06.02.1964
Neðri deild: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. hæstv. landbrh. hélt hér ræðu almennt um landbúnaðarmálin. Ég hafði ekki ætlað mér að ræða landbúnaðarmálin almennt eða stefnuna í þeim í sambandi við þetta frv., en mun þó gera það nokkuð hér á eftir, vegna þess að hæstv. ráðh. ræddi málin talsvert almennt. En áður en ég kem að því að ræða nokkuð um stefnu hæstv. ríkisstj. Í landbúnaðarmálum í tilefni af því, sem hæstv. ráðh, sagði, og svo rifja dálítið upp stefnu Framsfl. í þeim málum, þá vil ég víkja fyrst að þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil fyrst minna á, að Framsfl. innleiddi hér þá stefnu að greiða mun hærra jarðræktarframlag til þeirra, sem skemmra voru á veg komnir með ræktunina. Og þessi stefna hefur síðan þróazt áfram í áföngum. Fyrst var þetta miðað við 5 ha., að þeir fengju mun meiri stuðning, sem höfðu ekki komið túnum sínum upp í 5 ha. Síðan var það miðað við 10 ha., þá við 15 ha., og nú er ætlunin að miða þetta við 25 ha. Þetta hefur orðið mjög gagnlegt fyrir landbúnaðinn og fjölda bænda, eins og að líkum lætur, og var hið merkasta mál, þegar inn á þessa braut var farið. Framsóknarmenn hafa haldið áfram að berjast fyrir því, að þessi þróun gengi áfram í þá átt, og m.a. lagt á þessu Alþingi fyrir hv. Ed. frv. til l. um breyt. á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. varðandi þessi efni.

Í því frv. eru þrjú atriði, Í fyrsta lagi að hækka ríkisframlag til bygginga, íbúðarhúsabygginga í sveitum, úr 50 þús. í 60 þús. til samræmis við aukna dýrtíð. Í annan stað að færa hámarkið úr 15 ha. í 25 ha., þeirra túna sem fengju sérstakan stuðning, fengju aukið ræktunarframlag úr ríkissjóði. Og í þriðja lagi að auka Stuðninginn sjálfan úr 50% af ræktunarkostnaði í 65% af ræktunarkostnaði.

Nú liggur það fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp tvö af þessum atriðum, sem Framsfl. hefur lagt til í sínu frv. Í þessu frv., sem nú liggur fyrir, eru tvö af þessum atriðum tekin upp, sem sé að hækka ríkisframlag til íbúðarhúsabygginga í sveitum úr 50 þús. upp í 60 þús. og að hækka hámarkið, sem er mjög þýðingarmikið mál, úr 15 ha. upp í 25 ha. En ég sakna þess, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki líka taka upp þriðja atriðið úr frv., sem sé það að auka framlagið úr 50% í 65%, því að sannleikurinn er sá, að það er lífsnauðsyn að auka jarðræktarframlögin verulega frá því, sem þau eru nú, og kem ég að því síðar í sambandi við það, sem ég ræði almennt um landbúnaðarmálin. En það er stefna Framsfl. og mjög þýðingarmikið atriði í hans stefnu að auka jarðræktarframlögin verulega, ekki aðeins til þess að koma túnum upp í 25 ha., heldur einnig í öðrum greinum, eins og líka mun koma fram í sambandi við umr. um það mál, sem næst er á dagskrá, en það er um breytingu á sjálfum jarðræktarl. Í samræmi við þessa stefnu hefur Framsfl. lagt áherzlu á að hækka framlagið úr 50'% af ræktunarkostnaði upp í 65%.

