12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

131. mál, jarðræktarlög

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrst vil ég segja lítils háttar út af því, sem hæstv. ráðh. endaði sitt mál ú. Mér þykir sú fullyrðing hans, að með þessu frv. sé stígið stærra skref en nokkru sinni hafi verið gert í ræktunarmálum landsins, síðan jarðræktarlögin voru sett, álíka hæpin og sú fullyrðing hans áðan, að það hafi verið meira atvinnuleysi í þorpum víða úti um land á tímum vinstri stjórnarinnar heldur en nú. Og ég veit ekki betur en þegar sett voru lög um almannatryggingar 1946, var landinu skipt í verðlagssvæði, vegna þess að okkur, sem bjuggum úti um land, var ekki treyst til þess að kaupa okkur jafndýra tryggingu og Reykvíkingum, og þetta lagaðist ekki fyrr en á tímabili vinstri stjórnarinnar. Þá var tekjujöfnuður landsmanna, okkar úti um land og Reykvíkinga, jafnaður þannig, að þá fyrst þótti Alþingi fært að leggja á okkur að kaupa jafndýra tryggingu. Og ég veit ekki betur en þetta sé staðfest með opinberum, öruggum tölum.

En það er erfitt að gera sér grein fyrir því í fljótu bragði, hversu stórt hvert skref er stigið fram á við. Það er ekki hægt að miða við krónufjöldann, vegna þess að þeirra gildi hefur svo mjög breytzt. En það er ekki ástæða til að vera mikið að þrefa um þetta. Það er rétt, að hér er verið að stíga spor í rétta átt. Hins vegar fannst mér lítilvæg þau rök, sem ráðh. bar fram fyrir því, að það væri ekki ljóst, hvort nauðsyn bæri til að hækka framlagið fyrir votheyshlöður, vegna þess, sagði hann, að margir bændur hafa vothey. Ef votheysgerðin skyldi nú vera á svo háu stigi í landinu, að enginn bóndi hefði tilhneigingu til að bæta þar við, þá mundi það ekki kosta ríkissjóð nein útgjöld, þó að þetta framlag væri hækkað, það kæmi ekki til útborgunar. Hins vegar veit ég ekki betur en Hagstofa Íslands gefi enn út búnaðarskýrslur. Hún hefur gert það fram undir þennan dag, og þar hefur verið getið um, hve mikill heyfengur væri í hverjum hreppi, hvað mikið af því væri þurrhey og hve mikið vothey. Og ef menn vildu glugga í þetta, gætu þeir gert sér dálitla hugmynd um það, á hvaða stigi votheysskapur í landinu er. Og ég er alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, að nokkuð af þeim heyfeng, sem bætist við, þegar hæstv. ráðh. hefur hjálpað bændastéttinni til að koma sinni túnstærð upp í 25 ha., þessum 3800, sem eru þar innan við, langt innan við, verður verkað sem vothey. Þó að ræktunin sé undirstaða búskaparins, þá er hún ekki nóg. Hún gefur ekki af sér peninga hjá bóndanum, fyrr en búið er að byggja yfir heyfenginn og yfir bústofninn, sem á heyfengnum á að lifa.

Það er sambandið milli þessara mála og verðlagsmálanna og efnahagsmálanna í heild, sem ég tel að sérstök ástæða sé til að athuga. Við vitum, að það er reynt að miða verðlag landbúnaðarafurða við framleiðslukostnaðinn, og því meiri sem stofnkostnaður bændanna er við að koma sínu búi á fót, því hærra verður verðlagið. Ég er alveg sannfærður um, að það öngþveiti, sem ríkir nú í verðlagsmálum og efnahagsmálum yfirleitt, verður ekki lagað öðruvísi en þannig, að það verði lagður hemill á stofnkostnað og rekstrarkostnað. Það þarf auðvitað að gera margar, margs konar og margvíslegar ráðstafanir til þess, en þetta stendur í beinum og órjúfandi tengslum við það, hvern þátt ríkið tekur í ræktunarkostnaði og uppbyggingarkostnaði á jörðum, þannig að hækkað jarðræktarframlag gerir minni stofnkostnað hjá bóndanum við að koma sínu búi upp. Og þess vegna hygg ég, að það sé alls ekki hið ósnjallasta ráð í meðferð opinberra fjármuna til þess að hafa hemil á þróun verðlagsmálanna í landinu að leggja lið á þessu sviði.

Ég held, að það muni lengst af vera talið svo, að setning jarðræktarlaganna 1923 og jafnvel það, sem samkv. þeim og öðrum slíkum lögum var greitt til landnáms á Íslandi á kreppuárunum eftir 1930, verði talið meira afrek en það, sem greitt verður eftir jarðræktarlögunum næsta ár, enda þótt þessar breytingar verði samþykktar, sem þær væntanlega verða. Það mun enginn vera svo tregur, að hann greiði atkv. á móti þeim, skilst mér.

Það hafa, eins og hæstv. ráðh. gat um, ýmsir bændur gefizt upp við búskap. Það eru því miður ekki eingöngu bændur á smáum jörðum. En samt er það nú þannig, hefur mér virzt og sýnist af því, sem ég hef séð og ég hef heyrt stéttarbræður mína segja, að vandamálið er nú ekki fyrst og fremst það, að þeir, sem búa í dag, hafi kannske ekki einhver ráð með það að búa áfram án þess að flosna upp. Vandinn er sá, að það getur yfirleitt enginn maður byrjað búskap undir venjulegum kringumstæðum, vegna þess að stofnkostnaðurinn, byrjunarkostnaðurinn er orðinn svo gífurlegur, og það er alveg sérstaklega á því sviði, sem verður að mæta vandanum.

Með þessu frv. er vitanlega stigið spor í rétta átt, en það er ekki nema eitt spor af mörgum, sem stíga verður til þess að rétta þá hluti.