06.04.1964
Efri deild: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eftir því sem samhjálp og félagshyggja þegnanna setur meiri svip á þjóðlífið, þeim mun betra er þjóðfélagið. Og því meira tillit sem tekið er til þessa í löggjöfinni, því fremur er stefnt að því að bæta það þjóðfélag, sem við störfum í. Á þetta er oft minnt í sambandi við almannatryggingar og eflingu þeirra. En þessa gætir minna, þegar líta þarf á hag atvinnuveganna, og stefna núv. hæstv. ríkisstj. færir að ýmsu leyti frá þessu marki, þar sem hún grundvallast á því, að fjármagnið safnist í auknum mæli á fáar hendur, en að sama skapi verður aðstaða margra hinna, sem veikari eru, erfiðari en ella. En löggjafarvaldið þarf þó eigi að siður að veita atvinnuvegunum stuðning og líta á þeirra hag, hag þeirra mörgu, sem að framleiðslunni vinna.

Það hefur verið allmikið um það deilt hér á hv. Alþingi, hvort nægilega hafi verið hlynnt að landbúnaðinum í löggjöf á undanförnum árum eða ekki. Hæstv. ríkisstj. og liðsmenn hennar segja: Sjá, allt, sem við höfum gert, það er harla gott. — En framsóknarmenn líta öðrum augum á þessi mál. Við framsóknarmenn höfum iðulega bent á það hér á þingi og utan þings, að of skammt sé gengið fyrir hönd landbúnaðarins í ýmsum greinum og margt af því, sem gera þarf, ógert látið. Það má segja, að hér standi staðhæfing gegn staðhæfingu, en það er öllum hollt og raunar skylt að meta þetta rétt. Ef það á að gera, verður að skoða þessi mál af nokkru hærri sjónarhól heldur en líta eingöngu á dægurmálin, sem við er fengizt hverju sinni, og líta á, frá hvaða tímabili sú löggjöf er, sem valdið hefur þáttaskilum í starfi landbúnaðarins og orðið honum mest til gengis. Það yrði of langt mál og fellur raunar ekki inn í þann ramma, sem hér er markaður, að fara að rekja þá sögu ýtarlega í einstökum atriðum, en ég vil þó finna þessum orðum stað með því að nefna örfá dæmi frá liðnum árum.

Á stjórnartímabili Framsfl. 1927–1931 voru sett mörg nýmæli í löggjöf, og landbúnaðurinn var þá settur í öndvegi. Þegar ríkisstj. Hermanns Jónassonar settist að völdum 1934 og samstjórn Framsfl. og Alþfl. hófst, var það eitt af fyrstu verkum þeirrar stjórnar að setja ný afurðasölulög. Þessi afurðasölulög hafa orðið bændastéttinni til ómetanlegs hags.

Nýsköpunarstjórnin 1944–1946 virtist vilja fremur snúa sér að öðrum viðfangsefnum en eflingu landbúnaðar, en þó er rétt að geta þess, sem gert var, að undir hennar stjórn tókst þó að fá fram löggjöfina um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Að þeirri lagasetningu var nokkur aðdragandi og þar var tregðu að mæta, en það tókst þó að fá þessa löggjöf setta á stjórnartíma nýsköpunarstjórnarinnar, en þetta nýmæli í löggjöf hefur valdið þáttaskilum í sveitunum með stofnun ræktunarsambandanna og þeim stórvirku framkvæmdum, sem síðan hafa orðið.

Ef við lítum síðan á stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, þá voru undir hennar forustu sett framleiðsluráðslögin, sem bændur búa við enn í dag og hafa áreiðanlega orðið bændastéttinni til mikilla hagsbóta, þótt þau lög þurfi nú lagfæringar við. Þá voru einnig sett lög um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, lög um áburðarverksmiðjuna, svo að nokkuð sé nefnt. Allt eru þetta stórmerk nýmæli, sem hafa haft mikið gildi fyrir landbúnaðinn.