Ég tók eftir því, að hæstv. landbrh. sagði í sinni ræðu, að það væri stefna stjórnarinnar, að þeim fjölgaði, sem búa í sveitunum, — ég heyrði a.m.k. ekki betur en hæstv. ráðh. segði þetta, — og stjórnin vildi stuðla að eflingu landbúnaðarins. Þessar yfirlýsingar gaf hæstv. ráðh. og lagði dálítið út af þeim. En ég verð að benda í fáeinum orðum á, hvernig málefnum landbúnaðarins er komið, og þá ekki sízt vegna stjórnarstefnunnar, vegna þess, hvernig stjórnarstefnunni hefur verið breytt. Ég held, að það sé alveg einróma álit allra, sem til þekkja í sveitunum, að landbúnaðurinn sé nú kominn í hina alvarlegustu úlfakreppu, ef svo mætti að orði komast, og það hafi þrengt stórkostlega að landbúnaðinum á undanförnum árum vegna þess, hvernig að honum hefur verið búið af hálfu ríkisvaldsins þennan tíma.

Og þá kemur spurningin: Hvað hefur raunverulega gerzt, hvað hefur verið gert, hvers vegna á landbúnaðurinn svona erfitt? Í fyrsta lagi er hér um að ræða að sjálfsögðu afleiðingar af þeirri almennu dýrtíðarstefnu, sem haldið hefur verið uppi. Stofnkostnaður í landbúnaði hefur hækkað óðfluga, hækkað með ofsahraða, gífurlega. Kostnaður við ræktun, byggingar, vélakaup og hvað eina, sem til landbúnaðarins þarf, hefur hækkað með ofsahraða. Jafnframt hefur allt það, sem þarf að kaupa til rekstrarins, einnig hækkað, áburður, fóðurbætir og hvað eina, sem nöfnum tjáir að nefna. Og það, sem hefur svo skeð, er einfaldlega þetta, að þessi gífurlega hækkun á stofnkostnaði í landbúnaðinum og þessi gífurlega hækkun á öllu því, sem þarf að kaupa til landbúnaðarins, þessi hækkun hefur ekki fengið að koma inn í verðlagið á landbúnaðarafurðunum. Það hefur verið staðið á móti því, að þessi hækkun kæmist inn í verðlagið á landbúnaðarafurðunum, og enginn vafi leikur á því, að þar hefur hæstv. ríkisstj. líka verið að verki með, að þetta hefur ekki komizt inn í landbúnaðarverðið. Og þetta gengur svo langt, eins og glöggt er sýnt fram á af fulltrúum landbúnaðarins, Stéttarsambandsins sérstaklega, að jafnvel hækkun á rekstrarliðum fæst ekki tekin til greina. Þetta hefur svo að sjálfsögðu haft þau áhrif, að kaup bændanna er lægra en það á að vera, því að að því leyti sem þessi kostnaður hefur ekki fengizt tekinn til greina í verðlaginu, gengur það beint út yfir kaup bændanna og verður frádráttur af kaupi þeirra. Niðurstaðan verður því sú, að þeir bera ekki það úr býtum fyrir störf sín, sem þeir eiga að fá samkv. gildandi lögum um verðlagningu landbúnaðarafurða, þar sem meginstefna laganna er sú, að þeir skuli hafa sambærilegar tekjur við aðrar stéttir, sem þar er nánar tilgreint. Þeir bera ekki þetta úr býtum, vegna þess að þeir hafa ekki getað komið því fram, að dýrtíðarvöxturinn á stofnkostnaðinum og rekstrarkostnaðinum, sem eru afleiðingar stjórnarstefnunnar, fengist tekinn inn í verðlagið.

