02.04.1964
Efri deild: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

131. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég er sammála hv. frsm. meiri hl. um það, að jarðræktin er undirstaða velmegunar bændastéttarinnar og búskaparins almennt í landinu. Um það geri ég ekki ráð fyrir að við þurfum neitt að deila, því að það er okkur báðum ljóst. En sú löggjöf, sem við ræðum hér nú, jarðræktarlögin, er frá ríkisins hálfu og Alþingis hálfu sá grundvöllur, sem bezt hefur stutt að þessum almennu velferðarmálum, sem hv. 8. landsk. þm. drap hér á. Og það eru áratugir síðan Alþingi var það víðsýnt, að það setti sérstök lög með tilliti til þessa, og hafa þau jafnan verið endurskoðuð með tilliti til þeirra breyttu tíma og breyttu þjóðfélagshátta, sem hafa verið til staðar hverju sinni. Og ég efast um, síðan jarðræktarlög öðluðust fyrst gildi hér á landi, að jafnmikil kyrrstaða hafi verið á greiðslum samkv. þeirri löggjöf, miðað við dýrtíðaraukningu í landinu, eins og verið hefur nú hin síðari ár. Þess vegna er það, að mér finnst sá þáttur, sem hér er tekinn út úr þeirri löggjöf, engan veginn fullnægja þeirri þörf, sem bændastéttin hefur fyrir heildarendurskoðun á löggjöfinni, og er ég ekki á þann hátt að rýra neitt þau fáu atriði, sem hér eru tekin. Þeim eru að vísu gerð góð skil, en þau eru engan veginn fullnægjandi, þegar á málið er lítið í heild, og mun ég nánar koma að því síðar.

Ég vil leyfa mér að gera hér grein fyrir till. okkar, sem urðum í minni hl. í n. Það er hv. 4. þm. Austf. ásamt mér. Eins og fram kemur á þskj. 412, flytjum við allmargar brtt., við þetta frv., og er á þann hátt reynt að bæta úr því brýnasta, sem þarf að breyta varðandi jarðræktarlögin nú í dag.

1. brtt. okkar er um það, að ríkið greiði 2/3 hluta launa héraðsráðunauta og búnaðarsamböndin 1/3, í stað þess að ríkið greiðir helming launa nú. Auk þess leggjum við til, að ferðakostnaður, sem ekki hefur verið tekinn neinn þáttur í af hálfu ríkisins að undanförnu, sæti sömu hlutföllum og sama kostnaði milli ríkis og búnaðarsambanda og laun héraðsráðunauta. Hér er um mikið hagsmunamál fyrir búnaðarsamböndin í landinu að ræða, geysimikið hagsmunamál, vegna þess að með þessum hækkaða kostnaði, sem verið hefur hin síðari ár, bæði á launum og öðru, hafa þær tekjur, sem búnaðarsamböndin hafa jafnan yfir að ráða, orðið miklu minna virði en áður var og erfitt að afla tekna í hlutfalli við þær greiðslur, sem samböndin þurfa að inna af hendi. Þessi mál eru fyrir löngu komin á dagskrá meðal búnaðarsambanda, Búnaðarfélags Íslands og er m.a. farið fram á þessi hlutföll í því frv., sem búnaðarþing sendi til hæstv. ríkisstj. fyrir á þriðja ári. En það frv. eða annað því líkt hefur ekki séð dagsins ljós hér í sölum hv. Alþingis enn þá, og sætir það nokkurri furðu. Það er vitað mál, að eins og vísindastarfsemi landbúnaðarins er háttað nú og tilraunastarfsemi, er útilokað fyrir bændur landsins að vera í nánu sambandi við það, sem þar fer fram, án þess að þar séu lífrænir milliliðir. Það eru héraðsráðunautarnir, sem jafnan eiga að fylgjast með þeim nýjungum, sem þar eiga sér stað, og koma á framfæri við bændurna og vinna þannig að aukinni þekkingu þeirra og stuðla þar með að bættum skilyrðum landbúnaðarins í þjóðfélaginu. Þess vegna tel ég það mjög aðkallandi mál, að ríkið taki meiri þátt í launum héraðsráðunauta en verið hefur og það greiði 2/3 hluta, bæði af launum ráðunautanna og einnig af ferðakostnaði þeirra. En ferðakostnaður hlýtur að fara stórhækkandi sakir mikillar hækkunar á benzíni, bifreiðum og varahlutum til þeirra.

