03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv. mun nú fara til n. þar sem ég á sæti, og gefst mér þá kostur á að taka það til athugunar, gera við það breytingar og ræða það nánar við síðari umr. málsins. Ég ætla því ekki að tala langt mál um þetta efni nú að þessu sinni og hefði raunar látið það undir höfuð leggjast að taka til máls við þessa umr., ef ég teldi ekki ástæðu til að segja örfá orð út af síðustu ræðu hæstv. landbrh. og leiðrétta nokkur atriði, sem komu fram.

Hæstv. ráðh. lét orð liggja að því, að Framsfl. hefði tvær stefnur í landbúnaðarmálum, aðra, þegar hann væri í stjórn, og hina, þegar hann væri utan stjórnar. Ég vil út af þessu minna á, að Framsfl. hefur, allt frá því að hann tók til starfa í landinu fyrir meira en 40 árum, borið landbúnaðinn mjög fyrir brjósti og átt frumkvæði að og forgöngu um margt af því bezta, sem sett hefur verið í landbúnaðarlöggjöf hér á landi á þessum tíma. Ég ætla ekki í þessum fáu orðum að fara að rökstyðja þetta með langri upptalningu einstakra mála, en ég vil aðeins minna á, að Framsfl. átti forgöngu að stofnun byggingar- og landnámssjóðs og hafði forgöngu um stofnun Búnaðarbankans á sinni tíð, og síðan hefur verið byggt á þeim grunni, sem þá var lagður, og sú stofnun þróazt í það horf, sem nú er orðið. Mér dettur ekki í hug að ætla, að hæstv. landbrh. sé raunverulega svo fáfróður, að hann viti ekki þetta, svo að þau ummæli, sem hann hafði í þessu sambandi, hljóta að vera sögð gegn betri vitund.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, að Framsfl. hefði talið það nægilega stórt skref 1957 að veita sérstakan stuðning til ræktunar á jörðum, sem hefðu minna en 10 ha. véltækt tún, og þá ekki viljað ganga lengra. Við verðum að skoða þetta í réttu ljósi. Landbúnaðarmálin alveg eins og aðrar greinar þjóðmála þróast til aukins vantar, eftir því sem þjóðinni vex bolmagn, fjárhagslegt bolmagn, og það verður að skoða þróun landbúnaðarins á hverjum tíma í samræmi og í samhengi við það, sem er að gerast í öðrum atvinnugreinum.

Ég vil leyfa mér að minna hæstv. landbrh. á, að á árabilinu 1944–1947 sat hér að völdum í landinu hin svokallaða nýsköpunarstjórn, sem Framsfl. átti ekki aðild að. Hún beitti sér fyrir uppbyggingu á ýmsum sviðum, einkum í sjávarútveginum, og sjálfstæðismenn hafa stundum talið, að nýsköpunarstjórnin hafi einnig verið stórtæk á sviðum landbúnaðarins. En var það ekki í l. um byggingar- og landnámssjóð, sem sett voru á þessu stjórnartímabili, að miða skyldi við 5 ha. véltækt tún á nýbýlunum? Þegar sá, sem nýbýli tók, tæki þar við búskap, þá átti hann að fá 5 ha. tún á býlið. Síðan átti hann með þeim takmörkuðu fjármunum, sem hann hafði yfir að ráða, að bæta þar við, en lengra var ekki gengið af hálfu ríkisvaldsins í þessu efni, svo að 10 ha. markið, sem sett var að tilhlutan Framsfl. 1957, var verulega stórt skref í áttina til þess að bæta um að þessu leyti.

Ég vil nú segja hæstv. ráðh., að ég ætla ekki að tala langt mál, ef hann gæti hinkrað við svo sem 10 mínútur, það væri mér ánægja. (Landbrh.: Það á að slíta búnaðarþingi kl. hálffjögur, og ég verð þess vegna að fara fram á það við forseta, að hann fresti umr., og við getum talað saman í næði á næsta fundi. En það er náttúrlega kannske ekki þörf á því, við getum gert það við 2. umr.) Já, ég tek þessa afsökun ráðh. gilda, ég skil það. (Landbrh.: Já, við ræðum þá um það við næstu umr.)

Síðan 1957 hefur þróunin í þjóðfélaginu verið í þá átt, að það hefur verið vöxtur í atvinnulífinu. Skipin stækka mjög ört. Þjóðin reisir stærri og stærri orkuver og færist meira og meira í fang á flestum sviðum. Og þegar landbúnaðarmálin eru skoðuð í samhengi við þetta, þessa þróun, þá er það alls kostar eðlilegt, að markið um vélfær tún á hverri jörð sé fært hærra og hærra, eftir því sem þessi þróun kemst lengra. Það hefur verið svo, að þegar við framsóknarmenn höfum á undanförnum þingum flutt till. um að færa markið um ræktun á þeim jörðum, sem hafa lítil tún, upp í 20 ha., þá hefur hæstv. ráðh. talið það vera yfirboð og óraunhæft að ætla sér að setja markið svo hátt. En nú hefur hæstv. ráðh. séð að sér og leggur til, að þetta mark verði miðað við 25 ha., og út af fyrir sig tel ég það rétt og að með því sé gengið í rétta átt, eins og tekið hefur verið fram af öðrum ræðumanni, sem talað hefur af hálfu Framsfl. við þessa umr.

Þegar við svo lítum til þess, hvað þessi framkvæmd kostar, og förum að líta á, að þetta frv., sem hér er til umr., muni baka ríkissjóði aukin útgjöld, sem nema 13 millj. kr., þá verðum við einnig að skoða það í samhengi við fjárlögin í heild. Þegar Framsfl. beitti sér fyrir því 1957 að veita sérstakan stuðning á ræktun upp á 10 ha., var heildarniðurstaða fjárl. um 800 millj. kr., en nú eru fjárl. komin upp í 2700 millj., og er þá ekki talin með hin síðasta hækkun á söluskatti né hinn nýi skattur á benzín, sem fer til vegamála, svo að ef það er tekið inn í dæmið, mun láta nærri, að fjárl. séu raunverulega um 3 milljarðar. Og þegar þessar tölur eru athugaðar, eru einar 13 millj. sem útgjaldaauki, sem af þessu frv. mun leiða, ekki neitt sérstaklega stórvægilegur liður.

Ég mun svo ekki við þessa umr. fara fleiri orðum um málið, en gefst tækifæri til að athuga það nánar fyrir 2. umr., eins og ég hef áður tekið fram.