Ævinlega þegar um þetta er rætt, rís hæstv. landbrh. upp og segir, að það hafi verið gert ýmislegt til bóta í verðlagsmálunum, sem manni skilst að eigi að verða til þess, að bændur sætti sig við þetta. Hann nefnir í því sambandi oft, að það hafi verið komið á útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðum, og það er náttúrlega rétt, að þetta hefði staðið jafnvel enn verr núna, ef það hefði ekki verið gert. Enn fremur bendir ráðh. á, að það hafi verið tekinn upp sá háttur að umreikna oftar verðlag miðað við kaupgjaldsbreytingar. Þetta er líka rétt. Það er líka rétt hjá honum, að það hefði staðið enn þá verr en það stendur núna, ef þetta hefði ekki verið gert. En bændur lifa ekki á því út af fyrir sig, þó að slíkar leiðréttingar hafi verið gerðar, ef önnur atriði ganga þeim svo í óhag, að útkoman verður þrátt fyrir þetta miklu verri en áður. En þrátt fyrir þessar leiðréttingar, sem hæstv. ráðh. dvelur ætíð við, þegar rætt er um þessi mál, er þannig komið þessum málum, að þar hefur skapazt stórkostlega vaxandi ósamræmi bændunum í óhag, þrátt fyrir þessar ráðstafanir.

Það verður að gera dæmið upp í heild og horfast í augu við þessi efni, eins og þau liggja fyrir. Þetta er ekki það, sem ég hef fundið út, þessar staðreyndir, sem ég er að minna á. Þetta er það, sem bændasamtökin hafa sýnt fram á með alveg óyggjandi dæmum og allir eru sammála um, sem nálægt þessum málum koma, hvar í flokki sem þeir standa. Þeir eru allir sammála um, að þróunin í þessum efnum hafi orðið landbúnaðinum hættuleg og ástandið sé afar alvarlegt. Og þar er náttúrlega ekki sízt orsakanna að leita í þeirri ofboðslegu dýrtíðarholskeflu, sem reist hefur verið og velt yfir þjóðina og hefur sennilega komið verr við landbúnaðinn en nokkra aðra starfsgrein og verr við bændurna en nokkra aðra stétt vegna þess, hvað þeir þurfa að leggja í gífurlega mikinn stofnkostnað í hlutfalli við þær tekjur, sem þeir geta haft. Þessi óskaplega aukning á stofnkostnaði í landinu, þ. á m. í landbúnaði, kemur sennilega verr við þá en nokkra aðra.

Það er svo eitt atriði í þessu einnig, að með þessu er auðvitað dregið algert járntjald á milli þeirra, sem voru búnir að búa um sig, áður en þessi stjórnarstefna var tekin upp, og hinna. En það er ekki hægt að miða verðlag eða dæma um afkomu bændastéttarinnar í heild eftir því, hvernig þeim vegnar, sem búnir voru að byggja upp vænleg bú og koma sér fyrir á heppilegasta hátt fyrir viðreisn. Hinir þurfa líka að lifa. Eða er það meiningin, að öll þróun í landbúnaðinum eigi að stöðvast og ekki eigi að miða þessi mál við það, að nokkur eigi sér nokkurrar viðreisnar von, sem þarf að leggja verulega í stofnkostnað, eins og nú er komið, eða er að byrja búskap? Það þýðir ekkert að standa sífellt og vitna í þá, sem eru handan við járntjaldið í þessu tilliti, járntjald viðreisnarstefnunnar. Það verður að horfast í augu við hlutina, eins og þeir eru, og miða þessi mál við þá, sem þurfa að búa við núverandi stofnkostnað í búskap.

Nú eru bændur ákaflega uggandi út af þessu og eru með ýmsar ráðstafanir til að fá fram leiðréttingar og bjarga landbúnaðinum frá því, sem þeir telja bráðan háska. Og nú heyri ég, að hæstv. ráðh. segir, að ríkisstj. hafi áhuga fyrir því, að landbúnaður geti ekki aðeins haldið áfram, heldur einnig þróazt, og þá er fyrsta spurningin: Hvað ætlar ríkisstj. að gera? Og ég spyr um það af því, að hæstv. landbrh. fór að flytja hér einhvers konar stefnuræðu í landbúnaðarmálum, notaði tækifærið til þess, og því spyr ég: Hvað ætlar ríkisstj. að gera í verðlagsmálum landbúnaðarins?

