25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar, og hún varð ekki á eitt sátt um afgreiðsluna, svo sem kemur fram í nál. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 235.

Svo sem fram kom hér við 1. umr. málsins, hefur að undanförnu staðið yfir endurskoðun á jarðræktarlögunum. Upphaflega var sú endurskoðun framkvæmd af nefnd hjá Búnaðarfélagi Íslands, og um þá endurskoðun fjallaði síðan búnaðarþing og afgreiddi málið til ríkisstj. Landbrh. skipaði þá aðra nefnd til þess að yfirfara og endurskoða málið á ný, og sú nefnd skilaði af sér nýju áliti um það bil, er þingi var að ljúka s.l. vor. Síðan hefur þetta mál verið nánar til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., og þetta frv., sem hér liggur fyrir ásamt með öðru frv. um breyt. á jarðræktarlögunum, sem einnig liggur fyrir þessari hv. d., þau tvö frv. eru í raun og veru árangurinn af þeirri endurskoðun.

Ég þarf ekki að rekja þetta nákvæmlega. Þetta var rætt allýtarlega hér við 1. umr., auk þess sem það er nokkuð að því vikið í nál. meiri hl. landbn. En það er í skemmstu máli að segja, að við vandlega yfirvegun á þessum málum, þessum ræktunarmálum, hefur niðurstaðan orðið sú, að bera fram þessi tvö frv., og er þó meginstuðningurinn sá aukni stuðningur, sem ætlað er að veita til ræktunarmálanna samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það hefur einnig komið fram, bæði kemur það fram í nál. og hefur einnig komið fram hér við umr., að um þessa leið er í raun og veru ekki teljandi ágreiningur. En það hefur í vaxandi mæli hin síðari ár verið horfið inn á þá braut með þann stuðning, sem upphaflega var lögfestur með jarðræktarlögunum, að beina honum meir og meir í þá átt að vera stuðningur til að jafna búrekstraraðstöðuna í landinu, — meira og meira í átt til þess að vera stuðningur við þá bændur, sem hafa mesta þörf fyrir aukna ræktun, en það er ekki nú lengur um það deilt, að það er ræktunin, sem er alger undirstaða landbúnaðarins.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði. N. var raunar í heild nokkuð sammála um þessa hlið, og ég vil láta það í ljós sem mína skoðun, að ég tel þessa stefnu vera rétta, og í raun og veru er óhætt að segja það, að með þessu frv. ásamt því frv. um breytingu á jarðrræktarl., sem einnig liggur fyrir þessari hv. d., er gert mesta átak til stuðnings búskapnum eftir þessum leiðum, — eftir leiðum með stuðningi til ræktunar, — mesta átak til stuðnings búskapnum, sem hefur verið gert, frá því að jarðræktarlögin voru sett í upphafi. Það hefur komið fram, að það megi áætla þennan aukna stuðning allt að 20 millj. kr., a.m.k. 15–20 millj. kr. á ári, og það er óhætt að segja, að það hefur ekki áður verið gert slíkt átak í einu til stuðnings þessum málum.

Oft ber á góma í umr. nú í seinni tíð hina svokölluðu auknu framleiðni, og það hafa einnig komið fram við þessi frv. brtt., sem m.a. fjalla um það að styðja aukna framleiðni í landbúnaðinum. En út af þessu þykir mér rétt að undirstrika það, að auðvitað er sú breyting, sem hér er verið að gera, stuðningur til aukinnar framleiðni í landbúnaði. Allur stuðningur samkv. jarðræktarl. frá upphafi og sá stuðningur, sem veittur er í þessu skyni með stofnlánadeildarlögunum, er auðvitað til aukinnar framleiðni í landbúnaði.

Það liggja fyrir nokkrar brtt., og eins og tekið er fram í nál., tók n. ekki sérstaklega afstöðu til þeirra brtt., sem þá lágu fyrir. Aðra þessa brtt. hef ég flutt og ég mælti nokkur orð fyrir henni við 1. umr. málsins, en hún er um nýtt form, ef svo mætti segja, fyrir bústofnslán. Ég hygg, að það muni verða skoðun meiri hl. n., að rétt sé að samþykkja þessa till., og ég vil vænta þess, eins og ég hef lýst hér við 1. umr., ég vil vænta þess, að hún nái samþykki hv. þd. Þetta mál er í raun og veru mjög ljóst og einfalt, og það var rætt mjög ýtarlega, eins og ég sagði áðan, hér við 1. umr. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að tala langt mál um það. Það kann að vera að mér gefist tækifæri síðar við þessa umr. að bæta hér einhverju við. En eins og fram kemur í áliti minni hl., leggja þeir hér fyrir allmiklar brtt. Það er hvorki meira né minna en þeir taka heilt frv., sem framsóknarmenn hafa flutt í hv. Ed., og skella hér inn sem brtt. við þetta frv., en það er frv. um bústofnslánasjóð.

Ég ætla ekki að ræða þetta á þessu stigi málsins, en ég vænti þó, að flestum sé það ljóst, að þetta mál er yfirgripsmeira en svo, að það liggi ljóst fyrir, að hægt sé að samþykkja þessar till., eins og þær koma fram hér í brtt. minni hl. n. En á hitt vil ég leggja áherzlu, að með brtt. minni er gerð tilraun til að bæta að nokkru úr þessu vandamáli. Það skal að vísu játað, að það er nokkuð ósýnt, að hve miklu liði það kann að koma. En ég held þó, að það sé þess virði að samþykkja till. og sjá, að hverju gagni hún má koma.

Meiri hl. n. leggur sem sagt til, að frv. verði samþykkt, eins og það liggur fyrir á þskj. 235.