Þá er 2. brtt. okkar. Hún er við 11. gr. jarðræktarl., en það er sá kafli jarðræktarl., sem fjallar um hin almennu framlög ríkisins til landbúnaðarframkvæmda, bæði ræktunar og annarrar uppbyggingar í landinu. Og ber þá fyrst að líta á framræsluna. Það var erfitt, áður en tæknin kom til sögunnar, að sinna þeim verkefnum í jafnstórum stíl og þurfti til þess að skapa sjálfri ræktuninni grundvallarskilyrði. Því var það, að alltaf á undanförnum árum hefur ríkið tekið stærri og stærri hlut í þeim kostnaði, sem framræslan hefur kostað. Frá upphafi mun þetta hafa verið þriðjungur kostnaðar, en er nú 65%, og förum við fram á, að þessi þátttaka ríkisins verði ¾ af kostnaði við framræslu lands, og á það jafnt við, hvort heldur er um handgrafna skurði eða vélar eða plógar eða hvaða önnur tæki sem notuð eru til þess að þurrka landið. En það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að ný tækni hefur komið þarna til sögunnar, og ný tækni getur enn þá komið þarna til sögunnar, sem við þekkjum ekki nú, og mundi hún að sjálfsögðu sæta sömu kjörum og þessi og vera kostuð að 75% af því opinbera. Það er líka réttlætanlegt, að ríkið taki meiri þátt í framræslunni en öðru því, er lýtur að jarðræktinni, vegna þess að framræslan kemur sjaldnast þeim til góða, sem framkvæma hana, heldur er hún meira gerð fyrir þá, sem landið erfa í framtíðinni, og þegar um dýrar framkvæmdir er að ræða, sem borga sig ekki nema á löngum tíma, er það vitanlega alls þjóðfélagsins að reyna að standa sem mest straum af þeim framkvæmdum. Á þann hátt er betur hægt fyrir bændur landsins að gegna skyldu sinni og koma til móts við aðra þegna þjóðfélagsins með hagkvæmari vörur en ella væri, heldur en ef afurðaverðið eitt þyrfti að bera allan þennan kostnað uppi samstundis. Því er það, að við leggjum til, að þetta framlag verði nokkuð hækkað frá því, sem verið hefur, eða upp í 75%.

Þá er það hin almenna jarðrækt. Við leggjum til, að hún verði kostuð að ¼ hluta til af ríkinu. Þegar þær breytingar, sem nú liggja fyrir á stofnlánadeildarlögum landbúnaðarins, verða samþykktar, nær þessi breyting einungis til ræktunar á þeim býlum, sem hafa yfir 25 ha. ræktaðs lands. Hér er farið fram á, að núverandi framlag til jarðræktar verði sem næst þrefaldað frá því, sem nú er, enda er vitað mál, að rúmlega 1200 kr. segja ekki stórt varðandi kostnaðarsama framkvæmd, enda mun hér ekki vera um að ræða meira en 1/10 af þeim kostnaði, sem er við ræktun landsins, að fráskildum skurðgreftinum. Og þetta brúar líka mikið bilið á milli þeirra, sem eru með ræktun innan við 25 ha., en þeir fá samkv. þeim lagabreytingum, sem nú liggja fyrir, helming kostnaðar greiddan við ræktunina. En það hefur löngum verið stefna, og það er bændastéttin sammála um, að það beri að hafa sem minnst bil í þessum efnum, mismuna bændum ekki mikið í framlögum þess opinbera, og till. okkar í þessum efnum miðar að því að grynnka á því bili, sem ella væri að löggjöfinni óbreyttri.

Þá er einnig lagt til, að frumvinnsla lands vegna grænfóðurs og kornræktar njóti ríkisframlags til jafns við túnrækt, enda ryður grænfóðurræktin sér til rúms með hverju ári og á því ríkan þátt í þeirri fóðuröflun, sem fram fer í landinu. Sama máli gegnir um kornrækt. Í þessu sambandi er vert að minna á, að það íærist mjög í vöxt að beita kúm og kindum á ræktað land, ýmist að beita á akra með sérstöku fóðurkáli eða venjulegum túngróðri. Sérfræðingar telja, að þessi beit auki afurðagetu búfjárins svo mikið, að um verulegan ávinning sé að ræða í þeim efnum. Hér ber því að hafa lagasetninguna það rúma, að hún sé ekki þrándur í götu þeim nýjungum, sem eru að ryðja sér til rúms í landinu nú. Því er það, að við höfum lagt þessa breytingu til ásamt öðru, sem heyrir undir 3. lið B þskj. 412 í 2. brtt. okkar.

Þá eru það girðingar um ræktunarlönd. Þær eru nauðsynlegar til að vernda ræktun landsins. Þær ber því að skoða sem hluta af ræktuninni sjálfri, og leggjum við til, að þær njóti framlags að 1/4 hluta til, eins og jarðræktin sjálf. Girðingarkostnaður hefur líka farið stórum hækkandi hin síðari ár, eins og byggingarkostnaður hefur almennt farið í landinu.