Við vitum, að Stéttarsamband bænda hefur farið fram á það við hæstv. landbrh., að hann beiti sér fyrir breytingum á verðlagslöggjöfinni, og ég hygg, að það sé heldur ekkert leyndarmál, að stjórn Stéttarsambandsins hefur farið fram á þetta. Og þá kemur spurningin: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera í verðlagsmálum landbúnaðarins? Ætlar hún að láta sitja við þetta eins og er eða ætlar hún að gera þar úrbætur, eitthvað í samræmi við þær óskir, sem Stéttarsambandið hefur beint til hæstv. ríkisstj.?

Þá er annað atriði, sem ég vil nefna í sambandi við þessa feiknalegu breytingu til hins verra, sem orðið hefur í landbúnaðinum, og það er varðandi lánakjör landbúnaðarins. Ég gat um það áðan, að fjármagnsskorturinn, þ.e.a.s. stofnkostnaður í landbúnaði, væri gífurlega hár, og það vitum við öll. Hann er óskaplega hár, og sennilega hefur það meiri áhrif í landbúnaði en í flestum öðrum atvinnugreinum, upp á hvaða lánskjör boðið er, við hvaða lánskjör menn þurfa að búa. En núv. ríkisstj. hefur, á sama tíma sem stofnkostnaðurinn hefur hækkað svona gífurlega, innleitt hér í landinu miklu verri lánskjör fyrir bændur en áður áttu sér stað. Íbúðarlán, sem áður voru fáanleg með 3½% vöxtum, kosta nú 6% vexti, og lán úr ræktunarsjóði, sem tekin eru til útihúsabygginga og ræktunar, voru á 4%, en munu nú vera 6–6½%. Lánskjör hafa versnað alveg gífurlega í landbúnaðinum, á sama tíma sem stofnkostnaðurinn hefur hækkað, svo sem ég var að lýsa. Þar af leiðandi þurfa menn að taka miklu, miklu hærri lán en áður með miklu, miklu hærri vöxtum. Og ekki nóg með það, heldur bætist það svo ofan á, að þessir nýju vextir fást ekki einu sinni á fullnægjandi hátt teknir til greina inn í verðlagið og alls ekki miðað við þann stofnkostnað, sem nú er orðinn í landbúnaðinum, svo að það má nærri geta, hvaða áhrif þetta hefur á afkomu bændastéttarinnar og landbúnaðarins. En ofan á þetta hefur því svo verið bætt, að til þess að fá þessi verri lán, svona miklu verri lán en áður átti sér stað, þurfa menn að borga aukaskatt, sem áður kom ekki til greina og mun nema á ári eitthvað í kringum 2500 kr. á meðalbú, a.m.k. einhvers staðar frá 2000–2900 kr. Hér er um tugþúsundir að ræða í aukin útgjöld fyrir meðalheimili, í verri lánskjörum og sköttum, og þetta fæst alls ekki tekið inn í verðlag landbúnaðarvaranna.

Þegar verið er að ræða um þessi mál, er blandað inn í þessi efni fjárhagsafkomu stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það, sem mestu skiptir fyrir bændurna og landbúnaðinn, er það, hvaða lán þeir geta fengið og með hvaða vöxtum. Það er það, sem mestu skiptir máli: Hvaða lán geta þeir fengið og með hvaða vöxtum? Áður voru fáanleg lán með þessum lágu vöxtum, nú aðeins með háu vöxtunum og skattur innheimtur að auki. Þetta er dæmið, eins og það snýr við bændunum. Þetta er það, sem þá varðar. En það bætist svo ofan á, að þessi skattur, sem innheimtur er af bændunum til lánasjóðanna, er raunverulega notaður til að greiða gengistöp, sem lánasjóðir landbúnaðarins urðu fyrir, sem eru þó hliðstæð því, sem það opinbera greiddi fyrir aðra sjóði. Þegar ráðstafanir voru gerðar til að gera upp gengistöpin við gengislækkanirnar, var það opinbera látið taka á sig gengistöp í opinberum sjóðum og stofnunum, nema fyrir lánasjóði landbúnaðarins. Þau gengistöp voru skilin eftir ógreidd og sjóðirnir látnir greiða þau sjálfir, þ.e.a.s. í raun og veru eru gengistöpin greidd af þessum skatti, sem innheimtur er af bændunum.