Undir forustu stjórnar Steingríms Steinþórssonar frá 1950–1953 voru jarðræktarlögin sett, sem í raun og veru gilda enn í dag með nokkurri viðbót frá. 1955, og nú þegar þau eru tekin til endurskoðunar, eru margar greinar um framlög samkv. jarðræktarlögunum látnar standa óbreyttar frá því, sem þá var ákveðið. Stærra er ekki skrefið nú, þrátt fyrir þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa. Þá voru einnig í sambandi við löggjöf um Framkvæmdabankann landbúnaðinum tryggð föst fjárframlög til stofnlánadeildarinnar af mótvirðisfé og það beinlínis bundið í löggjöfinni.

Ef litið er á stjórnartímabil vinstri stjórnarinnar frá 1956–1958, má minna á, að þá voru sett heildarlög um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, þar sem m.a. var kveðið á um aukaframlag til ræktunar á þeim jörðum, sem höfðu þá minna en 10 ha. tún, og var það algert nýmæli. Þá var enn fremur hækkað úr 2½ millj. í 5 millj. árlegt ríkisframlag til ræktunar á nýbýlum. Þá var í fyrsta skipti um langt tímabil heimilað að veita óafturkræft framlag til íbúðarhúsa á nýbýlum, 25 þús. kr., og í fjárl. sett sérstök fjárveiting til þess. Af þessu nýmæli spratt svo síðar það að færa þetta út til íbúðarhúsa á eldri býlum. Fleira var um nýmæli í þeirri löggjöf, svo sem sérstakan stuðning til garðyrkjubýla og smábýla, sem styðjast við iðnað, og fleira mætti telja.

Þegar þetta er skoðað og í sambandi við þá löggjöf, sem fyrrv. ríkisstj. hafa beitt sér fyrir, verður mér að spyrja: Hvar eru hin stóru nýmæli í landbúnaðarlöggjöf, sem sett hafa verið fyrir forustu núv. hæstv. ríkisstj.? Hvar er alla þá lagabálka að finna? Í nál. frá meiri hl. landbn. í hv. Nd. er gert nokkurt yfirlit yfir þessi efni. Og það yfirlit er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Er því rétt að rifja upp nokkrar breytingar, sem gerðar hafa verið á þessum tvennum lögum síðustu árin. 1960 var ákveðið, að 25 þús. kr. byggingarstyrkur, sem veittur var til byggingar íbúðarhúsa á nýbýlum, skyldi einnig ná til endurbygginga á jörðum hjá efnalitlum bændum. Hefur það ákvæði síðan verið ómetanlegur stuðningur mörgum efnalitlum bónda. Þá var einnig framlengt um 4 ár, til ársloka 1964, ákvæðið um aukastuðning við ræktun upp að 10 ha, býli, en upphaflega var því ákvæði aðeins ætlað að gilda til ársloka 1960. Árið 1961 er stuðningurinn til íbúðarhúsabygginga aukinn um 40 þús. kr. Á síðasta Alþingi var svo ræktunarmarkið fært úr 10 ha. í 15 ha., sem hærra framlags nýtur, og byggingarstyrkur hækkaður í 50 þús. kr. til íbúðarhúsa hjá þeim bændum, sem hafa meðaltekjur eða lægri. Með þeim tveim frv., er nú liggja fyrir, er svo gert stórfellt átak til stuðnings landbúnaðinum og stærra en áður hefur verið gert í einu lagi.“

Þetta er allt rétt, að því frádregnu, að fullmikið sé lagt í þessa síðustu setningu, sem ég las. En þetta eru ekki stórfelld nýmæli. Þetta er lagfæring á eldri ákvæðum, þar sem þau eru færð til leiðréttingar við gildandi verðlag, og því miður verður að segja þá sögu eins og hún er, að þrátt fyrir þessar lagfæringar, sem gerðar hafa verið með þessum hækkuðu framlögum, standa þeir, sem þeirra njóta, líklega ekkert betur að vígi en áður var vegna verðlagsþróunarinnar í landinu á sama tíma. M. ö. o.: það var þessi raunasaga, að þessi hækkuðu framlög hafa horfið til þess að mæta verðhækkunum svo að segja jafnóðum. Þetta er því fremur andóf gegn því að láta reka undan straumi heldur en að um stór nýmæli sé að ræða.

