stofnkostnaði, skal ég ekkert segja um. En jafnvel þó að maður reiknaði ekki nema 6½%, eins og nú er á landbúnaðarlánunum, þó að maður reiknaði ekki meira, eru vextirnir einir af stofnkostnaðinum yfir 90 þús. á ári. Hvernig sem þetta er reiknað, er það vonlaust fyrir nokkurn mann að ætla að láta bú bera sig með þessum stofnkostnaði og þeim lánakjörum, sem bændur hafa nú, þegar eitt sveitabú — þó ekki stærra en þetta samsvarar, 25 ha. af landi og tilheyrandi bústofn með því, kostar með íbúðarhúsinu a.m.k. um 2 millj. kr. Og þá kemur spurningin: Hvar á bóndinn, t.d. ungur maður, sparsamur og myndarmaður að taka eigið framlag í þetta bú? Hvar á hann að taka það? Við skulum segja, að hann fái öll þau lán, sem nú er hægt að fá. Mér telst svo til, að það sé innan við hálfa millj., sem hann geti fengið lánað. Hann fær ekkert út á bústofninn. Hann fær einar 30 þús. út á allar vélarnar sínar, þ.e. út á einn traktor. Og eftir því sem ég veit bezt, geta þessi lán ekki orðið mikið yfir hálfa millj. Hvaðan á þá hitt að koma? Hvaðan á milljónin að koma? Frá manninum sjálfum víst! Og þá er eftir íbúðarhúsið, en í það verður hann að leggja frá sjálfum sér a.m.k. 400 þús. Það þarf ekki að reikna dæmið lengra, það er vonlaust að reka bú með þessum kjörum. Það er ekki áróður gegn sveitunum, þegar barizt er fyrir því, að bændastéttin í landinu fái bætt þessi kjör. Og út af því ákvæði frv., að styrkurinn skuli vera jafn út á ræktunina, allt upp í 25 ha., hefði ég talið hollara að hafa styrkinn meiri til fyrstu 10–15 ha., svo að það væru meiri líkur til þess, að bóndinn geti einhvern tíma komizt upp í þetta mark, því að það er ekkert gagn í að fá styrk upp í 25 ha., ef maðurinn hefur ekki fjárhagslega möguleika til að rækta 10. (Gripið fram í.) Ja, það getur verið, að viðreisnin meini það, hlaupi yfir þessar 10 og hafi það svo aldrei nema 15.