Það leiðir af sjálfu sér, að samfara ræktunarframkvæmdum eru heygeymslur nauðsynlegar, því að veðurfari er þannig háttað hér á landi, að hey verður, ef vel á að fara, að vera innan dyra í góðum geymslum. Á þetta jafnt við um verkun á þurrheyi sem votheyi. Hvorar tveggja geymslurnar þurfa að vera vel gerðar og vandaðar á allan hátt. Það mun láta nærri, að framlag ríkisins á steyptar þurrheyshlöður sé núna nálægt 2.3% af kostnaði. En í brtt. okkar leggjum við til, að ríkið greiði 15% af kostnaði við þessar þurrheyshlöður. Það hefur sýnt sig, að byggingarkostnaður hefur stórum hækkað síðan 1958. Lætur nærri, að hver rúmmetri í þurrheyshlöðu hafi hækkað um 100 kr. og sé því nú nálægt því 275 kr. að mati. Sama máli gegnir um votheyshlöður. Þar hefur hver rúmmetri hækkað um 230 kr. síðan 1958 og kostar nálægt 400 kr. rúmmetrinn í vönduðum votheysgryfjum. Framlag ríkis á votheysgeymslur er nálægt því 9% nú af kostnaðarverði, en við leggjum til, að ríkið leggi fram ¼ hluta kostnaðarins, og gerum við það með tilliti til þess, að vothey, ef vel er til þess vandað, heldur öllum þeim eiginleikum hins græna grass á jörðinni og því um litla rýrnun á fóðurgildi þess að ræða, ef vel er á allan hátt til þess vandað og vandaðar geymslur, auk þess sem þessi fóðuröflun hefur sýnt sig í því að vera bjargvættur margra bænda í votviðrasveitum og kannske þorra bænda í óþurrkasumrum. Því ber að efla þessa votheysgerð með því að hækka framlag ríkisins til að byggja votheysgeymslurnar.

Þess ber að geta í þessu sambandi, að hin nýja tækni, sem nú er að ryðja sér til rúms í landbúnaði, auðveldar bændum að koma votheyi í geymslu og líka til að leysa það úr geymslunni og koma því í jöturnar, auk þess sem ný efni, svo sem maurasýra, útiloka hina slæmu lykt af votheyi, sem var þyrnir í augum margra bænda áður fyrr og er enn í dag. En þessi nýja tækni kostar mikla peninga, og engin lán fást til að kaupa þá tækni nema víxlar, ef þeir þá fást, og þeir eru jafnan með mjög háum vöxtum. Hér verður því, ef vel á að fara, að hækka ríflega ríkisframlagið, eins og við leggjum til, að ríkið greiði 25% af kostnaði við þessar byggingar.

Þá kem ég að áburðargeymslum. E.t.v. dettur mörgum í hug að hugsa sem svo, að það borgi sig ekki að kosta miklu til við að byggja yfir húsdýraáburð. Þetta er að sjálfsögðu hagfræðilegt atriði. Reynslan af okkar tilbúna áburði er misjöfn. Eitt er víst, að Kjarninn, sem er íslenzk framleiðsla, stóreykur grasvöxtinn og hefur bætt til stórra muna heyöflun bænda. Hitt er líka komin reynsla á, að þar sem húsdýraáburður er notaður með tilbúnum áburði, þar er búfé hraustara, af því að jarðvegurinn fær þar ýmis lífræn efni, sem hann þarfnast og búfé okkar getur ekki verið án og ekki heldur mannfólkið sjálft. Því ber því opinbera skylda til að taka verulegan þátt í kostnaði við áburðargeymslur, og leggjum við til, að framlag ríkisins verði fjórði hluti af þeim kostnaði, og þar er um verulega hækkun að ræða frá því, sem verið hefur.

Þá kem ég að garðávaxtageymslum. Það skortir talsvert á það, að neyzla okkar Íslendinga á garðávöxtum, svo sem kartöflum, rófum, gulrótum, káli, með mörgu meiru, nálgist það, sem aðrar þjóðir telja sér mannsæmandi í þeim efnum. Fyrir þessu liggja að sjálfsögðu ýmsar orsakir, svo sem lega landsins, veðurfar og misjafnt árferði ásamt fleiru. Hér hefur þó oftast verið hægt að rækta kartöflur og káltegundir ýmsar í flestum landshlutum með góðum árangri, — og sums staðar, þar sem bezt eru skilyrði, með ágætum árangri. En til þess að geta nýtt vel og geymt forða garðávaxta vetrarlangt þarf góðar geymslur, og sums staðar stendur vöntun á geymslum á garðávöxtum ræktun þeirra fyrir þrifum. Þess vegna verður að gefa þessum málum meiri gaum en verið hefur og hækka framlag ríkisins til garðávaxtageymslna. Það er betra fyrir ríkið að spara á þann hátt dýrmætan gjaldeyri en flytja inn í stórum stíl garðávexti frá öðrum löndum, eins og oft hefur átt sér stað og alltaf á sér eitthvað stað á hverju ári. Við leggjum því til, að framlag ríkisins í þessu skyni verði 15% af kostnaði við byggingar á garðávaxtageymslum.