Nú hafa framsóknarmenn á þessu þingi og raunar áður borið fram mörg mál, sem landbúnaðinn varða. En það er sama sagan, hvar sem borið er niður, að þau mál fást ekki afgreidd. Þeim er ýmist alls ekki skilað frá nefndum eða þá vísað frá og áhrifum þeirra eytt. Við höfum t.d. ár eftir ár borið fram eitt nýmæli um stuðning við bændur, sem rækta korn. Það fæst ekki samþykkt, og ekki aðeins það, að okkar frv. sé ekki tekið gilt, heldur er engri lagasetningu komið fram um þetta efni. Og nú er það svo, að það var mikil hreyfing af hálfu bændasamtakanna á s. l. ári að fá gerðar lagfæringar á framleiðsluráðslögunum. Um þetta voru haldnir fundir í landsfjórðungum. Forustumenn búnaðarsambandanna komu saman á ráðstefnu hér í Reykjavík, og auk þess hafa Stéttarsambandið og framleiðsluráðið unnið að þessum málum fyrir sitt leyti.

Og niðurstaðan varð sú, að bændasamtökin urðu að lokum sammála um frv., sem mun vera í vörzlu hæstv. landbrh. En ég heyrði hæstv. ráðh. skýra frá því í umr. í Nd. fyrir nokkru, að hann sæi sér ekki fært að verða við þeim tilmælum að bera fram þetta frv., sem bændasamtökin hafa orðið sammála um og vilja fá lögfest.

Hér er aðeins rifjuð upp saga og drepið á staðreyndir, en þær eru þess eðlis, að þær segja meira um það, sem snýr að landbúnaðinum um þessar mundir frá hálfu löggjafarvaldsins, heldur en mörg almenn orð.

Ég mun svo þessu næst víkja nokkrum orðum að því frv., sem hér liggur fyrir.

Það getur ekki leikið á tveim tungum, að landbúnaðurinn þarf á stuðningi löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins að halda, eigi síður nú en oft áður. Ég geri ráð fyrir, að um það út af fyrir sig séu allir sammála. Og ég er þeirrar skoðunar og við framsóknarmenn, að þar þurfi að vinna samtímis að endurbótum á allmörgum sviðum. Það verður að tryggja bændunum réttlátt afurðaverð. Er, þó að það sé gert, þá er það að mínum dómi ekki nægilegt eitt út af fyrir sig, m.a. vegna þess, að þeir, sem minnsta framleiðslu hafa, fá ekki nægilegan stuðning með því einu að hækka verðlagið á afurðunum. Það þarf fleira að koma til jafnframt. Það þarf að auka afurðalánin, eins og rætt hefur verið hér á hv. Alþingi, og veita þannig bændastéttinni og þeim fyrirtækjum, sem veita bændunum þjónustu, betri viðskiptaaðstöðu en ella. Það þarf enn fremur að draga úr fjármagnskostnaði við framkvæmdir í sveitum og sérstaklega við stofnun nýbýla og auka stuðning til þess fólks, sem er að hefja búskap. Eitt, sem kemur mjög til greina í því efni, er lækkun vaxta, eins og framsóknarmenn hafa beitt sér fyrir, bæði nú á þessu þingi og fyrr. Og loks þarf að auka stuðning við framkvæmdir í sveitum, eins og stefnt er að að vissu leyti með því frv., sem hér liggur fyrir.

Framsfl. átti frumkvæði að því fyrir mörgum árum að hafa stuðninginn af hálfu ríkisins við framkvæmdir í sveitum misjafnan eftir aðstöðu bændabýlanna. Þessi stefna fékk misjafna dóma fyrst í stað, en nú er svo komið, að það er almennt talið réttmætt að haga löggjöfinni á þessa lund, enda er þeirri stefnu greinilega fylgt í því frv., sem hér er til umr., þar sem sérstakt framlag á að veita til ræktunar á þeim jörðum, sem hafa minna en 25 ha. vélfært tún. Frv. stefnir því vissulega í rétta átt að dómi minni hl. landbn.

En við, sem skipum minni hl., teljum, að það þurfi að setja ákvæði um fleiri atriði til hagsbóta fyrir landbúnaðinn heldur en gert er með þessu frv. óbreyttu. Þess vegna vill minni hl. freista þess að fá frv. bætt að miklum mun, með því að hann ber fram brtt. á sérstöku þskj., sem mundu færa svið löggjafarinnar mjög út, ef samþykktar yrðu, og verða bændunum til enn þá meiri hagsbóta en frv., ef það verður samþykkt óbreytt.

