02.03.1964
Neðri deild: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

131. mál, jarðræktarlög

Matthías Ingibergsson:

Herra forseti. Það hefur komið í minn hlut að hafa framsögu fyrir brtt. og nál. minni hl. landbn., þeirra Ágústs Þorvaldssonar og Björns Pálssonar, vegna fjarveru Ágústs Þorvaldssonar um stundarsakir.

Eins og frsm. meiri hl. landbn. gat hér um áðan, eru það nokkrar brtt., sem hér eru bornar fram. Þær brtt. eru á þskj. 309, og nál. minni hl., sem er á þskj. 312, er að vísu undirritað eingöngu af Ágústi Þorvaldssyni, en það er vegna brottfarar Björns Pálssonar, er frá þessu var gengið, en það er sameiginlegt álit þeirra beggja engu að síður.

Frv., eins og það hefur verið borið hér fram, er að áliti minni hl. til bóta, en hins vegar lítur hann svo á, að það gangi allt of skammt. Í rauninni hefði þurft að leggja fram frv. til nýrra jarðræktarlaga, sem hefðu byggzt á heildarendurskoðun þeirra. En að þessu sinni er lagt fram frv. til breyt á jarðræktarlögunum og teknir þar út úr nokkrir liðir þeirra laga og gerðar till. um breyt. á þeim.

Í þessu frv. er í rauninni ekki um nema eitt nýmæli að ræða, það, sem fjallar um plógræsi. Miklar vonir eru bundnar við þessa nýju tækni, og vonandi munu þær rætast, en hins vegar er margt annað í sambandi við ræktun og skipulagningartækni þeirra mála, sem gjarnan hefði mátt koma að. Í sambandi við framlög til ræktunar veldur það miklum erfiðleikum, að þau eru bundin fastri krónutölu, en hins vegar vex kostnaðurinn stöðugt vegna verðbólgunnar, og þessi framlög greiða því sífellt minni hluta kostnaðarins, eftir því sem tíminn líður og verðbólgan eykst.

Það er skoðun minni hl. landbn., að miklu heilbrigðara sé að koma þessu þannig fyrir, að framlögin verði ekki bundin tiltekinni krónutölu, heldur við tiltekinn hundraðshluta af kostnaði, eins og hann er áætlaður og útreiknaður af sérfræðingum landbúnaðarins. Þessi stöðuga rýrnun á framlögunum vegna dýrtíðarinnar hefur ekki komið að verulegri sök í sambandi við túnræktina, vegna þess að ha.-fjöldi hefur verið aukinn, fyrst úr 10 ha. upp í 15 og síðan úr 15 ha. upp í 25, og er það til mikilla bóta. En að því er varðar annað, er fylgir jarðrækt og nýtingu fóðursins, sem jörðin gefur af sér, eru ákvæði frv. ófullnægjandi. Þar er einkum um að ræða byggingar, girðingar, geymslur, bæði votheys, garðávaxta, og svo súgþurrkunarkerfin, safnþrær og áburðargeymslur. Í frv. er veruleg aukning á framlögum til súgþurrkunarkerfanna, og er það mikið til bóta, enda þótt það gangi of skammt.

Í sambandi við þessar till. um það, hver framlögin skuli vera, kom það fram hjá frsm., að það væri æskilegt, að þau gætu verið hærri, en því miður væri ekki hægt að fá allt, sem menn óskuðu sér, og meira en þetta væri ekki hægt að fá. Þetta heyrist oft í sambandi við framlög hins opinbera til verklegra framkvæmda, en ég held, að það sé nokkuð erfitt fyrir aðra en þá sérfræðinga að kveða upp úr um það, hvað sé hægt í þessum efnum, að þarna sé þröskuldurinn og markið, lengra verði ekki farið og við þetta verði að binda sig. Ég hef a.m.k. ekki heyrt nein rök um það, sem frambærileg eru, að þessar tölur séu það eina, sem hægt er, og ekki meira. Hafi Alþ. á sínum tíma komið sér saman um, að framlögin skyldu greiða svo og svo mikinn hluta af kostnaði við ræktun, þá þætti mér ekki óeðlilegt, að sá hundraðshluti væri a.m.k. ekki lækkaður. En miðað við það, að landbúnaðurinn þarf stöðugt að skila meiri afurðum til þjóðfélagsins, fjölbreyttari, bæði vegna stöðugrar og mikillar fólksfjölgunar og vegna aukinna krafna fólksins og fjölbreytni í mataræði, þá þarf hann stöðugt meiri tækni í sína þjónustu og meiri fjárfestingu. Og öll sú tækni kemur því aðeins að notum, að jörðin sé ræktuð og tæknilegt skipulag í því sambandi sé sem fullkomnast. Þess vegna hlýtur krafan í dag að vera sú, að framlög til þessara mála minnki ekki miðað við hundraðshluta kostnaðarins, heldur a.m.k. standi í stað, en þó fremur aukist.