Það er undarlegt, ef þjóðfélagið hefur ekki ráð á því núna að veita landbúnaðinum aðgang að jafngóðum lánum og fyrir árið 1958, og auðvitað eru full ráð til þess, en það vantar skilninginn og það vantar viljann. Það er auðvitað ekkert einfaldara en að þjóðfélagið í heild taki á sig það, sem þarf, til þess að landbúnaðurinn geti haft a.m.k. hliðstæð lánskjör og áður. Og ég er sannfærður um, að það er eitt af því, sem þarf og verður að gera, ef sæmilega á að takast til í framtíðinni.

En það er fleira, sem komið hefur til, og mun ég þó ekki minnast á allt í sambandi við stefnuna í landbúnaðarmálum á síðustu árum, sem veldur vandkvæðum og veldur þessari stórfelldu breytingu, sem orðið hefur. Bein framlög hafa verið lækkuð og farið lækkandi ár frá ári, vegna þess að jarðræktarframlagið skv. jarðræktarlögunum hefur verið látið standa óbreytt í krónutölu. Þannig hefur farið ört lækkandi það, sem ríkið hefur lagt fram beint til þessarar uppbyggingar, og gengur þetta auðvitað alveg í öfuga átt, eins og ég skal koma að, þegar ég fer nokkrum orðum um, hvaða úrræði Framsfl. bendir á í landbúnaðarmálum.

Það væri hægt að nefna mjög marga fleiri þætti, en ég læt nægja að nefna aðeins einn þátt í viðbót, sem er mjög þýðingarmikill, og það eru afurðalánin til landbúnaðarins, en það eru í raun og veru rekstrarlán landbúnaðarins. Þau hafa verið lækkuð stórkostlega frá því, sem áður var, eins og margsinnis hefur verið upplýst á hv. Alþingi, lækkuð úr 67% og niður í 55%, og þó mun meira vegna fyrirkomulagsbreytinga. Þar að auki hefur verið dregið gífurlega úr fyrirframlánunum út á væntanlegar afurðir, þ.e.a.s. rekstrarlánunum til landbúnaðarins, sem veitt eru frá því í marz og fram á haustið, og það svo, að þær stofnanir, sem hafa milligöngu um þessi rekstrarlán fyrir bændurna, eiga í hinum mestu erfiðleikum, og verður áreiðanlega að gera sérstakar ráðstafanir til að breyta stefnunni í þessum málum, ef ekki eiga að verða stóróhöpp í þessu sambandi.

En þá kemur spurningin: Hvaða aðferðir eru líklegastar til þess að komast út úr þessari sjálfheldu? Ég vil fara um það örfáum orðum. Í fyrsta lagi verður alveg tvímælalaust að taka verðlagsmál landbúnaðarins nýjum tökum. Það verður að hækka verðið á landbúnaðarafurðunum, sem bændur fá. Um það er ekkert að efast. Þetta getur ekki staðizt eins og er. Allar skýrslur sýna, að bændur fá ekki sinn rétt í þeim málum, og nefni ég þessi mál fyrst. Á hinn bóginn er það augljóst mál, að ekki verður allur vandi landbúnaðarins, eins og nú er komið, leystur á þann hátt einan að hækka landbúnaðarverðlagið. Þess vegna vil ég nefna næst aukin bein framlög af almannafé til að standa undir uppbyggingunni í sveitunum. Það er enginn vafi á því, að það er lífsnauðsyn að auka mjög bein framlög til uppbyggingarinnar í sveitunum, ef nokkur von á að vera um viðunandi leiðréttingar í þessum efnum. Og í þessa átt flytja framsóknarmenn ýmis frv. og till., m.a. þá till., sem stjórnin hefur nú tekið upp í þessu frv., að hækka hámarkið hjá þeim, sem fá hærra jarðræktarframlagið, upp í 25 ha., og till. um að auka framlagið á ræktunina í þeim tilvikum úr 50% í 65%.

