03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að setja upp harða eða langa ræðu út af því, sem hv. síðasti ræðumaður var að segja, en ég vildi aðeins drepa hér á nokkur atriði í tilefni af orðum hans.

Hv. þm. segir, að þetta frv. gangi of skammt, það þurfi meira til, vegna þess að landbúnaðurinn eigi nú við marga örðugleika að stríða. Landbúnaðurinn á nú við ýmsa örðugleika að stríða, og það hefur landbúnaðurinn alltaf átt, frá því að land byggðist, margs konar erfiðleika. Og þeir smábændur, sem ég gerði að umtalsefni hér áðan, hafa vitanlega alltaf lifað við bág kjör. Það er ekki nýtt. Þessi smábú hafa aldrei þolað vélvæðingu eða aukinn kostnað. Og það hefur verið ástæða til þess að spyrja, hvernig stendur á því, að það er svona mikið af smábændum í landinu, þar sem flokkur hv. þm., sem talaði hér áðan, hefur í þrjá áratugi lengst af farið með landbúnaðarmál og haft tækifæri til þess að veita landbúnaðinum aðstoð, sem að gagni gæti komið. Það er ekki nema eðlilegt, að þessar spurningar vakni. Og ég hygg, að það sé flestum ljóst, að 1957, þegar markið var sett í 10 ha. hvað aukinn stuðning við ræktun snerti, og það veit hv. þm., að 1957 lifðu þeir bændur ekki sældarlífi, sem höfðu tún undir 10 ha. eða um það. Og ég er alveg sannfærður um, að þessi hv. þm., sem þá var á Alþingi og studdi ríkisstj., vissi þá, að það var þörf á að ganga lengra en þá var gert. Og við sjálfstæðismenn bentum á það undir umr., að það þyrfti að gera meira en veita stuðning við 10 ha, og þar fyrir neðan. En svarið, sem þá var gefið af þáv. hæstv. landbrh. og þáv. formanni Framsfl., var þetta, að það þýddi ekki að vera að bera fram óskalista í þessu sambandi, það væri ekki unnt að ganga lengra en það, sem fjárhagur ríkisins leyfði. Og það eru aðeins 6–7 ár síðan þetta var, að hv. framsóknarmönnum fannst sjálfsagt að miða útgjöldin við það, sem fjárhagur ríkisins þoldi. Og það má vel vera, að að áliti þeirra, sem með stjórn fóru þá, hafi fjárhagurinn alls ekki leyft meira, og ég vil trúa því, að það hafi verið, vegna þess að hv. þm., sem talaði hér áðan, hefur áreiðanlega gert sér ljóst þá, að 10. ha, tún var of lítið 1957 eins og 15 ha. er of lítið núna, og eins og ég vil vænta, að 25 ha. verði eftir vissan tíma, því að 25 ha. markið, sem sett er með þessu frv., er vitanlega ekkert lokatakmark.

Hv. þm. talaði um það hér áðan, að framsóknarmenn hafi á þessu þingi og áður flutt ýmsar till. og frv., sem miða að auknum stuðningi við landbúnaðinn, og þetta er rétt. Síðan framsóknarmenn komust í stjórnarandstöðu, hafa þeir verið stórtækir í tillögu- og frumvarpsflutningi hvað þetta snertir. En það fór miklu minna fyrir þessu á þeim árum, sem þeir voru í ríkisstj. og báru ábyrgð á henni. Og það er áreiðanlega fróðlegt, enda sjálfsagt að gera það, að taka saman útgjaldatillögur framsóknarmanna á þessu þingi, taka þær allar saman, sjá, hve miklar upphæðir þetta eru, og bera þær svo saman við þær till., sem fluttar voru, á meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj. síðast, í vinstri stjórninni, til stuðnings landbúnaðinum. Ég er viss um, að þetta verður fróðlegur samanburður fyrir þá, sem vilja kynna sér hann, og ég get búizt við því, að það sé rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að framsóknarmenn munu halda áfram þing eftir þing að flytja till. og frv. í þessa átt, á meðan þeir eru utan stjórnar. Og samkv. reynslunni skiptir um, ef þessi flokkur kemur í ríkisstj., því að landbúnaðurinn væri ekki svo skammt á veg kominn í ræktun sem raun ber vitni, það væri ekki svo mikið af smábændum í landinu eins og staðreyndirnar segja nú til um, ef Framsfl. hefði veitt landbúnaðinum í þau nærri 30 ár, sem hann hefur farið með stjórn, slíkan stuðning sem hann leggur til að gert verði nú, á meðan hann er í stjórnarandstöðu.

Ég vil aðeins drepa á þetta að gefnu tilefni og minna á það, sem reyndar öllum landslýð er kunnugt, að framsóknarmenn hafa tvær stefnur, aðra, þegar þeir eru í ríkisstj, og bera ábyrgð á henni, og aðra, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu.