Með hverju ári sem líður vex mjög þörfin fyrir leiðbeiningarstörf kunnáttumanna í hin um ýmsu greinum landbúnaðarins. Búnaðarsamböndin, sem nú bera verulegan kostnað í þessu sambandi við störf héraðsráðunauta, bæði hluta kaups þeirra og ferðakostnaðar, eru ekki fær um að standa undir þeim útgjöldum, hvað þá að auka þau með fjölgun ráðunauta, sem þó væri hin mesta þörf. Minni hl. telur nauðsynlegt að taka tillit til þessa ástands og leggur til, að hækkaður verði hluti ríkisins af kostnaði við laun og ferðir héraðsráðunauta. Það eru sífellt auknar kröfur í landbúnaðinum um að auka vísindalegar athuganir, leiðbeiningar sérfróðra manna, og það er spor aftur á bak, ef ekki er hægt að mæta bændunum í þessu tilliti og styðja ráðunautastörfin meira en nú er. Á því er mikil nauðsyn, að verkleg þekking, vísindaleg þekking á verklegri tæki og rannsóknir á jarðvegi og rannsóknir á fóðurgildi og auknu fóðurgildi þess grass, sem við getum ræktað hér með góðu móti, komi landbúnaðinum til hagsbóta, og það verður aðeins með því móti, að ráðunautastörfin verði ekki minnkuð frá því, sem nú er, heldur aukin. En eins og fjárhagsafkomu búnaðarsambandanna er háttað, er útilokað, að þau taki þetta á sig umfram það, sem þau gera nú. Þvert á móti þarf að styðja þau við þessi atriði eftir föngum, og telur minni hl. landbn. nauðsynlegt að taka tillit til þessa og að hluti ríkisins af kostnaði við laun og ferðir héraðsráðunauta verði aukinn.

Sjálfsagt er að viðurkenna, að hið nýja framlag, sem með frv. er ákveðið til plógræsa, er þýðingarmikið og mun hjálpa verulega til við þurrkun landsins, en þetta þarf að ganga miklu lengra, því að það er mjög áríðandi, að þurrkun mýrlendisins gangi sem hraðast og verði sem víðtækust vegna mjög aukinnar þarfar á auknu beitilandi. Ekki er með frv. gert ráð fyrir hækkuðu framlagi til annarrar framræslu en plógræsanna, en þau eiga að fá, að því er virðist, um 60% af kostnaði. Minni hl. telur, að framlag til hvers konar framræslu og annarra framkvæmda, sem framlagsskyldar eru, eigi að verða ákveðinn hluti af kostnaðinum, eins og ég hef áður getið um, og sé kostnaður við hverja tegund framkvæmdanna árlega metinn af sérfræðingum landbúnaðarins, og ætti það að tryggja það, að ríkisstj. geti gert áætlanir, sem hún þarf að gera hvað þessu viðvíkur í sambandi við útgjöld ríkissjóðs. Lagt er til, að framlagið til framræslu, bæði opinna skurða og hvers konar lokaðra ræsa, verði 75% af kostnaði.

Þá vill minni hl., að framlag til frumvinnslu lands til túnræktar verði hækkað, og leggur til, að það verði 25% af kostnaði, en nú mun þetta nema um 10%, og að það verði látið ná einnig til frumvinnslu vegna grænfóðurs og kornræktar, því að slík fóðuröflun er jafnþýðingarmikil og taðan.

Án girðingar kemur ræktunin ekki að gagni, en slíkar framkvæmdir eru kostnaðarsamar, og mun núverandi framlag til þeirra ekki vera nema um 11% af verði girðinganna. Minni hl. leggur til, að þetta framlag hækki og verði 25%.

Framlag þurrheyshlöðubygginga, sem eru mjög dýrar framkvæmdir, er svo lágt, að litlu máli skiptir fyrir þá, sem slíkar framkvæmdir gera, hvort þeir fá það eða ekki, en það mun vera sem næst 2.3% af kostnaði, í till. minni hl. er gert ráð fyrir, að það verði 15%.

Bændur hafa mjög verið hvattir til að koma upp votheysgeymslum til að auka öryggi í heyverkuninni. Þær hvatningar stafa m.a. af okkar ótrygga veðurfari, og þarf ekki að lýsa því hér. Framlag til þeirra er mjög lágt, eða um 8.5% af kostnaðarverði. Er í till minni hl. gert ráð fyrir allríflegu framlagi, 25% af kostnaði, og mætti þá gera ráð fyrir örum framkvæmdum af þessu tagi, en aukin votheysgerð er mjög aðkallandi og þýðingarmikill þáttur til að efla afkomu bændanna.

Þá leggur minni hl. einnig til að hækka verulega framlag til áburðargeymslna, fyrir safnþrær, áburðarhús, haugstæði og kjallara, og það verði 25% af kostnaðarverði slíkra bygginga, enn fremur, að framlag til garðávaxtageymslna, sem nú mun vera um 8.5%, verði 15%.

Í frv. er framlag til súgþurrkunarinnar hækkað allmikið, eins og ég hef áður getið um, og er það góð ráðstöfun, svo langt sem hún nær. Minni hl. vill þó ganga lengra og hafa þetta ákveðinn hl. af kostnaði og leggur til, að það verði um 40%.

Eins og ég gat um í upphafi, er margt í þessu frv., sem er til bóta, og reyndar er það allt til bóta að dómi minni hl. landbn., en hins vegar gangi það allt of skammt, bæði að því leyti, að þurft hefði að taka heildarendurskoðun jarðræktarlaganna fyrir nú, það hefur dregizt of lengi og er mál til komið, og enn fremur, að þau atriði, sem hér hafa þó verið tekin fyrir, gangi of skammt. Er það von minni hl., að hv. alþm. geti fallizt á það, að ekki beri að hverfa frá því, að framlögin greiði a.m.k. þann hundraðshluta af kostnaðarverði, sem áður var greiddur, eða þegar jarðræktarlögin voru upphaflega sett, og reyndar stærri af þeim ástæðum, sem ég hef áður greint.