Enn fremur nefni ég í þessu sambandi frv. framsóknarmanna um breytingu á jarðræktarl., sem ég mun gera að umtalsefni í sambandi við næsta mál hér á dagskránni, en þar er gert ráð fyrir að auka mjög framlög til ýmissa þýðingarmikilla landbúnaðarframkvæmda.

Þá verður einnig alveg tvímælalaust að auka mjög beinan stuðning við nýbýlamyndun í landinu og landnám. Það má heita alveg óhugsandi, að nokkur maður geti komið upp nýbýli í sveit, eins og nú er orðið háttað stofnkostnaði og lánakjörum, nema með því að fá stóraukin framlög frá því, sem nú er gert ráð fyrir. Á þetta jafnt við, hvort menn hugsa sér að byggja nýbýli upp í landnámi ríkisins, sem kallað er, eða einstök býli.

Þá vil ég nefna bætt stofnlán. Eins og nú er komið í landbúnaðinum, verður að keppa að því að fá lengri lán en áður hafa komið til, — stofnkostnaðurinn er orðinn svo gífurlegur miðað við tekjuvonirnar, jafnvel þótt verðlag afurða verði bætt, — og mun lægri vexti. Við höfum lagt fram frv. um þessi efni, fleiri en eitt, eins og kunnugt er, hér á hv. Alþingi. Enn fremur þarf að gefa kost á lánum til bústofnskaupa með viðráðanlegum kjörum, og höfum við einnig lagt fram frv. um það efni, sem liggur fyrir hv. Ed. Þá verður alveg óhjákvæmilegt að auka mjög afurðalánin frá því, sem þau hafa verið undanfarið, bæði fyrirframlánin og haustlánin, ef stofnunum bændanna á að verða unnt að veita þeim þá þjónustu varðandi innkaup á rekstrarvörum framan af árinu og útborgun á afurðaverði, sem bændur eiga réttmæta kröfu til. Bændur eiga réttmæta kröfu til þess, að þjóðfélagslega sé búið þannig að bændastéttinni, að stofnunum hennar sé mögulegt að veita rekstrarlán til þess að kaupa nauðsynjar til búrekstrar og til þess að greiða verð afurðanna út, jafnóðum og þær eru lagðar inn.

Það mætti nefna mörg fleiri atriði. Ég nefni þessa meginþætti. Það eru verðlagsmálin, það eru stóraukin bein framlög til uppbyggingar í landbúnaðinum, og það eru aukin og bætt lán. Það mætti nefna einnig í þessu sambandi félagsleg stórátök, sem þyrftu að eiga sér stað og sérstaklega til framræslu, ekki aðeins til að breyta aðstöðunni til ræktunar, heldur einnig til beitar, og er þá einnig komið inn á landgræðslumálin, sem ég skal ekki gera í þessu sambandi.

Loks má nefna eitt alveg stórfellt málefni og það er aukin samvinna í búrekstrinum, sem tvímælalaust verður tekin upp og þyrfti að styðja og greiða fyrir, til þess að bændur gætu átt þar leið frá vandamálum einyrkjabúskaparins með meiri samvinnu við sjálfan búreksturinn. Fleira mætti að sjálfsögðu nefna, en ég skal ekki fara út í það hér.

Það leiðir af því, sem ég hef þegar sagt, að framsóknarmenn munu styðja þetta frv., þar sem í því eru tvö atriði af þremur úr því frv., sem þeir hafa lagt fram um þessi efni í Ed., en við munum líka freista þess að fá lagfæringar á frv., a.m.k. munum við freista þess að fá inn í frv. ákvæði um að hækka framlögin upp í 65%, og einnig munum við beita okkur fyrir flutningi fleiri brtt. Það verður ákveðið, á meðan málið er í nefnd.