Þá kem ég að lokum að þeim þætti í okkar brtt., sem miðar að því frv., sem hér liggur fyrir. Það er súgþurrkunin. Við erum vafalaust allir sammála um, að mjög nauðsynlegt sé, að ríkið komi verulega til móts við bændur að öllu því, er lýtur að betri nýtingu á heyforða landsmanna en tök hafa verið á til þessa. Þess vegna er það, að við höfum lagt til í okkar brtt., að ríkið greiði 40%, eða 2/5 af kostnaði bæði við blásarann sjálfan og súgþurrkunarkerfið í heild. Hér er um verulega endurbót að ræða frá því, sem verið hefur, og mundi gera mörgum kleift að koma upp súgþurrkunarkerfi, ef þessar till. væru samþykktar. Ég skal játa, að meginmunur er ekki á þeim breytingum, sem fyrir liggja í frv. sjálfu, og brtt. okkar, að því er varðar súgþurrkunarkerfið sjálft, en aftur á móti meginbreyting í hinu, er lýtur að því tæki, sem skapa á blásturinn og skapa á skilyrðin til þess að þurrka heyið, ef þess þarf með í stórum stíl. Því er það, að ég vænti þess, eftir að hafa gert grein fyrir okkar brtt., að meiri hl. endurskoði afstöðu sína og hv. þm. þessarar d. sjái sér fært að fylgja okkur að málum, vegna þess að hér er um geysiþýðingarmikið mál og þýðingarmikil atriði að ræða varðandi hag bændastéttarinnar í landinu og ekki sízt þeirra bænda, sem eru að leggja út í lífsbaráttuna nú og eiga mjög undir högg að sækja með það, hvernig þeim reiðir af með sínar framkvæmdir í landbúnaði.

Auk þess er ein meginbreyting á jarðræktarlögunum í heild af okkar hálfu, sem ég vil sérstaklega undirstrika. Það er, að allar breytingar okkar eru miðaðar við sérstakt hlutfall af kostnaði, þannig að þótt miklar verðbreytingar eigi sér stað í landinu, heldur hlutfallið sér af kostnaði framkvæmdanna. En með því fyrirkomulagi, sem verið hefur og nú ríkir og engin breyting liggur fyrir um af hálfu meiri hl., dregst hlutur þess opinbera undireins aftur úr, að því er ríkisframlag varðar, þegar um stórfelldar verðbreytingar er að ræða í landinu. Þannig er það, að sú vísitala, sem jarðræktarlögin greiðast eftir nú, var fastsett 1960 og hefur verið það síðan, einmitt á því tímabili, sem dýrtíðarvöxturinn hefur verið örastur í þjóðfélaginu, og á þann hátt hafa jarðræktarlögin orðið til mun minna gagns fyrir bændastéttina í heild og þjóðfélagið allt en til var ætlazt í upphafi. Og ég veit, að við erum allir sammála um, að það þurfi að vera jafnan svo búið að bændunum, að þeim geti vel vegnað.

Það er líka nauðsynlegt að skoða þessi mál í heild og gera á þeim breytingar, vegna þess að þótt jarðræktin sjálf sé undirstaða búskaparins, eru aðrir þættir þess máls, sem tilheyra jarðræktinni, svo sem heygeymslur og annað, hluti af ræktuninni sjálfri og verður að greiða hærra framlag til en verið hefur, vegna þess að bændurnir eiga með hverju árinu sem líður erfiðara með að rísa undir miklum kostnaði, ekki sízt vegna þess, að lánakjör til landbúnaðarins hafa svo stórum versnað hin síðari ár, að til vandræða horfir, ekki sízt fyrir hina ungu bændur, sem vilja leggja út í búskapinn. Og því er það, að ég vona, að við getum sameinazt um þessar till. og gert átak í þessum efnum á næstu árum og mætt þar með þörfum bændastéttarinnar og innt þær skyldur af hendi, sem hvert menningarríki telur sér hag í að gera fyrir framtíðaruppbyggingu landbúnaðarins. Það er sú fyrirmynd, sem við eigum að breyta eftir.