11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er algerlega rangt, að ég hafi veitzt að einhverjum manni sérstaklega fjarverandi hér á föstudaginn var, þegar rætt var um frv. til l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Hv. ræðumaður minntist á Hermóð á Sandi og segir, að ég hafi veitzt að honum. Ég gerði ekki annað en vitna í tölur, sem dagblaðið Tíminn hafði eftir honum og hv. ræðumaður staðfesti hér áðan, þar sem í viðtali 10. des. er sagt, að landbúnaðarvörurnar hafi hækkað um 34%. Þetta er 10. des. En svo er sagt annars staðar í greininni frá samanburði á 1958 og 1962, og er það dálítið undarlegt, þegar rætt er um verðlagningu landbúnaðarvara 10. des. 1963 og verðlagningin frá haustinu 1963 liggur fyrir, að nota þá til samanburðar árið 1962. Og ég vil minna á það, að hv. framsóknarmenn hafa í ræðu og riti, síðan þetta viðtal átti sér stað, vitnað í þessa prósenthækkun og lagt út af henni í samanburðinum á kjörum bændastéttarinnar nú og 1958.

Nú er hægt að gera hv. síðasta ræðumanni það til geðs að segja, að í þessu viðtali hafi aðeins verið átt við árið 1962. Það hafi að vísu verið gert til þess að gera dæmið verra í áliti almennings gagnvart bændum, en hv. ræðumaður sagði hér áðan, að það væri rétt, að það hafi hækkað um 34%, ef það væri miðað við árið 1962. En það er bara ekki heldur rétt og dugir ekki hér að vera að tala aðeins um kjöt, þegar talað er um hækkun á sauðfjárafurðum, það verður að tala um, hvað dilkurinn hefur hækkað, því að gæruverðið og innmaturinn hefur áhrif á það, hvað kjötverðið er ákveðið. Og þegar verið er að tala um, hvað verð sauðfjárafurða hafi hækkað frá árinu 1958, verður að tala um það, hvað dilkurinn er í grundvellinum bæði þessi ár, og það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, því að það liggur fyrir og það er rétt, sem ég sagði hér á föstudaginn, að dilkurinn var í grundvellinum 1958 kr. 380.47, og hann er í gildandi grundvelli kr. 664.15. Hækkunin er 74.56%. Og auk þess hefur ullin hækkað um 85%. Og þegar tekið er þá tillit til þess, hvað sauðfjárafurðirnar hafa hækkað, lætur það nærri að vera 77%. Þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að komast hjá og ekki er hægt að hrekja og þetta eru þær tölur, sem ber að nota í samanburði á kjörum bænda 1958 og 1963, en ekki þær tölur, sem menn telja að hafi verið í verðlaginu 1962. Þegar verið er að tala um kjör bænda árin 1958 og 1963, þá verður að tala um verðlagið, sem gilti bæði þau ár, en ekki verðlagið 1958 og 1962.

Ef við tökum mjólkurafurðirnar, sjáum við, að það er fjarri lagi, að það geti verið rétt að tala um 34% 1962, þar sem afurðirnar hækkuðu til jafnaðar um 20.8% s.l. haust, en verðlag á mjólk hefur hækkað, eins og ég sagði hér á föstudaginn, um 57.91%, auk þess að 1958 vantaði bændur 7–9% á verðgrundvöllinn, en fá hann væntanlega að fullu 1963.

Ég er dálítið hissa á því, að hv. 3. þm. Norðurl. e. skuli koma hér upp í pontuna í því skyni að reyna að leiðrétta það, sem ég sagði hér s.l. föstudag. Þess þurfti ekki með, vegna þess að það var rétt. Það er líka algerlega ástæðulaust að koma til þess að bera skjöld fyrir Hermóð á Sandi, vegna þess að það hefur ekkert verið að honum veitzt annað en að nefna þær tölur, sem hann hefur viðhaft í viðtali við Tímann og framsóknarmenn hafa alltaf síðan notað. Það er þess vegna, sem ég gerði þessar tölur Hermóðs að umtalsefni, um leið og ég gat þess í umr. á föstudaginn, að mér væri ráðgáta, hvernig þessar tölur væru til komnar hjá Hermóði, sem ég þekki að skýrleik og samvizkusemi.

Það er ástæðulaust að segja meira um þetta. Tölurnar liggja fyrir, og þær bera sjálfar vitni um það, hvað hér er rétt. En hv. 3. þm. Norðurl. e. ætti ekki að undrast það, þótt dæmi eins og þetta sé nefnt í umr. um landbúnaðarmál, þegar annar stjórnarandstöðuflokkurinn notar tölur, sem þannig eru til komnar, fyrir öllum röksemdafærslum sínum, þegar rætt er um það, hvernig hagur bænda sé settur nú miðað við það, sem var 1958.

Nú er það svo, að við, sem ræðum um landbúnaðarmál hér á hv. Alþingi, erum sammála um það, að kjör bændanna þurfi að batna frá því, sem er. Og við viljum vinna að því. Ég trúi því, að hv. 3. þm. Norðurl. e. sé mér alveg sammála um það. En það, sem okkur greinir á um, er að hv. framsóknarmenn vilja láta í það skína, að bændur hafi lifað einhverju kóngalífi, meðan framsóknarmenn fóru með þessi mál, að smábændurnir, sem nú framleiða fyrir 50–100 þús. kr., hafi eiginlega lifað við sældarkjör, áður en núv. ríkisstj. komst til valda. Það er tilgangslaust að vera að reyna að slá slíku fram. Við getum verið sammála um, að smábændurnir hafi lifað við kröpp kjör fyrr og þeir geri það enn og þess vegna sé það meginverkefnið að vinna að því, að búin megi stækka, framleiðslan aukast og tekjur þessara manna vaxa þannig, að fjölskyldan geti lifað sómasamlega af því. Og þetta frv., sem við höfum verið að ræða um hér að þessu sinni, miðar í þá átt, að búin stækka, þar sem ræktunin er enn skemmst á veg komin. Það er þetta, sem við viljum vinna að, og þess vegna er takmarkið sett samkv. þessu frv., að það beri að styrkja ræktunina ríflega þar, sem túnstærðin er ekki enn komin upp í 25 ha.

Ég verð svo að segja, að umr. um þetta frv. hafa að sumu leyti verið skemmtilegar og ekki nema eðlilegt, að þær verði nokkrar um svona mál. En þá skaðar ekki, að við gerum okkur grein fyrir því, að bændurnir í landinu og þá sérstaklega þeir, sem minnstar tekjurnar hafa, lifðu ekki sældarlífi, áður en núv. ríkisstj. komst til valda, og ég er þeirrar skoðunar, að þeir hafi þurft þá og þeir þurfi nú að auka sínar tekjur. Og í sjálfu sér er ástæðulaust að metast um það, hvort þeir hafi það sem kallað er betra nú en þá, þar sem við hljótum að vera sammála um, að þeir þurfi að framleiða meira og fá betri kjör en þeir hafa búið við.