Við leggjum til á þskj. 410, að komið verði á fót bústofnslánum, þannig að stofnlánadeildin veiti frumbýlingum og öðrum bændum til bústofnsaukningar og vélakaupa sérstök lán, og að stofnfé til þessara lána verði fengið þannig, að 40 millj. kr. verði óafturkræft framlag, sem ríkissjóður greiðir deildinni á næstu 8 árum með 5 millj. kr. framlagi á ári, en til viðbótar verði heimilað að taka 60 millj. kr. lán og ábyrgist fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu lánsins. Þessi bústofnslán skulu samkv. till. okkar veitt frumbýlingum og öðrum bændum, sem fullnægja að öðru leyti skilyrðum laganna. Vextir af bústofnslánum skulu ekki vera hærri en 5% en lánstíminn fer eftir ákvörðun bankastjórnar, en skal þó ekki vera lengri en 10 ár. Það skal og áskilið, að ef efnahagur lántaka breytist svo, að honum verði auðvelt að greiða lán sitt á skemmri tíma að dómi bankastjórnarinnar, geti hún gert honum að greiða hærri afborganir af láninu en annars er tilskilið. Enn fremur sé það áskilið, að ef lántaki breyti um atvinnuveg, sé bankastjórninni heimilt að ákveða, að lánið sé þegar gjaldfallið. Heimilt er bankastjórninni samkv. till. að ákveða, að lán skuli vera afborgunarlaust fyrstu 3 árin.

Enn fremur leggjum við til, að aukaframlagið eða hið sérstaka framlag til ræktunar á þeim jörðum, sem hafa minna en 25 ha. tún, verði ekki bundið við 50%, heldur samsvari því framlagi, sem nú er greitt vegna framræslu landsins, og verði 65%. Það mundi létta mjög undir fæti með þeim í bændastétt, sem örðugast eiga að leggja fram eigið stofnfé til framkvæmda.

Fyrr á þessu þingi hafa verið samþykkt lagaákvæði um sérstakt framlag til sjávarútvegsins til aukningar á framleiðni í þeim atvinnuvegi. Það er vissulega rétt, að stefnt sé að því að gera framleiðni atvinnuveganna sem mesta, og sjávarútvegurinn hefur út af fyrir sig ekki sérstöðu í því efni. Það er þjóðfélaginu öllu til hags, að svo verði í öllum höfuðatvinnugreinum. Við leggjum því til, að ríkissjóður greiði stofnlánadeild landbúnaðarins sérstakt framlag, 25 millj. kr. árlega næstu 5 ár, og fé þetta verði lánað bændum og búnaðarfélögum til framleiðniaukningar í landbúnaði, og skulu lánin vera til 30 ára með 2% vöxtum. Lánin skulu veitt að fengnum till. nýbýlastjórnar til vélvæðingar og tæknibúnaðar á sveitabýlum, svo sem til endurbóta á fóðurgeymslum og peningshúsum, súgþurrkunar, færibanda, mjaltavéla, dráttarvéla og jeppabíla og enn fremur til steypuhrærivéla, jarðtætara og annarra jarðyrkjuverkfæra, sem búnaðarfélög kaupa. Allt miðar þetta að því að létta störfin og auka afköst í atvinnuveginum, að tækni, sem hér er nefnd, sé tekin í þjónustu hans, og teljum við því réttmætt, að að því sé stuðlað með samþykkt þessarar till.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir brtt. þeim, sem við í minni hl. berum fram við þetta frv. Eins og ég hef áður tekið fram, mundi sú lagasetning, sem hér er fjallað um, verða mun víðtækari og áhrifameiri til hagsbóta fyrir bændastéttina, ef till. okkar ná samþykki. En ég vil að lokum endurtaka það, sem ég fyrr sagði, að frv. þetta stefnir vissulega í rétta átt, eins og það liggur fyrir af hálfu hæstv. ríkisstj., og þess vegna munum við, sem minni hl. skipum, styðja að framgangi frv., þótt svo fari, að brtt. okkar nái ekki samþykki.