25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Það er aðallega vegna þeirrar fsp., sem hv. þm. Lúðvík Jósefsson bar fram um afstöðu mína til till. hans um framleiðnimálin, þar sem hann leggur til á þskj. 258, að varið verði úr ríkissjóði á árinu 1964 43 millj. kr. til framleiðniaukningar í landbúnaði.

Ég lýsti hér áðan till. okkar minni hl. í sambandi við þetta mál. Við leggjum þar til sérstakan bústofnslánasjóð til þess að auka möguleika smábændanna til að stækka bú sín, og auk þess leggjum við til framlag úr ríkissjóði, 25 millj. kr. á ári í 25 ár, til að lána til framleiðniaukningar, þ.e. til þess að hjálpa bæði smábændum og frumbýlingum til að eignast tæknibúnað, sem nauðsynlegur er í sambandi við búreksturinn. Ég álít, að þessar till. okkar gangi nokkru lengra en sú till., sem hann hefur hér lagt fram og er eigi að síður góðra gjalda verð, og þess vegna verð ég að segja fyrir mitt leyti og tala þá eingöngu um mína eigin afstöðu, að ef till. þær, sem minni hl. hefur borið fram, skyldu falla hér við atkvgr., mun ég að þeim föllnum greiða atkv. með till. hv. 5. þm. Austf.

Hv. 3. þm. Austf, vildi koma því orði á um till. minni hl., að þær væru af ábyrgðarleysi fram bornar. Þetta hefur maður heyrt áður hér um okkar till., og er kannske ekki nema mannlegt, að stjórnarliðið vilji stimpla minni hl. þannig, að hann sé ábyrgðarlaus. En sannleikurinn er sá, að það hefur nú verið þannig, að þær till., sem taldar voru ábyrgðarleysi í fyrra og við bárum þá fram, einmitt um það að færa ræktunarprósentuna upp að 25 ha. markinu, þ.e. breyta hlutfallinu úr 15 ha. í 25, það var talið ábyrgðarleysi þá, en nú ber stjórnin þetta frv. fram ári seinna, svo að þetta er gamall söngur, sem ég að vísu geri lítið úr. En sannleikurinn er sá, að með því að bera fram allróttækar till. til umbóta á hinum ýmsu sviðum mála í þjóðfélaginu fær maður þó að síðustu verulegar lagfæringar á þeim sviðum, sem slíkar till. fjalla um. Og þess vegna mun ég ekki glúpna á nokkurn hátt fyrir því, þó að mínar till. eða minna samherja séu hér taldar ábyrgðarleysi, og mun halda áfram að bera slíkar till. fram eftir sem áður.

Hv. 3. þm. Austf. las hér upp till., sem samþykkt var vestur í Borgarfirði, ég man nú ekki, hvaða ár hann sagði það hafa verið, en á tímabili vinstri stjórnarinnar þar sem hafi verið farið þeim orðum um, að þá væri hætta á, að sveitir færu í eyði. Vitanlega hefur þessi hætta alltaf verið fyrir hendi, að sveitir gætu farið í eyði, ef ekki væri af hálfu löggjafarvaldsins búið þannig um hnútana og í garðinn búið þannig, að þessi atvinnuvegur gæti fengið þá aðstoð, sem honum væri nauðsynleg. Um ræktunarsjóðinn er það að segja, að ég veit ekki til þess, að þessi till. hafi verið á þeim rökum reist, að ræktunarsjóður hafi ekki lánað mönnum. Og ég hef aldrei heyrt það, að nokkur maður hafi farið bónleiður til búðar frá ræktunarsjóði á þeim árum. Ég hygg, að menn hafi, yfirleitt fengið þau lán, sem þeir báðu um, og flestir voru leystir út með þessi lán fyrir jólin, alveg eins og er nú enn í dag eftir þá breyt., sem gerð hefur verið á lögum þessara lánastofnana. Og það var þá, eins og er auðvitað enn í dag, það varð að útvega þetta fjármagn að láni, — það varð að útvega þetta fjármagn að láni til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, og sama sagan er enn í dag, þó að það heiti stofnlánadeild. Ég hygg, að ríkisstj. verði að útvega meginhlutann af þessu fé, sem lánað er úr þessari stofnlánadeild, hún verði að útvega það að láni. Þetta er eðlilegt og ekkert við því að segja. En það er þannig alveg að þessu leyti sama ástandið og var.

Hins vegar fer það ekki á milli mála, að ástandið í sveitunum er þannig nú, að sveitafólkið er á hröðum flótta frá landbúnaðinum. Það dettur engum manni með fullu viti í hug annað en viðurkenna það, fólkið er á hröðum flótta frá landbúnaðinum. Það hefur ekki sömu tekjur og sömu lífsmöguleika, fjöldinn allur af þessu fólki, og það getur haft eða því er boðið við aðra atvinnuvegi, hvort sem þeir atvinnuvegir nú bera það kaupgjald, sem þeir hafa verið látnir borga fólkinu og auglýsa eftir því fyrir. En — ýmsir atvinnuvegir við sjávarsíðuna auglýsa mjög eftir fólki fyrir hátt kaup, og það er ekki nema mannlegt, að menn fari þangað, sem eldurinn bezt brennur. Jafnvel þó að þeim hafi þótt og þyki vænt um sveitina sína og jörðina sína, þá verða þeir þó að hafa skilyrði til þess að lifa nútímalífi, því að menn sætta sig ekki við sams konar lífskjör núna og aðstöðu eins og var t.d. fyrir 50–60 árum. Nú vilja menn hafa tækni og alls konar þægindi, og þetta allt saman kallar á auknar tekjur. Og það er náttúrlega margt, sem er samverkandi um þennan fólksflótta. Það er fyrst og fremst þessi mikla eftirspurn eftir vinnuafli við sjávarsíðuna og það háa kaup, sem þar er í boði, því að það er oft og tíðum miklu hærra kaup í boði en það, sem skráð er í töxtum og samningum milli atvinnuveitenda og launþega, og þar á ofan er það, að ríkisvaldið hefur ekki stutt landbúnaðinn á þann hátt, sem hann hefði þurft nú á síðustu árum.