Hv. þm. minnti hér áðan á nokkur frv., sem flutt hafa verið á þessu þingi af framsóknarmönnum. Frv. um bústofnslánasjóð, það frv. út af fyrir sig er algerlega óþarft, vegna þess að samkv. stofnlánadeildarlögunum er heimilt að lána til bústofnskaupa. Það, sem vantar, er aukið fé í stofnlánadeildina, til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Um veðdeildina er það að segja, að hún hefur mörg undanfarin ár verið algerlega fjárvana, og það er vitanlega rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, það er stór þörf á því að efla veðdeildina. Og það var og ekki síður þörf á því, meðan framsóknarmenn voru í ríkisstjórn, en þeir bara gerðu það ekki, ekki af viljaleysi, heldur vegna þess, að þá var ekki til fé. Veðdeildin var lokuð, á meðan framsóknarmenn voru í ríkisstjórn. Hún hefur þó verið opnuð nú, en hefur enn allt of lítið fjármagn. En samkv. l. um stofnlánadeild er heimilt að kaupa veðdeildarbréf árlega fyrir 10 millj. kr., og ef það væri gert, það væri hægt að leggja veðdeildinni til árlega 10 millj. kr., er hún það sem við getum sagt starfandi, þótt það sé að mínu áliti einnig of lítið fjármagn.

Um stofnlánadeildina ætla ég ekki að ræða að þessu sinni eða 1% gjaldið. Ég tel, að stofnlánadeildin sé farin að tala fyrir sig sjálf og það sé þess vegna algerlega ástæðulaust að vera að eyða tíma í það að taka upp vörn fyrir hana, þegar hv. framsóknarmenn eða aðrir eru að reyna að ráðast á það virki. Bændur eru farnir að skilja þýðingu stofnlánadeildarinnar, að það er mikils virði að byggja upp stofnun, sem veitir þeim lán, og bændur vita, hvernig fjárhag búnaðarsjóðanna var komið, áður en lög um stofnlánadeild voru sett, og sá samanburður er stofnlánadeildinni vissulega í hag. Og það er öruggt, að þeim fækkar, sem koma með hnjóðsyrði út af þessu 1% gjaldi, því að það fá bændur aftur með betri vöxtum en nokkuð annað, sem þeir hafa lagt til.

Ég ætla ekki að bera 1% gjaldið til stofnlánadeildarinnar saman við 1% gjaldið, sem fer að miklu leyti til Bændahallarinnar. Ég skal láta það vera að fara að ræða um það. En ekki er ég í nokkrum vafa um, hvort er þýðingarmeira fyrir landbúnaðinn, og þess vegna undrast ég það, að jafnvel hv. síðasti ræðumaður hér áðan talaði um, að það væri þungt fyrir bændur að borga 1% gjald í stofnlánadeildina, en minntist ekki á bændahallargjaldið. Það er ekki hægt að segja, að sé samræmi í slíkum málflutningi, og ef það væri hugsun á bak við slíkan málflutning, þá væri það vissulega ekki rökrétt hugsun, sem þar lægi á bak við.

Eins og ég áðan sagði, gerir þetta frv. ráð fyrir 13 millj. kr. framlagi árlega til ræktunar- og byggingarmála, og það er 80% hækkun miðað við það fjármagn, sem Landnámið hefur nú til umráða. Það er enginn vafi á því, að með þessu frv. hefur verið stigið stærra spor til stuðnings ræktunarmálum í landinu en nokkru sinni áður. Það er enginn vafi á því, enda sagði hv. þm., að Framsfl. mundi fylgja þessu frv., en leitast við að fá brtt. samþykktar, sem ganga lengra.

Ég vil benda á, að það er annað frv., sem er samferða þessu frv., sem gerir ráð fyrir 7 millj. kr. árlegu framlagi, og er þá aukningin til ræktunarmálanna á einu þingi orðin um 20 millj. kr. Þetta er stærra átak en nokkru sinni áður, og við getum flett upp í þingsögunni og kynnt okkur það. Og þetta er gert af þörf. Þetta er gert til þess að reyna að koma fótunum undir smábændurna, sem eiga í erfiðleikum nú og hafa alltaf átt í erfiðleikum. Það dettur engum í hug, að smábændurnir með 100 kindur og 2–3 kýr hafi lifað sældarlífi, þótt framsóknarmenn hafi verið í stjórn og farið með landbúnaðarmál. Og ég ætla ekki að ásaka neinn. Við skulum bara vera sammála um, að það er þjóðarnauðsyn að breyta þessu. Við vitum, að bændur, sem hafa ekki meiri framleiðslu en þetta, geta ekki fengið fullt kaup. Og þeir afkasta ekki heldur fullu dagsverki. Þess vegna þarf að lyfta undir þá, hjálpa þeim til þess að bæta efnahag sinn og verða um leið nýtari og betri borgarar.

Ég get tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að það er æskilegt að gera meira og ganga lengra. En ég veit, að hv. þm. er það veraldarvanur og það fús til að líta í eigin barm, að hann viðurkennir, að það þýðir ekki nú, þó að framsóknarmenn séu ekki í ríkisstj., að ætla sér að fá allt á einu þingi, sem við teljum æskilegt að fá.

Skal ég þá ekki hafa þessi orð öllu fleiri nú, en lýsi ánægju minni yfir því, að hv. þm. fór að nokkru viðurkenningarorðum um frv. og vildi í öðru orðinu a.m.k. unna því sannmælis, að hér væri verið að gera myndarlegt átak, sem gæti orðið landbúnaðinum og þá sérstaklega smábændunum til góðs.